Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1011  —  210. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um starfsréttindi tannsmiða.

Frá iðnaðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti, Írisi Bryndísi Guðnadóttur, Bryndísi Kristinsdóttur og Bjarna R. Jónsson frá Tannsmiðafélagi Íslands, Bolla Valgarðsson, Þóri Schiöth og Guðjón Kristleifsson frá Tannlæknafélagi Íslands, Sigurð Guðmundsson og Hólmfríði Guðmundsdóttur frá landlæknisembættinu, Reyni Jónsson frá Tryggingastofnun ríkisins og Peter Holbrook, Einar Ragnarsson og Elínu Sigurgeirsdóttur frá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Jafnframt bárust gögn og umsagnir um málið frá iðnaðarráðuneyti, Tannlæknafélagi Íslands, landlæknisembættinu, Félagi íslenskra tannfræðinga, fulltrúum Háskóla Íslands og tannlæknadeildar Háskóla Íslands í stjórn Tannsmiðaskóla Íslands, fulltrúum Tannsmiðafélags Íslands og Félags íslenskra tannsmíðaverkstæðiseigenda í stjórn Tannsmiðaskóla Íslands, Tannsmiðafélagi Íslands, tannlæknadeild Háskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samkeppnisstofnun, Landssambandi eldri borgara, Tryggingastofnun ríkisins og Félagi tanntækna og aðstoðarfólks tannlækna. Þá var málið sent heilbrigðis- og trygginganefnd til umsagnar sem skilaði umsögn um heilbrigðisþátt þess (sjá fylgiskjal).
    Í frumvarpinu er lagt til að tannsmiðum með meistararéttindi verði veittur réttur til að vinna sjálfstætt í iðngrein sinni án þess að þurfa að treysta á úthlutun verkefna frá tannlæknum. Í þessu skyni verður þeim gert skylt að sækja námskeið til starfsréttinda eftir nánari ákvörðun iðnaðarráðherra. Gert er ráð fyrir að hér verði um að ræða 133 tíma námskeið sem taki alls um fjórar vikur. Fyrirhugað er að þar verði m.a. kennd grunnatriði í meinafræði munnhols, sem og mótataka og mátun. Í frumvarpinu segir jafnframt að iðnaðarráðherra geti skyldað þá tannsmiði með meistararéttindi sem öðlast starfsréttindi samkvæmt ákvæðum þess til að vinna ákveðinn hluta starfs síns í samráði við tannlækni. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að í iðnaðarráðuneytinu er fyrirhugað að takmarka rétt tannsmiða samkvæmt frumvarpinu með reglum þannig að ef einhverjar tennur eru í munnholi viðskiptavinar verður tannsmiður að hafa samráð við tannlækni við smíði tanngóms eða tannparts fyrir viðkomandi viðskiptavin.
    Í frumvarpinu er það gert að skilyrði fyrir því að tannsmiðir með meistararéttindi geti starfað sjálfstætt að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar. Mikið var rætt um sjúkdóma í munnholi, einkum krabbamein, við meðferð málsins í nefndinni og töluverðar umræður urðu um það hver ætti að meta hvort þessi skilyrði væru fyrir hendi. Bent var á að tannlausir einstaklingar sem kunna að greinast með sjúkdóma á borð við krabbamein í munnholi fara að jafnaði ekki til tannlæknis að eigin frumkvæði heldur leita aðstoðar tannsmiðs milliliðalaust. Niðurstaðan var sú að eðlilegt væri að gera þá kröfu að viðskiptavinur tannsmiðs framvísaði vottorði læknis um að munnhol hans væri heilbrigt og ósýkt áður en vinna tannsmiðsins gæti hafist, og gerir nefndin breytingartillögu þessa efnis við 1. gr. frumvarpsins. Nánari útfærsla á því hversu lengi slíkt vottorð mundi gilda væri síðan í höndum ráðuneytis, en til viðmiðunar má nefna að í Danmörku er krafist nýs vottorðs ef fleiri en sex mánuðir hafa liðið frá dagsetningu vottorðs þegar smíði tanngóms hefst.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tannsmiðir með meistararéttindi geti á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta. Af hálfu Tannlæknafélags Íslands og tannlæknadeildar Háskóla Íslands voru verulegar athugasemdir gerðar við þá tilhögun að tannsmiðir gætu smíðað tannparta á eigin ábyrgð. Hefðbundnir tannpartar hafa stálgrind með krókum og festingum sem bindast aðliggjandi tönnum sem þarf að slípa til áður en smíðin sjálf getur hafist. Slík slípun er einungis framkvæmd af tannlækni. Jafnframt var á það bent að í Danmörku hafa klínískir tannsmiðir eingöngu heimild til sjálfstæðrar vinnu á eigin ábyrgð við heilgómagerð, en ekki við tannpartagerð. Því gerir nefndin það að tillögu sinni að 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að við smíði tannparta þurfi tannsmiðir að starfa í samvinnu við tannlækni. Tannsmiðum verður þá ekki heimilt að vinna sjálfstætt að frumsmíði tannparta heldur verður heimild þeirra til sjálfstæðrar vinnu við tannparta takmörkuð við viðgerð þeirra. Nefndin telur hins vegar eðlilegt að tannsmiðir geti sjálfir annast töku móta og mátun við smíði heilgóma. Ef mótataka og mátun ættu skilyrðislaust að heyra undir tannlækni væri verulega vegið að tannsmiðum og starfsgrundvelli þeirra þar sem töluverðar líkur væru á að viðkomandi tannlæknir mundi þá bjóða upp á áframhaldandi þjónustu, þ.e. smíði tanngóms.
    Talsvert hefur verið um það rætt hvort tannsmiðir eigi að flokkast sem heilbrigðisstétt eða sem iðnstétt eins og verið hefur. Tannsmíði er í eðli sínu iðngrein og tannsmiðir vilja sjálfir flokkast sem iðnstétt. Nefndin lítur svo á að eðlilegt sé að tannsmiðir teljist eftir sem áður til iðnstétta og bendir á að tekið er á snertifleti iðngreinarinnar við heilbrigðisstéttir með ákvæðum frumvarpsins um að tannsmiðir þurfi að sækja námskeið til að öðlast starfsréttindi og heimild til að setja reglur um að hluti af starfi þeirra skuli unninn í samvinnu við tannlækni. Jafnframt hafa tannsmiðir sjálfir lýst því yfir að þeir sjái enga meinbugi á því að heilbrigðisráðuneyti setji reglur um sóttvarnir og starfsaðstöðu þeirra tannsmiða sem lokið hafa fyrirhuguðu námskeiði til starfsréttinda. Til þess að taka af allan vafa um tengsl tannsmiða við heilbrigðisstéttir gerir nefndin breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að iðnaðarráðherra verði skylt að setja reglur um að hluti af starfi tannsmiða skuli unninn í samstarfi við tannlækni, sem og reglur um skilyrði starfsleyfa tannsmiða, m.a. um eftirlit landlæknis með tannsmiðum, og hafa við það samráð við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
    Nefndin lítur svo á að það muni leiða til aukinnar samkeppni milli tannlækna og tannsmiða verði tannsmiðum veitt aukin starfsréttindi. Samkeppnin mundi hafa í för með sér aukið hagræði og töluverðan sparnað fyrir ríkissjóð jafnt sem einstaklinga, einkum aldraða sem þurfa oft og tíðum að bera háan tannsmíðakostnað.
    Til þessa hafa íslenskir tannsmiðir ekki borið faglega ábyrgð á verkum sínum heldur hafa þeir tannlæknar sem tannsmiðir hafa átt í samstarfi við verið ábyrgir fyrir vinnu þeirra. Með því að tannsmiðum verði veitt heimild til að starfa sjálfstætt er fagleg ábyrgð á öllum þáttum þeirrar vinnu lögð þeim á herðar. Nefndin lítur svo á að aukinni ábyrgð hljóti að fylgja vönduð vinnubrögð og telur æskilegt að meistarar í tannsmíði geti að mestu leyti starfað sjálfstætt og á eigin ábyrgð að starfsgrein sinni. Nefndin bendir jafnframt á að með reglugerð og eftirliti iðnaðarráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði tannsmiðum búin sanngjörn og eðlileg starfsskilyrði.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Árni R. Árnason skrifar undir álitið með fyrirvara. Ásta R. Jóhannesdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara og mun leggja fram breytingartillögu í samræmi við meðfylgjandi álit heilbrigðis- og trygginganefndar.
    Ísólfur Gylfi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 2000.Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Drífa Hjartardóttir.Pétur H. Blöndal.


Árni Steinar Jóhannsson.


Rannveig Guðmundsdóttir.Árni R. Árnason,


með fyrirvara.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.Fylgiskjal.


    Umsögn heilbrigðis- og trygginganefndar.
(7. apríl 2000.)


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um starfsréttindi tannsmiða, 210. mál, í samræmi við bréf iðnaðarnefndar frá 15. mars sl.
    Nefndin fékk á sinn fund vegna málsins Bjarna Róbert Jónsson og Bryndísi Kristjánsdóttur frá Tannsmiðafélagi Íslands, Bolla Valgarðsson og Kristínu Heimisdóttur frá Tannlæknafélagi Íslands, Hrafn V. Tulinius frá Krabbameinsfélagi Íslands, Matthías Halldórsson og Hólmfríði Guðmundsdóttur frá landlæknisembættinu og Reyni Jónsson frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að tryggður verði réttur tannsmiða með meistararéttindi til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni, sem er löggilt iðngrein, við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum og þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun til að geta sinnt starfi sínu.
    Eftir viðræður við framangreinda aðila hefur nefndin komist að eftirfarandi niðurstöðum:
     1.      Lagt er til að starfsemi tannsmiða, sem öðlast hafa meistararéttindi, verði háð starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum. Umrædd starfsemi tannsmiða varðar heilbrigði fólks og því telur nefndin nauðsynlegt að skýr tenging verði við heilbrigðisstéttina. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að landlæknir hafi eftirlit með þessari starfsemi jafnframt annarri heilbrigðisstarfsemi og því geti tannsmiðir ekki alfarið heyrt undir iðnaðarlöggjöfina.
     2.      Lagt er til að heilbrigðisvottorð tannlæknis liggi fyrir áður en tannsmiðir hefjist handa við vinnu í munnholi sjúklings. Þannig væri það á ábyrgð tannlæknis að meta almennt ástand munnhols.
     3.      Lagt er til að tannsmiðir vinni ekki að gerð tannparta á eigin ábyrgð. Við tannpartagerð reynir, að mati nefndarinnar, á sérhæfða þekkingu sem tannlæknar einir hafa, svo sem á slípun tanna.
     4.      Að lokum er lögð til breyting á 3. málsl. 3. gr. frumvarpsins, í samræmi við 1. tölul. Málsliðurinn orðist svo: Iðnaðarráðherra skal, að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setja reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni og reglur um skilyrði starfsleyfis.