Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1021  —  189. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Jóhannesson frá samgönguráðuneyti, Jón Bernódusson, Sverri H. Konráðsson og Þórð Þórðarson frá Siglingastofnun Íslands, Guðberg Rúnarsson og Þorleif Valdimarsson frá Fiskifélagi Íslands, Benedikt Alfonsson frá Siglingaskólanum, Jónas Guðmundsson frá Snarfara og Egil Kolbeinsson frá Siglingasambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagi Íslands, Siglingastofnun Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, menntamálaráðuneyti, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Samtökum atvinnulífsins og Siglingasambandi Íslands.
    Tilgangurinn með frumvarpinu er að laga íslenskan rétt að alþjóðasamþykkt STCW frá 1978 um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna, sem tekur til áhafna flutninga- og farþegaskipa, en henni var breytt verulega árið 1995. Evrópusambandið hefur fullgilt samþykktina og sett tilskipanir um lágmarksþjálfun sjómanna, 94/58/EB, með breytingum í 98/35/EB. Þær eru hluti gerða sem taka verður inn í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins.
    Frumvarp þetta fékk ítarlega umfjöllun í nefndinni og gerir hún tillögu um fjölmargar breytingar á því. Þá ákvað nefndin að leggja til breytingar á lögum nr. 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, og lögum nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, samhliða afgreiðslu þessa máls. Eru þær nauðsynlegar til að samræmi sé milli laganna. Leggur nefndin áherslu á að þau lög verði tekin til heildarendurskoðunar með það að markmiði að setja heildarlöggjöf um áhafnir allra íslenskra skipa. Þá verði réttindi til vélstjórnar skoðuð sérstaklega með hliðsjón af nýrri tækni í vélarrúmum skipa og því að hvaða leyti hún geti haft áhrif á mönnun skipa og lengd náms vélstjóra. Mælist nefndin til að þessari vinnu verði hraðað og að lagt verði fram frumvarp í upphafi næsta þings á grundvelli hennar.
    Breytingarnar sem nefndin leggur til að verði gerðar á frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt og gildissvið laganna afmarkað betur, þ.e. að þau taki til allra flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta á íslenskri skipaskrá. Um skemmtibáta sem skráðir eru hér á landi gildi hins vegar aðeins 7. gr. laganna.
     2.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á skýringum á orðunum skírteini og brúttótonn í 2. gr. Einnig er lagt til að skilgreining á námsstigi falli brott þar sem hennar er ekki lengur þörf vegna annarra breytinga sem lagðar eru til á frumvarpinu. Lagt er til að skýrt verði hvað felist í orðinu áritun. Þá er lagt til að næsti maður í vél á eftir yfirvélstjóra verði 2. vélstjóri, en ekki 1. vélstjóri. Er það í samræmi við alþjóðasamþykktina.
     3.      Lögð er til sams konar breyting á 4. gr. varðandi vélstjóra og 2. gr., þ.e. að næsti maður í vél á eftir yfirvélstjóra verði 2. vélstjóri.
     4.      Lagt er til að töflur í 5. gr. frumvarpsins verði felldar brott og miðað við að þær verði í reglugerð sem sett verði á grundvelli laganna. Nauðsynlegt er að sveigjanleiki verði á skipulagi námsins þannig að ekki þurfi að koma til lagabreytinga í hvert sinn sem fyrirkomulagi og skipan náms er breytt eða fært að breyttum kennsluháttum. Þá leggur nefndin til að réttindaheiti og starfssvið verði í samræmi við alþjóðakröfur.
     5.      Lagt er til að tafla í 6. gr. verði felld brott líkt og í 5. gr. þar sem eðlilegra er að hún sé birt í reglugerð.
     6.      Lagt er til að tafla í 7. gr. frumvarpsins verði einnig felld brott. Þess í stað verði í 7. gr. kveðið á um að kenna skuli samkvæmt námskrá sem menntamálaráðuneytið staðfestir að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands og í samræmi við fyrirkomulag sem nú gildir. Mikilvægt er að hægt verði að stunda námið víða um land á námskeiðum og í sjómannaskólum. Tekur nefndin undir sjónarmið sem koma fram um 7. gr. í greinargerð frumvarpsins um nauðsyn þess að þeir sem stjórna skráningarskyldum skemmtibátum hafi tiltekna kunnáttu og þekkingu sem staðfest verði með útgáfu skírteinis.
     7.      Lagt er til að ákvæði 9. gr. frumvarpsins um skipan sérstakrar undanþágunefndar verði fellt brott. Eðlilegra er að Siglingastofnun Íslands, sem er fagstofnun um siglingar á sjó, taki ákvarðanir um undanþágur til að starfa á sjó án tilskilinna réttinda fremur en fulltrúar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.
     8.      Lagt er til að 10. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að Siglingastofnun Íslands taki við hlutverki undanþágunefndar sem fjallað er um í 9. gr. frumvarpsins um að veita undanþágur þegar brýna nauðsyn ber til og menn með tilskilin réttindi vantar til starfa. Nefndin leggur áherslu á að ekki verði veittar undanþágur nema nauðsynlegt sé þar sem undanþáguveitingar geta leitt til þess að sjómenn sjái sér engan hag í því að leita sér frekari menntunar og réttinda. Í þessu efni verði að finna réttan meðalveg.
     9.      Lagt er til að þeir sem hafa réttindi til að vera skipstjórar á 30 rúmlesta skipum öðlist rétt til að verða skipstjórar á bátum sem eru 75 brúttótonn eða minni, en í frumvarpinu er miðað við 50 brúttótonn. Nefndin telur nauðsynlegt að allir lögmætir handhafar 30 rúmlesta skírteinis við gildistöku laganna haldi réttindum sínum óskertum. Við meðferð málsins kom fram að nauðsynlegt er að miða við 75 brúttótonna báta til að ná því markmiði.
     10.      Lagt er til að 13. gr. frumvarpsins verði felld brott og að í stað þess að mönnunarnefnd ákveði mönnun flutningaskipa verði það falið Siglingastofnun Íslands.
     11.      Lagt er til að 14. gr. frumvarpsins verði breytt vegna hins sama, þ.e. að Siglingastofnun ákveði öryggismönnun allra íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta.
     12.      Lagt er til að bætt verði við frumvarpið nýrri grein um úrskurðarnefnd siglingamála sem hafi endanlegt ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi. Verði unnt að skjóta til hennar ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögunum, svo sem um útgáfu skírteina, áritana, veitingu undanþágna og mönnun skipa. Verði nefndin skipuð þremur mönnum.
     13.      Lagt er til að orðalagi 15. gr. verði breytt.
     14.      Lögð er til breyting á fyrirsögn 16. gr. þannig að hún verði í samræmi við efni hennar.
     15.      Lögð er til smávægileg breyting á orðalagi 17. gr.
     16.      Þá er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí nk. Nokkur tími mun því gefast til að kynna efni laganna og til útgáfu reglugerða.
     17.      Loks er lagt til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða. Er þar mælt fyrir um að þeir sem starfa á farþegabátum eða farþegaskipum skuli fyrir 1. júní 2001 sækja sérstakt námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu.
    Jón Bjarnason skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. apríl 2000.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Jón Kristjánsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Kristján L. Möller.


Jón Bjarnason,


með fyrirvara.