Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1055  —  285. mál.

                                  


Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um brunatryggingar, nr. 48/1994.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson, Jón Vilberg Guðjónsson og Margréti Hauksdóttur frá samráðshópi ráðuneyta um Landskrá fasteigna, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sigurð Helga Guðjónsson frá Húseigendafélaginu, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Eyjólf Bjarnason frá Samtökum iðnaðarins, Vilborgu Júlíusdóttur frá Þjóðhagsstofnun, Sigríði Á, Andersen frá Verslunarráði Íslands og Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Fasteignamati ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Kópavogsbæ, Samtökum atvinnulífsins, Íbúðalánasjóði, Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Húseigendafélaginu og Fasteignamati ríkisins.
    Frumvarpið er eitt af þremur frumvörpum sem miða að því að myndað verði gagna- og upplýsingakerfi um allar fasteignir í landinu sem nefnist Landskrá fasteigna. Hin málin eru 290. mál, skráning og mat fasteigna (þskj. 472), og 281. mál, þinglýsingalög (þskj. 421).
    Með frumvarpi þessu er lögð til hækkun á umsýslugjaldi sem rennur til Fasteignamats ríkisins úr 0,025 ‰ af brunabótamati fasteignar í 0,1‰, en gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við Landskrána.
    Miklar umræður urðu í nefndinni um réttmæti þess að innheimta umrætt gjald af eigendum fasteigna þar sem Landskráin er mjög mikilvæg fyrir þjóðfélagið almennt.
    Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn til að umsýslugjaldið verði óbreytt út þetta ár, hækki síðan í 0,1‰ á árunum 2001–2004, en falli þá niður. Komi það því í hlut eigenda fasteigna að leggja til fjármuni til að koma Landskránni á fót, en eftir það verði henni markaður annar tekjustofn.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Ögmundur Jónasson,


                                  með fyrirvara.