Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1063  —  70. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lagaskil á sviði samningaréttar.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson frá viðskiptaráðuneyti, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Guðjón Rúnarsson og Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Telmu Halldórsdóttur frá Neytendasamtökunum. Umsagnir um málið bárust frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Verslunarráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Félagi löggiltra endurskoðenda, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samskipum hf., Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi háskólamanna og Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarpi þessu er ætlað að bæta úr brýnni nauðsyn á því að í lögum sé að finna skýrar reglur um hvaða lög eigi að leggja til grundvallar í viðskiptum tveggja aðila sem ekki eru búsettir í sama ríki. Er það byggt á samningi um lagaskil á sviði samningaréttar sem aðildarríki Evrópusambandsins undirrituðu 19. júní 1980, svonefndum Rómarsamningi.
    Nefndin ræddi sérstaklega 6. gr. frumvarpsins um vinnusamninga og hvort eðlilegt væri að setja einhver tímamörk á hugtakið „tímabundið“ í a-lið 2. mgr. Ákvað nefndin eftir ítarlega skoðun að leggja það ekki til, þar sem rétt er að dómstólar taki ákvörðun um það á grundvelli málsatvika hverju sinni. Þá er þetta hugtak ekki tímabundið í neinu af ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin leggur þó áherslu á að hugtakið verði að jafnaði ekki látið ná til lengri tíma en tveggja mánaða.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lögð er til smávægileg orðalagsbreyting á 2. mgr. 1. gr.
     2.      Lagt er til að orðalagi 3. mgr. 3. gr. verði breytt til betra samræmis við texta Rómarsamningsins um sama efni.
     3.      Lögð er til lagfæring á orðalagi 3. og 4. málsl. 2. mgr. 4. gr.
     4.      Lagt er til að í b-lið 4. mgr. 5. gr. komi orðið „býr“ í stað orðanna „á heima“. Er þessari breytingu ætlað að gera skýrara að ekki er gerð krafa um að neytandi eigi lögheimili í því landi þar sem hann er búsettur. Þá er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 5. gr. þar sem fram komi að ákvæði greinarinnar eigi við um samning um kaup á ferð þegar gisting er innifalin í kaupverði. Ákvæði þessa efnis er í Rómarsamningnum sem frumvarpið byggist á og telur nefndin rétt að ákvæðið verði í frumvarpinu.
     5.      Lagðar eru til breytingar á uppsetningu og orðalagi 6. gr. frumvarpsins.
     6.      Þá eru lagðar til lagfæringar á orðalagi 9. gr. frumvarpsins.


Prentað upp.

     7.      Lögð er til breyting á c-lið 10. gr. Ástæða hennar er að bætur vegna vanefnda, sem þar er fjallað um, eru ekki alltaf byggðar á settum lögum heldur eru þær alloft byggðar á öðrum réttarheimildum, svo sem dómafordæmum og óskráðum meginreglum laga. Er lagt til að orðalagi greinarinnar verði breytt til samræmis við það.
     8.      Lagt er til að orðalag 12. gr. verði lagfært til samræmis við texta Rómarsamningsins um sama efni.
     9.      Lögð er til lagfæring á orðalagi 14. gr.
     10.      Þá er lögð til lagfæring á orðalagi 17. gr.
     11.      Loks eru lagðar til breytingar á 18. gr. sem gera hana skýrari og markvissari.
    Að síðustu vill nefndin taka fram að hún telur að frágangur málsgreina í frumvarpinu sé ekki í samræmi við þá meginreglu í frágangi frumvarpa að hafa málsgreinar ónúmeraðar. Ekki er rökstutt sérstaklega af hvaða ástæðu málsgreinar eru númeraðar og því verða númer málsgreina felld niður í lokafrágangi verði frumvarpið samþykkt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.