Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1022  —  189. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.

Frá samgöngunefnd.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi taka til áhafna flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa. Um skemmtibáta sem skráðir eru hér á landi gildir 7. gr.
     2.      Við 2. gr.
       a.      7. tölul. orðist svo: Áritun er viðurkenning skírteina erlendra ríkisborgara til starfa á íslenskum skipum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
       b.      10. tölul. orðist svo: Yfirmaður er skipstjórnar- eða vélstjórnarmaður á stjórnunar- eða rekstrarsviði.
       c.      12. tölul. orðist svo: 2. vélstjóri er sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið og rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess í forföllum yfirvélstjóra.
       d.      15. tölul. orðist svo: Skírteini er staðfesting á réttindum sem gefin er út í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Skal í því tilgreina á hvaða ábyrgðarsviði handhafi þess má vinna, á skipi hvaða gerðar og stærðar og með hvaða vélarafli og vélbúnaði.
       e.      19. tölul. orðist svo: Öryggismönnun er ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um lágmarksfjölda í áhöfn flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta.
       f.          Í stað orðanna „er mæling á“ í 20. tölul. komi: er mælieining fyrir.
       g.      Í stað orðanna „og 1. vélstjóra“ í a-lið 21. tölul. komi: og 2. vélstjóra.
     3.      Við 4. gr. Í stað orðanna „1. vélstjóri“ í 5. mgr. komi: 2. vélstjóri.
     4.      Við 5. gr. Greinin orðist svo:
             Til að starfa um borð í flutninga- og farþegaskipum sem skipstjórnarmaður eða vélstjórnarmaður eða til að gegna öðrum stöðum þar sem krafist er skírteinis samkvæmt alþjóðasamþykktinni skal viðkomandi vera lögmætur handhafi viðeigandi skírteinis og uppfylla skilyrði 3. mgr. 4. gr. til að starfa á því ábyrgðarsviði sem skírteinið kveður á um, sbr. 21. tölul. 2. gr.
     5.      Við 6. gr. Greinin orðist svo:
             Til að starfa sem skipstjórnar- eða vélstjórnarmaður um borð í farþegabátum skal viðkomandi vera lögmætur handhafi viðeigandi skírteinis.
     6.      Við 7. gr. Greinin orðist svo:
             Sá sem annast skipstjórn um borð í skemmtibátum skal vera lögmætur handhafi skírteinis og uppfylla kröfur um menntun, þjálfun, öryggisfræðslu, próf, skírteini og heilbrigðiskröfur sem ráðherra kveður nánar á um í reglugerð.
             Þeir sem annast kennslu til réttinda á skemmtibát skulu kenna samkvæmt námskrá sem menntamálaráðuneytið setur að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands.
             Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skemmtibáta, þar á meðal um menntun og þjálfun skipstjóra, öryggisfræðslu, próf og skírteini og skilyrði þeirra.
     7.      9. gr. falli brott.
     8.      Við 10. gr. (er verði 9. gr.).
       a.      Í stað orðsins „undanþágunefnd“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: Siglingastofnun Íslands.
       b.      Í stað orðanna „flutningaskipi eða farþegaskipi“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: skipi sem lög þessi gilda um.
       c.      Í stað orðsins „undanþágunefndar“ í síðari málslið 1. mgr. komi: Siglingastofnunar Íslands.
       d.      Í stað orðanna „næstu stöðu fyrir neðan“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: næstu lægri stöðu.
       e.      Í stað orðsins „undanþágunefndar“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: Siglingastofnunar Íslands.
     9.      Við 11. gr. (er verði 10. gr.).
       a.      Í stað tölunnar „50“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: 75.
       b.      Síðari málsliður 2. mgr. falli brott.
       c.      3. mgr. orðist svo:
                 Til að öðlast skírteini til að starfa á farþegaskipum eða farþegabátum samkvæmt lögum þessum skal viðkomandi gangast undir námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu sem sjómannaskóli skipuleggur í samráði við Siglingastofnun Íslands.
     10.      13. gr. falli brott.
     11.      Við 14. gr. (er verði 12. gr.).
       a.      1. mgr. orðist svo:
                 Manna skal sérhvert íslenskt flutningaskip, farþegaskip og farþegabát á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar, farþega og skips. Flutningaskip, farþegaskip og farþegabáta skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis.
       b.      3. mgr. orðist svo:
                 Siglingastofnun Íslands gefur út öryggismönnunarskírteini fyrir flutningaskip, farþegaskip og farþegabáta þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður.
       c.      4. mgr. falli brott.
       d.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Öryggismönnun.
     12.      Á eftir 14. gr. (er verði 12. gr.) komi ný grein sem orðist svo ásamt fyrirsögn:

Úrskurðarnefnd siglingamála.

             Ákvarðanir samkvæmt lögum þessum um útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, veitingu undanþágna og öryggismönnun skipa má kæra til úrskurðarnefndar siglingamála.
             Í úrskurðarnefnd sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varamaður hans skulu fullnægja almennum skilyrðum um hæfi dómara. Aðrir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu hafa þekkingu á skipstjórn og vélstjórn. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
             Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan þriggja vikna frá því að kæra berst og er hann endanlegur á stjórnsýslustigi. Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð og málskotsgjald getur ráðherra mælt fyrir í reglugerð.
13.    Við 15. gr. (er verði 14. gr.). Greinin orðist svo:
             Greiða skal fyrir útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, veitingu undanþágna og útgáfu öryggismönnunarskírteina samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.
14.    Við 16. gr. (er verði 15. gr.). Fyrirsögn greinarinnar verði: Refsiákvæði o.fl.
15.    Við 17. gr. (er verði 16. gr.).
          a.      Í stað orðanna „flutninga- og farþegaskipa“ í fyrri málslið 1. mgr. komi: flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta.
          b.      Síðari málsliður 1. mgr. falli brott.
          c.      2. mgr. orðist svo:
                 Samgönguráðherra er heimilt, í samráði við menntamálaráðherra, að setja reglur um menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa.
     16.      Við 18. gr. (er verði 17. gr.). 1. málsl. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2000.
     17.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Allir sem starfa á farþegaskipum eða farþegabátum skulu eigi síðar en 1. júní 2001 sækja námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu sem sjómannaskóli skipuleggur í samráði við Siglingastofnun Íslands.