Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1058  —  290. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson, Jón Vilberg Guðjónsson og Margréti Hauksdóttur frá samráðshópi ráðuneyta um Landskrá fasteigna, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sigurð Helga Guðjónsson frá Húseigendafélaginu, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Eyjólf Bjarnason frá Samtökum iðnaðarins, Vilborgu Júlíusdóttur frá Þjóðhagsstofnun, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Fasteignamati ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Kópavogsbæ, Skipulagsstofnun, Íbúðalánasjóði, Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga Húseigendafélaginu og Fasteignamati ríkisins.
    Frumvarpið er eitt af þremur frumvörpum sem miða að því að myndað verði gagna- og upplýsingakerfi um allar fasteignir í landinu sem nefnist Landskrá fasteigna. Hin málin varðandi þetta efni eru 285. mál, brunatrygginar (þskj. 429), og 281. mál, þinglýsingalög (þskj. 421).
    Tilgangur þessa frumvarps er að samræma verklag skráningaraðila við skráningu fasteigna í samhæfðri tölvuvinnslu og leggja fyrsta grunn að skráningu eignamarka lands á tölvutæku formi.
    Nokkrar umræður urðu í nefndinni um hver skyldi bera kostnað við úttekt tölvunefndar á Landskrá fasteigna. Leggur nefndin áherslu á að allur kostnaður við hana verði greiddur af Fasteignamati ríksins. Þá lýsti Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins, því yfir, er hann kom á fund nefndarinnar vegna málsins, að hann teldi ljóst að umræddur kostnaður yrði greiddur af Fasteignamati ríkisins.
    Nefndin telur að hér sé um brýnt verkefni að ræða og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.