Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1064  —  70. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um lagaskil á sviði samningaréttar.


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Við 1. gr. Í stað orðsins „félag“ í f-lið 2. mgr. komi: félög.
     2.      Við 3. gr. 3. mgr. orðist svo:
                  Hafi aðilar samið um að beita erlendum lögum, hvort sem ágreining á að bera undir erlendan dómstól eða ekki, en öll atvik og kringumstæður við gerð samnings tengjast aðeins einu landi, er þrátt fyrir samninginn heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum þess lands sem samningurinn tengist.
     3.      Við 4. gr.
       a.      Í stað orðanna „í tengslum við framkvæmd atvinnu eða í tengslum við atvinnurekstur“ í 3. málsl. 2. mgr. komi: í tengslum við atvinnu eða atvinnurekstur.
       b.      Orðið „þeirri“ í 4. málsl. 2. mgr. falli brott.
     4.      Við 5. gr.
       a.      Í stað orðanna „á heima“ í b-lið 4. mgr. komi: býr.
       b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. eiga ákvæði þessarar greinar við um samning um kaup á ferð þegar gisting er innifalin í kaupverði.
     5.      Við 6. gr.
       a.      Í stað orðsins „réttarstöðu“ í 1. mgr. komi: verndar.
       b.      Í stað 2. mgr. komi tvær málsgreinar, svohljóðandi:
                   Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skulu eftirfarandi lög gilda um vinnusamninga sem ekki hafa ákvæði að geyma um lagaval:
             a.      lög þess lands þar sem launþegi starfar að jafnaði, enda þótt honum hafi tímabundið verið falin störf í öðru landi, eða
             b.      ef launþegi starfar að jafnaði ekki í neinu tilteknu landi gilda lög þess lands þar sem sú starfsstöð er sem réð hann til starfa.
                   Ákvæði 2. mgr. eiga ekki við ef annað leiðir af aðstæðum í heild eða samningurinn hefur meiri tengsl við annað land en það sem a- og b-liðir vísa til. Í því tilviki gilda lög þess lands.
     6.      Við 9. gr.
       a.      Í stað orðsins „framkvæmir“ í 3. mgr. kemur: gerir.
       b.      Á undan orðunum „þess lands“ í lok 4. mgr. komi: laga.
     7.      Við 10. gr. Í stað orðanna „ákvarðaðar lögum samkvæmt“ í c-lið 1. mgr. komi: ákvarðaðar samkvæmt lagareglum.
     8.      Við 12. gr.
       a.      Á eftir orðunum „þriðja manni“ í 1. mgr. komi: (skuldara).
       b.      Í stað orðanna „þriðja manns“ og „þriðja manni“ í 2. mgr. komi: skuldara.
     9.      Við 14. gr. Í stað orðanna „í lögum þeim sem 9. gr. vísar til“ komi: samkvæmt lögum þeim sem vísað er til í 9. gr.
     10.      Við 17. gr. Í stað orðanna „hafa verið“ komi: eru.
     11.      Við 18. gr. Greinin orðist svo:
                  Sérreglur um lagaskil í öðrum lögum eða reglum, sem lögfestar eru hér á landi vegna skuldbindinga sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða öðrum alþjóðasamningum, skulu ganga framar ákvæðum laga þessara að svo miklu leyti sem          þær fá ekki samrýmst þeim.