Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1065 — 623. mál.
Frumvarp til laga
um fæðingar- og foreldraorlof.
(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)
I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Gildissvið.
Lög þessi taka einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.
2. gr.
Markmið.
Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
II. KAFLI
Stjórnsýsla.
3. gr.
Yfirstjórn.
4. gr.
Fæðingarorlofssjóður.
Fæðingarorlofssjóður skal annast greiðslur til foreldra sem réttinda njóta til greiðslu í fæðingarorlofi skv. 13. gr. Þó er heimilt að semja um að vinnuveitandi annist þessar greiðslur, enda fái hann endurgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Greiðslur til foreldra, sbr. 2. mgr. 1. gr., greiðast úr ríkissjóði.
Fæðingarorlofssjóður skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins sem sér um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra.
Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
Félagsmálaráðherra skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Skal sjóðurinn árlega gera fjárhagsáætlun sem félagsmálaráðherra leggur fyrir fjármálaráðherra við undirbúning fjárlaga.
Reikningar Fæðingarorlofssjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir ár hvert í Lögbirtingablaðinu.
Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.
5. gr.
Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Hlutverk úrskurðarnefndar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga þessara.
Úrskurðir nefndarinnar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds.
Kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
6. gr.
Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
Nefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig áður en nefndin úrskurðar í því, enda telji nefndin að hvorki afstaða hans né rök fyrri henni liggi fyrir í gögnum málsins.
Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
Tryggingastofnun ríkisins skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
Nefndarmönnum er bannað að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál.
III. KAFLI
Orðskýringar.
7. gr.
Fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt lögum þessum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við:a. fæðingu,
b. frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða
c. töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.
Starfsmaður er í lögum þessum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þó á hugtakið starfsmaður í VII. kafla við um alla sem vinna launuð störf í annarra þjónustu.
Sjálfstætt starfandi einstaklingur er sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
Í lögum þessum telst kona nýlega hafa alið barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra.
IV. KAFLI
Fæðingarorlof.
8. gr.
Réttur foreldra á vinnumarkaði.
Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.
Kona skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur fæðingarorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
Réttur foreldris til fæðingarorlofs er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 6. mgr.
Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.
Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris.
9. gr.
Tilkynning um fæðingarorlof.
Tilkynning um töku fæðingarorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarolofs milli foreldra barns. Þá skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandi getur krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána telji hann þess þörf.
10. gr.
Tilhögun fæðingarorlofs.
Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt þessu ákvæði.
Óski starfsmaður eftir að haga fæðingarorlofi skv. 2. mgr. en vinnuveitandi getur ekki fallist á óskir hans skal vinnuveitandi að höfðu samráði við starfsmann leggja til aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar, sbr. 2. mgr. 9. gr. Skal það gert skriflega og ástæður tilgreindar fyrir breyttri tilhögun.
Ef samkomulag næst ekki milli starfsmanns og vinnuveitanda um töku fæðingarorlofs starfsmanns á starfsmaður ávallt rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem starfsmaður ákveður.
11. gr.
Öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
Ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Um framkvæmd þessa ákvæðis skal fara eftir nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur.
Þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, sbr. 1. mgr., skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.
Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæði þessu á hún rétt á greiðslum, sbr. 13. gr.
12. gr.
Réttur til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar og fósturláts.
Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði.
13. gr.
Réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.
Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur 54.021 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 74.867 kr. á mánuði.
Fjárhæð lágmarksgreiðslna kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
Greiðslur í fæðingarorlofi skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
Réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr.
Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo sem um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi og þeirra sem eru undanþegnir greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt.
14. gr.
Uppsöfnun og vernd réttinda.
Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 6%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti.
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.
Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu jafnframt gilda um leyfi sem veitt er þungaðri konu skv. 11. gr.
15. gr.
Umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins.
Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal sækja um greiðslu í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar ríkisins sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Vilji kona hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 2. mgr. 8. gr., ber henni að tilkynna það Tryggingastofnun þremur vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag fæðingarorlofs,
Umsóknin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi móður og föður, enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Skal forsjárlaust foreldri undirrita umsókn uppfylli það skilyrði 6. mgr. 8. gr. Gildir hið sama þótt annað foreldri sé utan vinnumarkaðar eða í námi, sbr. 2. mgr. 1. gr. Vinnuveitendur beggja foreldra, ef það á við, skulu árita umsóknina til staðfestingar á tilhögun fæðingarorlofs.
Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.
Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.
V. KAFLI
Undanþágutilvik.
16. gr.
Fjölburafæðingar.
Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
Um greiðslur fer skv. 13. gr.
17. gr.
Veikindi barns eða móður.
Einnig er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis.
Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.–4. mgr. með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði. Ákvörðun tryggingayfirlæknis er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
Umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skal fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.
Um greiðslur fer skv. 13. gr.
VI. KAFLI
Foreldrar utan vinnumarkaðar og í námi.
18. gr.
Fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar.
Fæðingarstyrkur skal vera 33.157 kr. á mánuði. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.
Vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
Réttur foreldris til fæðingarstyrks er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.
Greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
Ef annað foreldrið notar hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
19. gr.
Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi.
Fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi skal vera 74.867 kr. á mánuði. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.
Vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur greiðsla fæðingarstyrks til foreldra miðast við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
Réttur foreldris til fæðingarstyrks er bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst.
Greiðslur fæðingarstyrks til foreldris skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
Ef annað foreldrið tekur hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.
20. gr.
Réttur til greiðslu fæðingarstyrks vegna andvanafæðingar og fósturláts.
Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 12. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
21. gr.
Fjölburafæðingar.
Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 16. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
22. gr.
Veikindi barns eða móður.
Einnig er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.
Heimilt er að framlengja rétt til fæðingarstyrks til móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.
Rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu á rétti til fæðingarstyrks skv. 1.–3. mgr. með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg. Ákvörðun tryggingayfirlæknis er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.
Ef annað foreldrið tekur fæðingarorlof skv. 17. gr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
23. gr.
Umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins.
Foreldri, sbr. 2. mgr. 1. gr., skal sækja um fæðingarstyrk til Tryggingastofnunar ríkisins þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, sbr. þó 15. gr.
Umsóknin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag greiðslu fæðingarstyrks til foreldris og lengd greiðslutímabils. Skal jafnframt tilgreina fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi móður og föður, enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Gildir hið sama þótt annað foreldrið sé á vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 1. gr.
Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um tilhögun á afgreiðslu Tryggingastofnunar.
VII. KAFLI
Foreldraorlof.
24. gr.
Réttur foreldra til töku foreldraorlofs.
Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal eiga rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast barn sitt.
Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns. Við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur er miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldri þarf að sækja barnið til annarra landa getur foreldraorlof hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.
Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barnið nær átta ára aldri.
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur.
Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði.
25. gr.
Skipulag foreldraorlofs.
Með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga foreldraorlofi með öðrum hætti, t.d. þannig að orlofið skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs.
Starfsmanni er óheimilt nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda að taka lengra foreldraorlof en 13 vikur á hverju 12 mánaða tímabili.
26. gr.
Tilkynning um foreldraorlof.
Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda.
Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs. Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Skal vinnuveitandi árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar.
Vinnuveitandi skal skrá töku foreldraorlofs þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess.
27. gr.
Frestun eða aðrar breytingar á tilhögun foreldraorlofs.
Frestun er eingöngu heimil þegar fyrir hendi eru sérstakar aðstæður í rekstri fyrirtækis/ stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt. Svo er t.d. ef um er að ræða árstíðabundin störf, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef umtalsverður hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma eða viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis eða stofnunar.
Vinnuveitanda er aldrei heimilt að fresta foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum starfsmanns nema með samþykki hans.
Óheimilt er að fresta foreldraorlofi sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg. Einnig er frestun óheimil hafi vinnuveitandi fallist á orlofstökuna eða liðinn er frestur skv. 1. mgr. án svars frá vinnuveitanda.
Verði ákvörðun vinnuveitanda um frestun foreldraorlofs til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi áður en barn hans nær átta ára aldri framlengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof á til þess dags er barn nær níu ára aldri.
28. gr.
Vernd uppsafnaðra réttinda.
VIII. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.
29. gr.
Réttur til starfs.
Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
30. gr.
Vernd gegn uppsögnum.
31. gr.
Skaðabótaskylda.
32. gr.
Brottfall réttinda foreldra.
Í tilvikum skv. 1. mgr. skulu kynforeldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., eiga sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns. Þá eiga foreldrar, sbr. 2. mgr. 1. gr., sameiginlega rétt á greiðslu fæðingarstyrks í tvo mánuði eftir fæðingu barns.
Ef annað foreldrið tekur hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs skv. 2. mgr. og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
33. gr.
Ósamrýmanleg réttindi.
Foreldri í fæðingar- og foreldraorlofi á ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna sama barns eða sömu fæðingar. Sama gildir um greiðslur sjúkradagpeninga og lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. og greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. og 19. gr.
34. gr.
Milliríkjasamningar.
Við framkvæmd laga þessara skal tekið tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.
35. gr.
Reglugerðarheimild.
Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
IX. KAFLI
Gildistaka.
36. gr.
Gildistaka.
Þrátt fyrir orðalag 8. gr. skal sjálfstæður réttur föður til fæðingarorlofs vera einn mánuður frá og með 1. janúar 2001, tveir mánuðir frá og með 1. janúar 2002 og þrír mánuðir frá og með 1. janúar 2003.
Ákvæði um foreldraorlof veita foreldrum barna sem fædd eru, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 1998 eða síðar rétt til töku foreldraorlofs.
X. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.
37. gr.
Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum:a. Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
1. Í stað hlutfallstölunnar 1,15 í 1. mgr. kemur: 0,8.
2. Í stað hlutfallstölunnar 3,99 í 3. mgr. kemur: 4,34.
b. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
Tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
1. Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
2. Staðlaráð fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,007% af gjaldstofni skv. III. kafla.
3. Icepro fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,001% af gjaldstofni skv. III. kafla.
4. Fæðingarorlofssjóður fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,85% af gjaldstofni skv. III. kafla.
5. Tekjur af almennu tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1.–4. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem fjármálaráðherra setur með reglugerð.
38. gr.
Þegar ákvæði laganna um fæðingarorlof koma til framkvæmda verða eftirfarandi breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum:a. 1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrkja og barnalífeyris.
b. 15.–16. gr. a laganna falla brott.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Frumvarp þetta var samið í samvinnu félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis með hliðsjón af framkomnum tillögum Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Gerð frumvarpsins fól meðal annars í sér endurskoðun á núgildandi lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum, einkum með tilliti til fyrirhugaðrar lengingar fæðingarorlofs og jöfnunar á rétti mæðra og feðra til töku þess.
Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín en í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum. Var að því markmiði stefnt við gerð þessa frumvarps en jafnframt er þá verið að tryggja börnum samvistir við báða foreldra.
Frumvarpi þessu er því meðal annars ætlað að auðvelda útivinnandi foreldrum, bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Þá er tekið undir ályktun ráðs Evrópusambandsins frá 6. desember 1994 þar sem karlar eru hvattir til að axla ábyrgð á umönnun barna og í fjölskyldulífi til jafns við konur. Þar er jafnframt viðurkennt að forsenda árangursríkrar stefnu í jafnréttismálum sé samþætt heildarstefna þar sem gert er ráð fyrir að vinnutími verði betur skipulagður og sveigjanlegri auk þess sem fólki verði gert auðveldara að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Vakin er athygli á mikilvægu hlutverki aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði.
Ráð Evrópusambandsins hefur ítrekað hvatt aðildarríki til að eiga frumkvæði að aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, t.d. með setningu ýmissa tilskipanna. Er frumvarpi þessu meðal annars ætlað að innleiða tilskipun ráðsins, nr. 96/34/EB, sem er staðfesting Evrópubandalagsins á rammasamningi um foreldraorlof sem gerður var milli Samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtaka fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC), dags. 14. desember 1995. Það er gert í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 42, frá 26. mars 1999.
Í rammasamningnum, sem er viðauki við tilskipunina, er að finna lágmarksákvæði um rétt starfsmanna til foreldraorlofs sem stofnast til við fæðingu og frumættleiðingu. Í núgildandi barnaverndarlögum, nr. 58/1992, með síðari breytingum, er kveðið á um ráðstöfun barna í fóstur og þótti því eðlilegt að rétturinn til foreldraorlofs næði einnig til þeirra er taka börn í varanlegt fóstur. Réttur til foreldraorlofs er óháður réttinum til fæðingarorlofs. Aðildarríkjunum er veitt ákveðið svigrúm við ákvörðun um hver skilyrði foreldraorlofs skuli vera. Þeim er þó óheimilt að draga úr almennri vernd sem starfsmenn kunna þegar að njóta á því sviði er samningurinn tekur til með lögfestingu tilskipunarinnar.
Í tilskipuninni er tekið fram að aðildarríkin geti falið aðilum vinnumarkaðarins að komast að samkomulagi um framkvæmd hennar, enda hafi þeir sameiginlega farið fram á að svo verði gert. Tilraun var gerð til að ná slíku samkomulagi hér á landi milli stærstu samtaka atvinnurekenda og launafólks en án árangurs.
Frumvarpið hefur að geyma ítarleg ákvæði um skilyrði fyrir töku fæðingar- og foreldraorlofs sem heimilt er að taka í einu lagi eða starfsmaður hagi því eftir nánara samkomulagi við vinnuveitanda sinn. Er því meðal annars mögulegt að starfsmaður gegni hlutastarfi meðan á orlofi stendur. Orlofsrétturinn er einstaklingsbundinn og er framsal hans óheimilt að undanskildum þremur mánuðum af fæðingarorlofi sem foreldrar geta skipt með sér. Tilgangur þessarar takmörkunar á framsali er meðal annars að stuðla að jafnari stöðu kynjanna innan samfélagsins.
Lögð er á það áhersla að samningssambandi vinnuveitanda og starfsmanns verði viðhaldið á orlofstímanum hvort sem foreldri er í fæðingar- eða foreldraorlofi. Þá er tekið fram í frumvarpinu að þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi fæðingar- eða foreldraorlofs skuli haldast óbreytt til loka orlofsins. Sömuleiðis er starfsmanni tryggður sá réttur að hverfa aftur til starfa að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Enn fremur er sérstakt ákvæði sem verndar starfsmenn er vilja njóta réttar síns samkvæmt frumvarpi þessu gegn uppsögnum af hálfu vinnuveitanda nema gildar ástæður séu fyrir uppsögninni. Skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.
Til þess að fyrirbyggja að ágreiningur komi upp milli vinnuveitanda og starfsmanns sem hyggst taka fæðingar- eða foreldraorlof eru í frumvarpinu settar ákveðnar formreglur um samskipti þessara aðila. Oft á tíðum kann aðilum t.d. að veitast erfitt að sanna að gagnaðila hafi borist tilkynning skv. 9. eða 26. gr. Er því í frumvarpinu kveðið á um að tilkynningar skuli ávallt vera skriflegar og hvaða atriði eigi að koma þar fram.
Í frumvarpinu er kveðið á um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar eða í námi til fæðingarstyrks. Gerð er tillaga um að bæði móðir og faðir sem eru í þessari stöðu eigi rétt á fæðingarstyrk en ekki einungis móðir líkt og er í núgildandi kerfi. Þá er lögð áhersla á að litið verði heildstætt á þessi tvö kerfi, þ.e. rétt til fæðingarorlofs og rétt til fæðingarstyrks, ef foreldrar falla hvor undir sitt kerfið þannig að taki annað foreldrið hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og njóti greiðslna samkvæmt frumvarpinu styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur.
Gildistaka þessara laga leiðir óhjákvæmilega til breytinga á öðrum gildandi lögum. Er meðal annars nauðsynleg breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, en í þeim lögum er kveðið á um greiðslur í fæðingarorlofi í núgildandi kerfi. Þá þarf jafnframt að breyta lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum, þar sem lagt er til í frumvarpi þessu að greiðslur í fæðingarorlofi til foreldra á vinnumarkaði skuli vera fjármagnaðar með hluta af tryggingagjaldi. Hvað varðar lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 70/1996, með síðari breytingum, gætu þurft að koma til lagabreytingar síðar þar sem þau lög gera ráð fyrir annars konar greiðslufyrirkomulagi í fæðingarorlofi en gert er ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, fellur brott þegar samkomulag hefur náðst milli aðila. Að öðrum kosti getur verið þörf á lagabreytingu.
Helstu nýmæli frumvarps þessa eru eftirfarandi:
a. Lagt er til að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs, hvort heldur er á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Þá er gerð tillaga um að foreldrar sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Gert er ráð fyrir að þessi réttur verði ekki framseljanlegur. Auk þessa eigi foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Markmiðið með þessari lögbundnu skiptingu milli foreldra er meðal annars að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Er um tímabundna aðgerð að ræða sem einkum er gerð til að bæta hag karla þar sem reynslan hefur sýnt að í núgildandi kerfi hafa konur aðallega nýtt réttinn til fæðingarorlofs þrátt fyrir að foreldrar eigi þann rétt sameiginlegan. Er það því mat höfunda frumvarpsins að lögbinda þurfi fyrirkomulag í samskiptum foreldra með þessum hætti meðan réttur feðra til fæðingarorlofs festist í sessi. Þegar reynsla er komin á jafna foreldraábyrgð og lögin hafa að fullu öðlast gildi verður tekið til endurskoðunar hvort lögbinda þurfi áfram skiptingu orlofsins milli foreldra. Verði endurskoðun gerð í ljósi athuganna á hvernig foreldrar hafi skipt hinum sameiginlega rétti milli sín og feður nýtt sjálfstæðan rétt sinn.
b. Lagðar eru til breytingar á greiðslufyrirkomulagi til foreldra á vinnumarkaði og lagt er til að stofnaður verði sérstakur Fæðingarorlofssjóður sem annist greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Ákveðin skilyrði eru fyrir réttinum til greiðslu í fæðingarorlofi en mánaðarleg greiðsla í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds. Skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Lagt er til að greiðsla í fæðingarorlofi foreldris sem er í 25–49% starfi verði aldrei lægri en 54.021 kr. og að greiðsla til foreldris í 50–100% starfi verði aldrei vera lægri en sem nemur 74.867 kr. á mánuði.
c. Gert er ráð fyrir verulegum sveigjanleika í töku fæðingarorlofs. Þannig eigi foreldrar þess kost að taka fæðingarorlof í einu lagi á sama hátt og samkvæmt gildandi lögum. Kjósi foreldrar heldur að taka það á fleiri tímabilum eða í hlutastarfi er það heimilt að fengnu samþykki vinnuveitanda. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns skulu þeir reyna að ná samkomulagi um aðra tilhögun. Takist það ekki á starfsmaður jafnan rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi. Réttur til fæðingarorlofs fellur sjálfkrafa niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
d. Sérstakt ákvæði er um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Ef sýnt þykir að öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar á þann hátt sem nauðsynlegt þykir. Enn fremur er lagt til að þungaðri konu verði tryggður réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í leyfi frá störfum sökum þess að breytingum á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar verði ekki við komið vegna tæknilegra eða annarra gildra ástæðna.
e. Lagt er til að foreldri á vinnumarkaði skuli eiga rétt til 13 vikna foreldraorlofs til að annast barn sitt. Réttur til foreldraorlofs er nýmæli hér á landi. Um er að ræða sjálfstæðan rétt hvors foreldris og er hann ekki framseljanlegur. Orlofið skal tekið áður en barnið nær átta ára aldri. Þá er starfsmanni heimilt að taka foreldraorlofið í einu lagi eða haga því með öðrum hætti með samkomulagi við vinnuveitanda.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Þetta er ekki breyting frá gildandi fæðingarorlofslögum, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Í 2. gr. þeirra laga segir: „Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði …“ Fallið var frá búsetuskilyrðum og er gert nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Er þetta einkum gert með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er frumvarpinu bæði ætlað að gilda um starfsmenn á opinberum og almennum vinnumarkaði.
Lagt er til í frumvarpinu að gerð verði skýrari skil í framkvæmd milli fæðingarorlofsgreiðslna til foreldra sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi og þeirra sem standa fyrir utan vinnumarkaðinn eða eru í námi. Þeim foreldrum sem standa utan vinnumarkaðar eða eru í námi er tryggður réttur til greiðslu fæðingarstyrks á sama hátt og er í núgildandi kerfi.
Þá er gert ráð fyrir að þeir foreldrar sem eru í minna en 25% starfshlutfalli falli jafnframt undir sérkafla þessa frumvarps um foreldra utan vinnumarkaðar og í námi. Er það í samræmi við núgildandi fæðingarorlofskerfi en þar eiga foreldrar í minna en 25% starfi ekki rétt á fæðingardagpeningum heldur einungis fæðingarstyrk.
Um 2. gr.
Markmið frumvarps þessa er meðal annars að veita konum og körlum jafnan rétt til fæðingar- og foreldraorlofs í því augnamiði að tryggja barni samvistir bæði við móður og föður. Hefðbundin hlutverkaskipting kynjanna í íslensku samfélagi hefur verið sú að konan hefur annast heimili og börn en karlinn hefur unnið utan heimilis. Hefur slík skipan oft orðið til þess að karlinn hefur farið á mis við að vera með börnum sínum á uppvaxtarárum þeirra en bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýna að feður hafa í auknum mæli gert kröfur til að njóta samvista með börnum sínum. Er ætlunin að koma til móts við þær óskir með því að veita feðrum og mæðrum jafnan rétt til fæðingar- og foreldraorlofs.
Þá hefur aukin atvinnuþátttaka kvenna leitt til breytinga á skipulagi hverdagslífs barnafólks í landinu, enda æ algengara að bæði konan og karlinn vinni utan heimilis. Ein af forsendum þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu er að þau eigi jafnan rétt til að sinna fjölskyldunni. Er það því jafnframt tilgangur þessa frumvarps að jafna rétt kvenna og karla til að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Þetta er í samræmi við markmið frumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem er til umræðu á Alþingi en þar er lögð áhersla á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar er meðal annars kveðið á um að ráðstafanir atvinnurekenda skuli miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu vinnu og auðvelda foreldrum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof.
Um 3. gr.
Lagt er til að félagsmálaráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál annist yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála samkvæmt lögum þessum, enda byggist frumvarpið á vinnumarkaðstengdu kerfi.
Um 4. gr.
Lagt er til að sérstakur sjóður, Fæðingarorlofssjóður, verði stofnaður til að standa straum af kostnaði við greiðslur til foreldra á vinnumarkaði í fæðingarorlofi. Er það gert í samræmi við þær breytingar sem gerðar eru á greiðslufyrirkomulagi til foreldra er leggja niður launuð störf vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 13. gr. frumvarpsins.
Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að Fæðingarorlofssjóður verði í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins sem sjái um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra. Er þetta gert í hagræðingarskyni þar sem talið er að kostnaðarauki yrði af því að setja á fót nýja stofnun eða skrifstofu til að annast þessar greiðslur. Lagt er til að foreldrar sem rétt eiga til greiðslna í fæðingarorlofi fái greitt beint úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er það gert að tillögu að heimilt verði að semja um að vinnuveitandi annist þessar greiðslur. Á vinnuveitandi þá rétt á endurgreiðslu úr sjóðnum sem nemur þeim greiðslum sem starfsmaður átti rétt á meðan á fæðingarorlofi hans stóð.
Fæðingarorlofssjóður skal fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Lagt er til að tiltekinn hluti tryggingagjalds verði notaður til að fjármagna Fæðingarorlofssjóð. Er mælt fyrir um að hlutfallið af gjaldstofni skv. III. kafla laga um tryggingagjald sem rennur til almenns tryggingagjalds verði hækkað sem nemur lækkun á hlutfalli af gjaldstofni sem rennur til atvinnutryggingagjalds. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að tekjuafgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs var verulegur síðastliðin tvö ár. Þessar breytingar á fyrirkomulagi greiðslna í fæðingarorlofi munu því ekki leiða til hækkunar á tryggingagjaldi.
Félagsmálaráðherra skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar. Þá er lagt til að sjóðurinn geri árlega fjárhagsáætlun sem félagsmálaráðherra leggur fyrir fjármálaráðherra við undirbúning fjárlaga. Er tilgangurinn sá að áætluð verði fyrirsjáanleg útgjöld sjóðsins á næsta fjárhagsári með hliðsjón af þeim fjölda fæðinga sem varð á þremur síðastliðnum árum. Reikningsár Fæðingarorlofssjóðs er almanaksárið.
Um 5. gr.
Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi þrjá menn í úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, einn án tilnefningar en Hæstiréttur tilnefni tvo. Vegna eðli þeirra mála sem upp geta komið fyrir úrskurðarnefndinni þykir nauðsynlegt að annar þeirra sem Hæstiréttur tilnefnir sé læknir en hinn lögfræðingur. Er um sama skipulag að ræða og á úrskurðarnefnd almannatrygginga. Skipunartími nefndarinnar yrði þrjú ár í senn en heimilt er að endurskipa nefndarmenn að þeim tíma liðnum.
Gert er ráð fyrir að úrskurðarnefndin verði sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurði um ágreiningsmál sem upp kunna að rísa á grundvelli frumvarps þessa. Álit hennar verði ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti sætti þeir sig ekki við niðurstöður úrskurðarnefndarinnar.
Um 6. gr.
Ákvæðið fjallar um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd. Lagt er til að tekinn verði upp þriggja mánaða frestur frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Er það í samræmi við þann kærufrest sem veittur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Jafnframt er gerð tillaga um að málsmeðferð fyrir nefndinni verði að jafnaði skrifleg en þó geti nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
Þá er ákvæðinu ætlað að tryggja andmælarétt aðila máls og að mál verði nægjanlega upplýst áður en úrskurðarnefnd kveður upp úrskurð. Að öðru leyti fer um málsmeðferðina samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Jafnframt er kveðið á um þagnarskyldu nefndarmanna þegar um er að ræða persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara. Mikilvægt er að þagnarskyldan haldist eftir að nefndarmenn láta af störfum.
Um 7. gr.
Í ákvæðinu er skýrt nánar hvað átt er við með hugtökunum fæðingar- og foreldraorlof. Sú skilgreining á hugtökunum sem þar kemur fram er efnislega samhljóða skilgreiningu núgildandi laga um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Orðið meðganga er þó ekki tekið upp í a-lið 1. mgr. þar sem um almenna skilgreiningu er að ræða. Eðli málsins samkvæmt geta karlar ekki tekið fæðingarorlof vegna meðgöngu. Konur geta hins vegar hafið fæðingarorlof allt að mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag en litið er á þá heimild sem undantekningu frá meginreglunni. Þá er aldursmarkinu breytt í átta ár til samræmis við rammasamninginn um foreldraorlof.
Þá er starfsmaður skilgreindur sem hver sá er vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði. Þessi skilgreining er efnislega samhljóða skilgreiningu á starfsmanni í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, sbr. 24. gr. þeirra laga. Þó þótti eðlilegt að takmarka þátttöku í svo vinnumarkaðstengdu kerfi við svo lágt starfsframlag í ljósi tilgangs kerfisins. Er það í samræmi við núgildandi fæðingarorlofskerfi en þar eiga foreldrar sem eru í minna en 25% starfi ekki rétt á fæðingardagpeningum.
Skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingi er efnislega samhljóða skilgreiningu á hugtakinu í reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nr. 740/1997, sem á sér stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, með síðari breytingum.
Þá er tekið fram að kona telst nýlega hafa alið barn þegar barnið er 14 vikna eða yngra. Þessi skilgreining er gerð til samræmis við tilskipun ráðsins um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85/EBE. Tímamark skilgreiningarinnar miðast við þann lágmarkstíma sem konur skulu eiga rétt til fæðingarorlofs samkvæmt tilskipuninni. Skilgreiningin er einkum til skýringar á ákvæði 30. gr. um vernd gegn uppsögnum.
Um 8. gr.
Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns, sbr. 7. gr. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Eru engin önnur skilyrði sett fyrir þessari heimild fyrir þungaðar konur en ekki verður litið á þetta sem mismunun þar sem það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991. Athygli er vakin á því að ef kona byrjar í fæðingarorlofi fyrir fæðingu barns telst sá tími til þeirra þriggja mánaða sem hún hefur sjálfstæðan rétt á eða þeirra þriggja mánaða sem foreldrar eiga sameiginlega rétt á.
Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu kvenna sem hafa nýlega alið barn til að vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu þess. Skal orlofið eigi hefjast síðar en við fæðingu barns. Ákvæðið byggist á 2. mgr. 8. gr. tilskipunar ráðs Evrópusambandsins um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85/EBE. Þetta er þáttur í ráðstöfunum til verndar öryggi og heilbrigði starfsmanna en talið er að konur sem nýlega hafa alið börn þurfi að njóta hvíldar eftir fæðingu barns til að jafna sig líkamlega áður en störf eru hafin að nýju. Þessar tvær vikur eru hluti af þeim tíma sem konan á rétt á í fæðingarorlofi.
4. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 3. gr. laga um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að ef orlof hefst við upphaf ferðar telst sá tími annaðhvort hluti af sjálfstæðum rétti foreldris eða þeim þremur mánuðum sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt á.
Meginregla frumvarpsins er að réttur foreldris sé bundinn við að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst, sbr. þó 6. mgr. Í þessu sambandi er litið til þess að mikilvægt er að gott samkomulag ríki milli foreldra og að skilningur sé á gildi sameiginlegra ákvarðana er varða barnið, einkum í ljósi þess hvað barnið er ungt á þessum tíma og því verulega háð foreldrum sínum. Þessar forsendur eru meðal annars hafðar til hliðsjónar þegar samningur um sameiginlegt forræði er staðfestur hjá yfirvöldum auk þess sem litið er til hags og þarfa barnsins. Vakin er athygli á því að maki eða sambúðarmaki kynforeldris á ekki rétt á fæðingarorlofi samkvæmt frumvarpi þessu heldur er eingöngu átt við kynforeldra þegar um fæðingu er að ræða, ættleiðanda eða fósturforeldri.
Að vel athuguðu máli þótti ekki ástæða til að útiloka forsjárlausa foreldra frá rétti til fæðingarorlofs, enda liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir. Slíkt samþykki leiðir af inntaki forsjár en skv. 29. gr. barnalaga, nr. 20/1992, með síðari breytingum, felur forsjá barns í sér rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins. Þó ber að vekja athygli á að samkvæmt sama ákvæði ber foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds.
Sérstök undanþága á banni við framsali á fæðingarorlofi er gerð í 7. mgr. Á það við þær aðstæður þegar annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri og það hefur ekki tekið út fæðingarorlof sitt. Færist þá sá réttur sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Það er skilyrði að hið látna foreldri hafi haft rétt til töku fæðingarorlofs, enda hafi það farið með forsjá barnsins. Hafi hið látna foreldri átt rétt til greiðslna í fæðingarorlofi skal miða við heildartekjur eftirlifandi foreldris skv. 13. gr.
Um 9. gr.
Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að starfsmaður skuli tilkynna vinnuveitanda með a.m.k. átta vikna fyrirvara að hann ætli að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Þykir sá fyrirvari hæfilegur til þess að vinnuveitandi geti gert nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráða staðgengil eða þjálfa annan starfsmann til að sinna verkefnum viðkomandi starfsmanns meðan á orlofinu stendur. Þó er gerð undanþága frá þessum tímafresti þegar kona óskar eftir að hefja fæðingarorlof fyrir áætlaðan fæðingardag. Styttist fresturinn þá í þrjár vikur. Ástæða undanþágunnar varðar öryggi og heilbrigði þungaðra kvenna.
Eðli málsins samkvæmt gilda ákvæði þessarar greinar ekki um tilkynningarfresti beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs. Telst þá fæðingarorlof móður, sbr. 3. mgr. 8. gr., hafið eigi síðar en á fæðingardegi. Fyrirhugað fæðingarorlof föður, sem og fæðingarorlof móður tveimur vikum eftir fæðingu, getur hliðrast til um þær vikur sem barn fæðist fyrir tímann óski foreldrar eftir því. Dæmi um þetta er að fæðist barn fjórum vikum fyrir tímann færist fyrirhugað fæðingarorlof fram um fjórar vikur. Sama á við ef barn fæðist eftir áætlaðan fæðingardag.
Til að auðvelda sönnun ef upp koma deilur um töku orlofs var talið nauðsynlegt að lögfesta ákveðnar formreglur í samskiptum aðila. Er því tekið fram í ákvæðinu að tilkynning skuli vera skrifleg og að þar skuli koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Þá er lagt til að fram komi fyrirhuguð skipting fæðingarorlofs milli foreldra barns til þess að ljóst liggi fyrir hvernig foreldrar hyggjast skipta hinum sameiginlega rétti sín á milli. Einnig er tekið fram að vinnuveitandi skuli árita tilkynninguna um hvaða dag hún er móttekin og afhenda starfsmanni síðan afrit hennar. Þá er tekið fram að vinnuveitandi geti krafist sönnunar á að foreldri fari með forsjá barnsins eða að fyrir liggi samþykki þess foreldris sem fer með forsjána telji hann þess þörf. Er það mat vinnuveitanda hvort hann telur þörf á að krefjast slíkrar sönnunar.
Um 10. gr.
Starfsmaður skal eiga rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Er þá átt við að foreldri geti tekið þá þrjá mánuði sem það á sjálfstæðan rétt til auk þess tíma sem það ætlar að taka af þeim mánuðum sem sameiginlegir eru. Þannig getur starfsmaður mest verið í sex mánuði í fæðingarorlofi skipti foreldrar ekki með sér hinum þremur sameiginlegu mánuðum.
Í ákvæðinu er foreldrum þó gefinn kostur á að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil en eitt og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þessi sveigjanleiki er háður samkomulagi við vinnuveitanda sem er gert að leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs. Er með þessu fyrirkomulagi reynt að auðvelda útivinnandi foreldrum, bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi. Enn fremur eru vonir til að þetta hvetji karla til að taka fæðingarorlof og að þeir taki þannig virkari þátt í uppeldi barna sinna frá fyrstu tíð. Þá gefur þessi sveigjanleiki aukna möguleika vilji foreldri síður hverfa frá störfum í langan tíma en slíkt getur óneitanlega einnig verið í hag vinnuveitanda. Sú takmörkun er þó sett á þessa heimild að aldrei megi taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Hér er átt við að það fyrirkomulag sem foreldri kýs að velja og vinnuveitandi samþykkir má aldrei standa yfir skemur en viku í einu.
Sjái vinnuveitandi sér ekki fært að koma til móts við óskir starfsmanns ber honum að hafa samráð við starfsmanninn. Þeir skulu síðan reyna að koma sér saman um aðra tilhögun sem báðir geta sætt sig við. Vinnuveitanda ber ávallt að tilgreina skriflega þær ástæður sem liggja að baki breyttri tilhögun. Áhersla er lögð á að þessi sveigjanleiki komi ekki í veg fyrir að foreldri geti ávallt tekið fæðingarorlof sitt í einu lagi.
Um 11. gr.
Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði ákveðin réttindi samkvæmt tilskipun nr. 92/85/EBE um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti. Þessar reglur koma nú fram í reglugerð nr. 679/1998, um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Sú reglugerð er sett með stoð í 73. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og með hliðsjón af framangreindri tilskipun. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla á efni tilskipunarinnar standi áfram í framangreindri reglugerð. Er þar meðal annars kveðið á um sérstakt mat á eðli hugsanlegrar hættu fyrir starfsmenn og um aðgerðir í kjölfar þess. Er með þessu átt við störf sem á grundvelli matsins eru talin leiða til þess að öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem nýlega hefur alið barn eða hefur barn á brjósti er í hættu. Í reglugerðinni er fjallað nánar um hvernig standa skuli að ákvörðun um hvort nægilegt sé að breyta vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma eða hvort frekari aðgerða þurfi við. Er meðal annars kveðið á um heimild vinnuveitanda til að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytta vinnutilhögun starfsmanns eða leyfi. Þá er Tryggingastofnun ríkisins og/eða hlutaðeigandi starfsmanni heimilt að óska eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það endurskoði ákvörðun vinnuveitanda.
Í 2. mgr. er kveðið á um að þær breytingar á vinnuskilyrðum konu, sbr. 1. mgr., sem teljast nauðsynlegar skuli ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Ákvæðið er efnislega samhljóða niðurlagi 6. gr. gildandi laga um fæðingarorlof. Það ákvæði tekur þó aðeins til þungaðra kvenna en hér er lagt til í samræmi við ákvæði tilskipunar nr. 92/85/EBE að sömu réttindi gildi fyrir konur sem hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.
Í 3. mgr. er lagt til að þunguð kona eigi rétt á greiðslum líkt og hún væri í fæðingarorlofi þyki nauðsynlegt að veita henni leyfi frá störfum svo sem mælt fyrir um í 1. mgr. Hér er um að ræða verulega réttarbót frá þeim reglum sem nú gilda um greiðslur til þungaðra kvenna sem verða að fara í leyfi frá störfum verði ekki komið við breytingum á starfsháttum eða tilfærslum í starfi. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 679/1998, getur barnshafandi kona sem verður að fara í leyfi af öryggisástæðum sótt um greiðslur skv. 15. og gr. 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Samkvæmt þeim ákvæðum á barnshafandi kona rétt á fæðingarstyrk og fæðingardagpeningum í hámark 60 daga ef henni er nauðsynlegt að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma barns. Til viðbótar er heimilt samkvæmt þessum reglum að hefja greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.
Heimildin til greiðslu skv. 3. mgr. er takmörkuð við þungaðar konur. Ástæðan er sú að kona sem hefur nýlega alið barn eða er með barn á brjósti á sjálfstæðan rétt samkvæmt frumvarpi þessu til þriggja mánaða fæðingarorlofs með greiðslum auk sameiginlegs réttar til þriggja mánaða til viðbótar með föður barnsins og nýtur þá greiðslna skv. 13. gr. Þó er vakin athygli á að jafnan er heimilt að veita konu sem er með barn á brjósti leyfi frá störfum, skv. 1. mgr., í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði verði ekki við komið að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Vari leyfið lengur en sá tími sem konan á rétt til og ætlar að taka í fæðingarorlof gerir frumvarpið ekki ráð fyrir sérstökum greiðslum á þeim grundvelli.
Um 12. gr.
Um 13. gr.
Lögð er til veruleg breyting á því greiðslufyrirkomulagi sem í gildi er samkvæmt núgildandi lögum en greiðslur í fæðingarorlofi í núverandi kerfi fara eftir 15. og 16. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, með síðari breytingum, ásamt reglugerðum sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett með stoð í þeim lögum. Fæðingarorlofsgreiðslur í núgildandi kerfi eru tvenns konar. Annars vegar er um að ræða fæðingarstyrk sem greiðist móður við hverja fæðingu barns óháð því hvort hún er á vinnumarkaði eður ei, sbr. 1. mgr. 15. gr. almannatryggingalaga. Hins vegar kveða almannatryggingalögin á um fæðingardagpeninga en rétt til þeirra eiga aðeins foreldrar sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi. Þó taka ákvæðin ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma er óskert laun eru greidd.
Í frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að greiðslur í fæðingarorlofi miðist við ákveðið hlutfall af heildarlaunum hvors foreldris. Foreldrar öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Skal ekki draga frá þann tíma sem starfsmaður hefur verið í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunaður sé að hluta eða öllu leyti. Þá er tekið fram að taka skuli til greina vinnuframlag foreldris í EES-ríki þegar meta á starfstíma þess að því tilskildu að það hafi unnið a.m.k. mánuð á innlendum vinnumarkaði á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi skal þá nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er hér átt við almanaksmánuði. Hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skal miða við meðalheildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Er þá að lágmarki unnt að miða við samfellt fjögurra mánaða vinnutímabil vinni foreldri í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Að öðrum kosti fer um greiðslur foreldris eftir VI. kafla frumvarps þessa. Er gert ráð fyrir að kerfið eigi bæði við um starfsmenn á hinum opinbera og almenna vinnumarkaði. Þá er miðað við heildarlaun en til launa skulu teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skiptir ekki máli þótt foreldri hafi verið í vinnu hjá fleirum en einum vinnuveitanda á umræddu tímabili.
Frumvarpi þessu er einnig ætlað að ná til sjálfstætt starfandi einstaklinga en miða skal við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil og haft er til viðmiðunar þegar starfsmenn eiga í hlut. Mánaðarleg greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris skal því nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.
Lagt er til að greiðsla í fæðingarorlofi foreldris sem er í 25–49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemur 54.021 kr. á mánuði og að greiðslur til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði verði aldrei lægri en 74.867 kr. á mánuði. Markmið þessa nýja kerfis er að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra. Þess vegna er að því stefnt að foreldrar fái 80% af meðaltali heildarlauna óháð starfshlutfalli. Hins vegar er það jafnframt markmið að foreldrar öðlist ekki lakari rétt en þeir hefðu samkvæmt núgildandi kerfi. Af þeirri ástæðu er lagt til að lágmarksgreiðslur í hinu nýja kerfi miðist annars vegar við þær greiðslur sem foreldrar í 25–49% starfi í hverjum mánuði njóta réttar til í núgildandi kerfi og hins vegar greiðslu sem foreldrar í 50–100% starfi í hverjum mánuði eiga rétt á. Er með þessu móti tryggt að foreldrar fái jafnan a.m.k. þá fjárhæð sem þeir eiga rétt á í núgildandi kerfi.
Makar bænda sem ekki eru formlega skráðir sem aðilar að búrekstri og starfa heldur ekki utan búsins hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru hvorki skilgreindir sem starfsmenn hjá búinu né sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, er þeim hins vegar skylt að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs bænda í samræmi við reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna þessarar sérstöðu er nauðsynlegt að meðhöndla þá sérstaklega þar sem tekjuöflunarmöguleikum þeirra eru víða þröngar skorður settar. Verður því frá jafnréttissjónarmiði að meta vinnuframlag þeirra á búinu sem a.m.k. 50% starfshlutfall. Þessi sérstaða á hvorki við um þá maka sem vinna utan bús í 50% starfi eða hærra starfshlutfalli né heldur um þá sem eru formlegir aðilar að búrekstri.
Tryggt er að fjárhæð lágmarksgreiðslna komi til endurskoðunar á ári hverju við afgreiðslu fjárlaga. Við ákvörðun um hækkun þeirra er tekið tillit til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félagsmálaráðherra veitt sérstök heimild, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, til að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
Réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði 5. eða 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við það ákvæði til frekari skýringa.
Um 14. gr.
Ákvæðinu er ætlað að tryggja áframhaldandi uppsöfnun tiltekinna réttinda en lagt er til að meðan á fæðingarorlofi stendur greiði foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslum í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 6%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti. Heimilt er að semja um auknar greiðslur í kjarasamningum.
Þá er lagt til að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum. Þá reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á rétti til starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða og er það gert með hliðsjón af því að menn kunna að semja um önnur réttindi síðar, svo sem námsleyfi.
Ákvæðið á einnig við um leyfi sem veitt er þungaðri konu skv. 11. gr., enda á hún rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á þeim tíma, sbr. 3. mgr. 11. gr.
Um 15. gr.
Ákvæðið kveður á um hvernig foreldri skuli bera sig að við umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til Tryggingastofnunar ríkisins. Þar er lagt til að foreldri skuli sækja um greiðslu í fæðingarorlofi sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Sami frestur gildir þó svo að vinnuveitandi taki að sér að sækja um greiðslur fyrir starfsmann úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. 4. gr. Verður það að teljast hæfilegur tími fyrir Tryggingastofnun að reikna út þær fjárhæðir sem foreldrið á rétt á úr sjóðnum meðan á fæðingarorlofi varir. Undanþága er gerð gagnvart konum sem óska að hefja fæðingarorlof allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þessi heimild er í samræmi við undanþágu um tilkynningarfrest til vinnuveitanda við sömu aðstæður. Ástæðan fyrir að styttri frestur er veittur í undanþágutilvikum er sú að ástand þungaðrar konu á síðustu mánuðum meðgöngu getur breyst með litlum fyrirvara en heimildin er tilkomin til verndar öryggi og heilbrigði þungaðra kvenna.
Ákveðin skilyrði eru sett um form umsóknar en lögð er áhersla á að foreldrar tilgreini fyrirhugaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra barns. Ástæða þessa er sú að ljóst verður að vera frá upphafi hvernig þeirri skiptingu verður háttað til að auðvelda útreikninga, sem og að hafa eftirlit með því að ekki verði teknir fleiri dagar en sem nemur þremur mánuðum í sameiginlegt fæðingarorlof. Jafnframt er ástæðan sú að skilyrði greiðslna er að foreldrar leggi niður launuð störf og þar sem greiðslan er hlutfall af heildartekjum einstaklings skiptir máli hvort foreldrið það er sem tekur orlofið í reynd.
Til að ganga úr skugga um að báðir foreldrar séu samþykkir skiptingu sameiginlega fæðingarorlofsins er það skilyrði sett að tilvonandi móðir og faðir undirriti umsóknina, enda munu þau bæði fara með forsjá barnsins. Sama gildir þótt annað foreldrið sé utan vinnumarkaðar eða í námi þar sem foreldrar eiga jafnan þrjá mánuði sameiginlega í fæðingarorlof enda þótt annað þeirra fái greitt úr Fæðingarorlofssjóði en hitt eigi rétt á fæðingarstyrk samkvæmt VI. kafla frumvarps þessa. Ef fyrirséð er að eingöngu annað foreldrið muni fara með forsjá barnsins og það samþykkir ekki umgengni forsjárlausa foreldrisins við barnið þann tíma sem það foreldri ætti annars rétt á í fæðingarorlof getur það foreldri tekið út sex mánaða fæðingarorlof og er þá einungis krafist undirskriftar þess foreldris sem mun fara með forsjána. Samþykki hins vegar foreldrið með forsjána umgengni foreldris án forsjár við barnið og síðarnefnda foreldrið hyggst taka fæðingarorlof skulu bæði móðir og faðir undirrita umsóknina. Þá er krafist áritunar vinnuveitanda til staðfestingar á að hann hafi samþykkt áætlaða töku fæðingarorlofs starfsmanns.
Með ákvæðinu er Tryggingastofnun veitt heimild til að afla upplýsinga hjá skattyfirvöldum um tekjur foreldra sem sækja um greiðslur í fæðingarorlofi. Er um að ræða aðgang að staðgreiðslu- og tryggingagjaldsskrá. Þykir þetta fyrirkomulag til þess fallið að flýta fyrir afgreiðslu mála hjá Tryggingastofnun auk þess sem það sparar foreldrum ákveðna fyrirhöfn að safna saman launamiðum fyrir 12 mánaða tímabil. Telji foreldrar þær upplýsingar rangar er Tryggingastofnun byggir útreikninga sína á er þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn því til staðfestingar.
Um 16. gr.
Ákvæðið á sér fyrirmynd í 5. mgr. 15. gr. og h-lið 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sú breyting er þó lögð til að um sameiginlegan rétt foreldra verði að ræða í samræmi við markmið frumvarpsins. Á framlenging fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu við um fæðingu fjölbura, þegar ættleiðendur ættleiða fleiri en eitt barn í einu eða taka fleiri en eitt barn í varanlegt fóstur á sama tíma. Um greiðslur á þeim tíma sem framlengingin varir fer samkvæmt ákvæði 13. gr.
Um 17. gr.
Þetta ákvæði á sér fyrirmynd í 15. gr. og 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sú breyting er þó lögð til að sá réttur foreldra til fæðingarorlofs sem heimilt er að framlengja í þeim tilfellum þegar um alvarleg veikindi barns er að ræða skuli vera foreldrum sameiginlegur. Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar sjálfrar sem eru í tengslum við fæðinguna. Er við það miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.
Samkvæmt 4. mgr. á þunguð kona rétt á að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag teljist það nauðsynlegt af heilsufarsástæðum. Þetta er í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga en skilyrðin fyrir réttindunum voru nánar útfærð í reglugerð um greiðslur í fæðingarorlofi, nr. 296/1998, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 127/1999. Er gert ráð fyrir að áfram verði kveðið á um þessi réttindi í reglugerð en þó er talið rétt að kveðið sé á um í lögum að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda, sbr. 6. mgr. Með heilsufarsástæðum í 4. mgr. er átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni. Þar fellur einnig undir fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni, sbr. nú 9. gr. reglugerðar nr. 296/1998 með síðari breytingum. Réttindi til lengingar fæðingarorlofs af heilsufarsástæðum falla niður beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns, enda skal hið hefðbundna fæðingarorlof hefjast eigi síðar en á fæðingardegi, sbr. 3. mgr. 8. gr.
Rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt þessu ákvæði með vottorði læknis en það er lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Önnur veikindi foreldra eða barna lengja ekki fæðingarorlof. Um greiðslur á þeim tíma sem framlengingin varir fer samkvæmt ákvæði 13. gr.
Um 18. gr.
Lagt er til að foreldrar sem standa utan vinnumarkaðar eða eru í minna en 25% starfi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Áhersla er lögð á að þessi réttur verði ekki framseljanlegur. Til frekari skýringa vísast til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins. Til viðbótar eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði sem þeir eiga kost á að hagræða milli sín að eigin vild. Er hér miðað við að báðir foreldrar séu utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Þegar t.d. annað foreldrið er utan vinnumarkaðar en hitt er á vinnumarkaði á fyrrnefnda foreldrið rétt á fæðingarstyrk samkvæmt ákvæði þessu en það síðarnefnda á rétt á fæðingarorlofi skv. 8. gr. frumvarpsins. Fer um skiptingu sameiginlega réttarins skv. 6. mgr. þessarar greinar.
Gert er ráð fyrir að frumvarpið leiði ekki til skerðingar frá núgildandi fæðingarorlofskerfi á greiðslum til foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða þeirra sem eru í minna en 25% starfi. Lagt er til að fæðingarstyrkur verði 33.157 kr. á mánuði en það er sama fjárhæð og þessir aðilar hafa samkvæmt gildandi kerfi. Gert er að skilyrði fyrir rétti til fæðingarstyrks að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barns. Í ákvæði þessu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga, nr. 21/1990. Skilyrðið um lögheimili hér á landi er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til almannatrygginga, þ.e. að einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.
3. mgr. á sér fyrirmynd í 15. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Í þessu sambandi er vakin athygli á því að hefjist greiðslur við upphaf ferðar telst sá tími til þeirra þriggja mánaða sem foreldri hefur sjálfstæðan rétt til eða þeirra þriggja mánuða sem foreldrar eiga rétt á sameiginlega.
Réttur foreldris er bundinn við að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar greiðsla fæðingarstyrks hefst. Þetta er nýmæli og er í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. Vísast til athugasemda við ákvæði 8. gr. til frekari skýringa.
Lagt er til að greiðslur skulu inntar af hendi mánaðarlega og hefjast þær næstu mánaðamót eftir að barn fæðist. Er þá greitt fyrir fæðingarmánuð barnsins óháð því hvaða mánaðardag barn fæddist. Miðast því upphaf þess tímabils sem fæðingarstyrkur greiðist fyrir við fyrsta dag fæðingarmánuð barns nema foreldri ákveði að greiðslur skuli hefjast síðar.
Þá er lagt til að litið sé heildstætt á réttindi foreldra þrátt fyrir að annað þeirra sé utan vinnumarkaðar eða sé í minna en 25% starfi og hitt foreldrið starfi á vinnumarkaði. Er því gert ráð fyrir að foreldrar fái greitt hvort úr sínu kerfi í því hlutfalli sem þau ákveða. Dæmi um þetta er að foreldrar komast að samkomulagi um að það foreldri sem er á vinnumarkaði taki fæðingarorlof í sex vikur og njóti greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma. Á þá foreldri sem er utan vinnumarkaðar rétt á greiðslu fæðingarstyrks fyrir þann tíma sem eftir er að hinum sameiginlega þriggja mánaða rétti. Er þó vakin athygli á því að réttur foreldris á vinnumarkaði til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er háður því að foreldri leggi niður launuð störf á meðan.
Um 19. gr.
Lagt er til að foreldrar sem eru í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Áhersla er lögð á að þessi réttur verði ekki framseljanlegur. Vísast til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins til frekari skýringa. Til viðbótar eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði sem þeir eiga kost á að hagræða milli sín að eigin vild. Er hér miðað við að báðir foreldrar séu í námi. Falli foreldrar undir mismunandi kerfi nýtur hvort um sig réttar samkvæmt sínu kerfi en um skiptingu sameiginlega réttarins fer skv. 6. mgr.
Gert er ráð fyrir að frumvarpið leiði ekki til skerðingar frá núgildandi fæðingarorlofskerfi á greiðslum til foreldra sem eru í fullu námi. Lagt er til að fæðingarstyrkur verði 74.867 kr. á mánuði en það er sama fjárhæð og þessir aðilar hafa samkvæmt gildandi kerfi.
Í ákvæðinu er gert ráð fyrir heimild til að setja reglugerð en þar væri meðal annars unnt að kveða á um greiðslur til námsmanna sem ekki eru í fullu námi til að þeir haldi rétti sínum eins og hann er samkvæmt gildandi reglum. Að öðru leyti vísast til athugsemda við ákvæði 18. gr. til frekari skýringa.
Um 20. gr.
Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. mgr. 15. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sú breyting er þó lögð til að foreldrar eigi sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu eða fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu.
Þá er lagt til að litið sé heildstætt á réttindi foreldra samkvæmt ákvæði þessu og ákvæði 12. gr. um rétt til fæðingarorlofs í sömu tilvikum. Taki annað foreldrið þannig hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur. Er þó vakin athygli á því að réttur foreldris á vinnumarkaði til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er háður því að foreldri leggi niður launuð störf á meðan.
Um 21. gr.
Ákvæðið á sér fyrirmynd í 5. mgr. 15. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sú breyting er þó lögð til að um sameiginlegan rétt foreldra verði að ræða í samræmi við markmið frumvarpsins. Aukin réttur til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu á við um fæðingu fjölbura, þegar ættleiðendur ættleiða fleiri en eitt barn í einu eða taka fleiri en eitt barn í varanlegt fóstur á sama tíma.
Þá er lagt til að litið sé heildstætt á réttindi foreldra samkvæmt ákvæði þessu og ákvæði 16. gr. um framlengingu á rétti til fæðingarorlofs vegna fjölburafæðinga. Taki annað foreldrið hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur. Er þó vakin athygli á því að réttur foreldris á vinnumarkaði til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er háður því að foreldri leggi niður launuð störf á meðan.
Um 22. gr.
Þetta ákvæði á sér fyrirmynd í 15. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Sú breyting er þó lögð til að réttur foreldra til fæðingarstyrks samkvæmt ákvæði þessu þegar um veikindi barns er að ræða verði foreldrum sameiginlegur. Heimilt er að framlengja rétt móður til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar sjálfrar sem eru í tengslum við fæðinguna. Er við það miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.
Rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu á rétti til fæðingarstyrks samkvæmt þessu ákvæði með vottorði læknis en það er lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging þess réttar verði talin nauðsynleg. Önnur veikindi foreldra eða barna auka ekki á réttinn til fæðingarstyrks.
Þá er lagt til að litið sé heildstætt á réttindi foreldra samkvæmt ákvæði þessu og ákvæði 17. gr. um framlengingu á rétti til fæðingarorlofs vegna sömu tilvika. Taki þannig annað foreldrið hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks sem því nemur. Er þó vakin athygli á því að réttur foreldris á vinnumarkaði til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er háður því að foreldri leggi niður launuð störf á meðan.
Um 23. gr.
Ákvæðið er í samræmi við 15. gr. frumvarpsins sem kveður á um hvernig foreldrar á vinnumarkaði skuli bera sig að við umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Lagt er til í ákvæði þessu að foreldri skuli sækja um fæðingarstyrk þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Hér er um styttri fresta að ræða en í 15. gr. en ekki þótti ástæða að hafa frestinn jafnlangan þar sem fæðingarstyrkur er jafnan ákveðin fjárhæð. Sé annað foreldrið á vinnumarkaði en hitt ekki og fellur þar með undir 18. eða 19. gr. frumvarpsins þurfa foreldrar að tilgreina fyrirhugaða skiptingu á hinum sameiginlega þriggja mánaða rétti þrátt fyrir styttri frest samkvæmt þessu ákvæði. Getur þá foreldri sem nýtur réttar til fæðingarstyrks sótt um styrkinn á sama tíma og foreldri á vinnumarkaði sækir um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 15. gr. frumvarpsins.
Um 24. gr.
Lagt til að foreldri eigi rétt á foreldraorlofi að hámarki í 13 vikur. Er þá gert ráð fyrir að heimilt verði að taka foreldraorlof allt þar til barnið nær átta ára aldri, sbr. 3. mgr. Miðað er við það aldursmark í rammasamningnum um foreldraorlof sem verið er að innleiða með frumvarpi þessu. Í þessu sambandi er miðað við átta ára afmælisdag barnsins. Á þá hvort foreldri rétt á 13 vikum fyrir hvert barna sinna yngra en átta ára.
Tekið er fram í 1. mgr. að foreldraorlof sé ætlað til umönnunar barns starfsmanns. Í því getur falist að forsjárlaust foreldri geti sótt um leyfi vilji það sinna umgengni við barn sitt um lengri tíma. Þótti ekki ástæða til að skilyrða rétt foreldris án forsjár til foreldraorlofs við samþykki þess foreldris sem fer með forsjána á sama hátt og fæðingarorlof. Ástæðan er meðal annars sú að heimilt er að taka foreldraorlof skemur en eina viku. Væri því taka foreldraorlofs forsjárlauss foreldris vel samræmanleg þeim umgengnisrétti sem það á rétt á. Þó ber að skýra þetta ákvæði til samræmis við ákvæði barnalaga, nr. 20/1992, með síðari breytingum, um inntak forsjár- og umgengnisréttar.
Foreldraorlofið getur almennt fyrst hafist eftir fæðingu barns. Heimild er í rammasamningnum um að sérstakt tillit sé tekið til aðstæðna vegna ættleiðingar. Upphaf foreldraorlofs vegna ættleiðingar barns miðast við þann tíma er barnið kemur inn á heimilið. Ef foreldri þarf að sækja barnið til útlanda getur foreldraorlofið hafist við upphaf ferðar. Er þetta til samræmis við ákvæði um fæðingarorlof. Í núgildandi barnaverndarlögum, nr. 58/1992, með síðari breytingum, er sérstaklega kveðið á um ráðstöfun barna í fóstur. Eðli málsins samkvæmt þótti ástæða til að fósturforeldrar sem taka barn í varanlegt fóstur nytu sama réttar til foreldraorlofs og aðrir foreldrar.
Tekið er fram í 4. mgr. að réttur til foreldraorlofs er ekki framseljanlegur. Til frekari skýringa vísast til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins.
Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsmaður haldi launum meðan á foreldraorlofi stendur. Hins vegar er lögð á það áhersla að samningssamband milli vinnuveitanda og starfsmanns haldist á þeim tíma sem foreldraorlofið stendur yfir. Ekki koma til aðrar greiðslur frá ríki eða sveitarfélögum og á starfsmaður í foreldraorlofi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, enda ekki til reiðu fyrir vinnumarkaðinn.
Um 25. gr.
Ákvæði 1. mgr. kveður á um að starfsmaður skuli eiga rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi. Þá er gert ráð fyrir í 2. mgr. að starfsmanni og vinnuveitanda hans verði heimilt að komast að samkomulagi um hvernig orlofinu skuli háttað á sama hátt og foreldrar geta samið um fyrirkomulag fæðingarorlofs. Þá er áréttað í 3. mgr. þessarar greinar að vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir foreldra um tilhögun foreldraorlofs.
Í 4. mgr. er sett takmörkun við lengd foreldraorlofs á 12 mánaða tímabili. Er ákvæðinu ætlað að ná til þeirra tilvika þegar starfsmaður á rétt á lengra foreldraorlofi en 13 vikum vegna þess að hann á fleiri en eitt barn undir átta ára aldri. Getur hann samkvæmt ákvæðinu ekki tekið lengra foreldraorlof en 13 vikur á 12 mánaða tímabili nema til komi sérstakt samþykki vinnuveitanda.
Um 26. gr.
Lagt er til að starfsmaður öðlist rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Er þó ekkert því til fyrirstöðu að hann geti gefið vinnuveitanda sínum tilkynningu um töku foreldraorlofs eftir að hafa unnið hjá sama vinnuveitanda í tæpa fimm mánuði. Þykja sex mánuðir hæfilegur tími sem lágmarksstarfstími sem starfsmaður skal vinna hjá sama vinnuveitanda áður en hann getur tekið leyfi frá störfum til að sinna barni sínu.
Í 2. mgr. er lagt til að starfsmaður tilkynni vinnuveitanda með a.m.k. sex vikna fyrirvara að hann ætli að nýta sér rétt sinn til foreldraorlofs. Þykir sá fyrirvari hæfilegur til þess að vinnuveitandi geti gert nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráða staðgengil eða þjálfa annan starfsmann til að sinna þeim verkefnum sem viðkomandi starfsmaður hefur annast meðan á orlofinu stendur.
Til að auðvelda sönnun ef upp koma deilur um töku orlofs var talið nauðsynlegt að lögfesta ákveðnar formreglur í samskiptum vinnuveitanda og starfsmanns. Er því tekið fram í ákvæðinu að tilkynning skuli vera skrifleg og að þar skuli koma fram upphafsdagur, lengd og tilhögun orlofs. Einnig er tekið fram að vinnuveitandi skuli árita á tilkynninguna hvaða dag hún er móttekin og afhenda starfsmanni síðan afrit hennar.
Sú skylda er lögð á vinnuveitanda að hann skrái töku foreldraorlofs starfsmanns þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess. Þetta verður að teljast nauðsynlegt bæði fyrir vinnuveitanda og starfsmann. Vinnuveitandi þarf að halda utan um þá fæðingarorlofsdaga sem starfsmaður hefur tekið í starfi hjá honum þar sem starfsmaður á einungis rétt á 13 vikna foreldraorlofi fyrir hvert barna sinna. Af sömu ástæðum þarf starfsmaður að geta sýnt nýjum vinnuveitanda fram á hversu marga daga hann á eftir af orlofi sínu. Er þetta einkum mikilvægt í ljósi þess að taka foreldraorlofs getur dreifst yfir átta ára tímabil.
Um 27. gr.
Í 1. mgr. er að finna reglur um með hvaða hætti vinnuveitanda er heimilt að ákveða breytta tilhögun foreldraorlofs. Er tekið fram að um slíka ákvörðun skuli hafa samráð við starfsmann en vinnuveitanda ber að tilkynna formlega um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar starfsmanns. Er það gert til að auðvelda sönnun ef upp koma deilur síðar. Þá ber vinnuveitanda að tilgreina skriflega þær ástæður er liggja að baki breyttri tilhögun og ef um frestun er að ræða skal taka fram hve lengi frestunin varir. Í flestum tilvikum verður vinnuveitandi að tilkynna ákveðna dagsetningu hvað þetta varðar en einnig er mögulegt að tilgreina að foreldraorlofi þurfi að fresta þar til ákveðnu verkefni eða álagstíma er lokið, sbr. þó takmarkanir 3. mgr.
Lagt er til að frestunarheimildinni verði eingöngu beitt þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi í rekstri fyrirtækis eða stofnunar sem gera slíkt nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt. Taldar eru upp í greininni aðstæður sem teljast munu gildar en sú upptalning telst ekki tæmandi. Á það meðal annars við ef álagstími fer í hönd er starfsmaður hugðist taka orlof sitt eða vinnuveitanda hefur ekki lánast að finna hæfan staðgengil ef þess er þörf. Í síðarnefnda tilvikinu verður þó að gera kröfur um að vinnuveitandi hafi reynt í tíma að leita eftir hæfum starfskrafti. Þegar starfsmaður gegnir lykilhlutverki við stjórnun fyrirtækis getur einnig þurft lengri frest til að mæta tímabundnu brotthvarfi hans en þann sex vikna frest sem krafist er að starfsmaður gefi vinnuveitanda áður en foreldraorlof skal hefjast.
Í 3. mgr. eru enn fremur lagðar til tímatakmarkanir á heimild vinnuveitanda til að fresta foreldraorlofi. Er þar gert ráð fyrir að frestunin geti aldrei varað lengur en í sex mánuði frá fyrirhuguðum upphafsdegi foreldraorlofs nema til komi samþykki starfsmanns. Ákvæðið ber að skýra með hliðsjón af 3. mgr. 25. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að vinnuveitandi skuli leitast við að taka tillit til óska starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs. Þótti í þessu samhengi hálft ár hæfilegur hámarkstími til frestunar foreldraorlofs. Má þar benda á að vinnuveitanda ætti að vera kleift að finna hæfan staðgengil á þessum tíma og jafnframt verður að teljast líklegt að álagstímar flestra fyrirtækja eða stofnana vari ekki mikið lengur en í hálft ár. Vinnuveitandi hefur þó jafnan heimild í frumvarpinu að ná samkomulagi við starfsmann um lengri frest en til þess verður einnig að líta að hálft ár er mikill breytingatími í lífi ungs barns.
Í 4. mgr. eru talin upp atvik sem leitt geta til þess að vinnuveitanda verði óheimilt að fresta foreldraorlofi. Eru talin upp tvö tilvik sem orðið geta til þess að frestun verði almennt óheimil, þ.e. ef barn veikist eða foreldraorlof er tekið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Þykir eðlilegt að takmarka heimild vinnuveitanda til frestunar foreldraorlofs þegar um veikindi barns er að ræða þar sem barn þarfnast þá nærveru foreldris sem og í ljósi tilgangs foreldraorlofs. Á seinna tilvikið sér fyrirmynd úr dönskum lögum um foreldraorlof en margar ástæður geta legið að baki því að foreldri kjósi að taka orlofið í beinu framhaldi af fæðingarorlofi. Má þar helst nefna að erfitt getur verið að fá gæslu fyrir svo ungt barn. Einnig er skýrt tekið fram að ef vinnuveitandi fer ekki að þeim formreglum sem raktar eru í 1. mgr. þessa ákvæðis kann hann að glata rétti til frestunar og að vinnuveitanda er óheimilt að afturkalla þegar veitt samþykki sitt.
Ákvæði 5. mgr. tekur til þeirra tilvika þegar starfsmaður hefur geymt rétt sinn til foreldraorlofs fram á áttunda aldursár barns síns. Til að fyrirbyggja að frestun af hálfu vinnuveitanda leiði til þess að rétturinn glatist er tekið fram að frestun við þessar aðstæður leiði til framlengingar orlofsréttar um eitt ár, þ.e. til þess tíma þegar barnið verður níu ára gamalt.
Um 28. gr.
Ákvæðinu er ætlað að vernda starfsmann gegn því að glata þeim rétti sem hann hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði rammasamningsins um foreldraorlof sem verið er að innleiða með frumvarpi þessu.
Um 29. gr.
Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda haldist óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Í þessu sambandi má benda á ákvæði 14. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að starfstengd réttindi haldist á þessu tímabili.
Einnig eru tekin af öll tvímæli um rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Í því felst þó ekki takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarlegar breytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmannsins á svipaðan hátt og þær hafa áhrif á störf annarra starfsmanna. Slíkar breytingar á starfi starfsmannsins skulu ekki hafa áhrif á launakjör hans til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði rammasamningsins um foreldraorlof.
Um 30. gr.
Tilgangur þessa ákvæðis er að vernda starfsmenn sem lagt hafa fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða eru í fæðingar- eða foreldraorlofi gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo er ástatt um ber honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Slíkt ákvæði er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn samkvæmt frumvarpinu.
Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 7. gr. gildandi laga um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Jafnframt er ákvæðið í samræmi við rammasamninginn um foreldraorlof. Til þess að ákvæði þetta nái tilgangi sínum er nauðsynlegt að vinnuveitanda verði gert skylt að láta skriflegan rökstuðning fylgja uppsögn í þeim tilvikum sem greinir í ákvæðinu.
Sömu skilyrði gilda um uppsagnir á þunguðum konum og konum sem nýlega hafa alið barn, sbr. 4. mgr. 7. gr., en samsvarandi ákvæði er í 10. gr. tilskipunar ráðsins um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85/EBE.
Um 31. gr.
Komi vinnuveitandi í veg fyrir að foreldri njóti þeirra réttinda sem það á rétt á samkvæmt frumvarpi þessu getur vinnuveitandi orðið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Á þetta sérstaklega við bregðist vinnuveitandi þeirri skyldu að tryggja að fyrra starf starfsmanns eða sambærilegt starf í samræmi við ráðningarsamning standi honum til boða er hann snýr aftur til starfa að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sama gildir einnig segi hann starfsmanni upp störfum sem lagt hefur fram skriflega tilkynningu um að hann ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi án þess að málefnalegar ástæður liggi þar að baki.
Um 32. gr.
Ákvæðið á sér fyrirmynd í 15. gr. og 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, í sambandi við fæðingarorlof og fæðingarstyrk. Sú breyting er þó lögð til að lágmarksfæðingarorlof sem móðir hefur í gildandi lögum verði hluti af sameiginlegu orlofi foreldra. Sama á við um greiðslu fæðingarstyrks. Er það til samræmis við markmið frumvarpsins. Jafnframt er lagt til í frumvarpi þessu að foreldraorlof falli niður af sömu ástæðum eðli málsins samkvæmt. Þó verður ekki talin ástæða til að veita foreldrum lágmarkstíma í foreldraorlof þar sem það þjónar öðrum markmiðum en fæðingarorlof.
Í 2. mgr. er lagt til að foreldrar eigi rétt til töku fæðingarorlofs í allt að tvo mánuði eftir fæðingu barns og sama gildir um rétt foreldra til greiðslu fæðingarstyrks. Falli foreldrar undir mismunandi kerfi nýtur hvort um sig greiðslu samkvæmt sínu kerfi en um skiptingu réttar samkvæmt ákvæði þessu fer eins og mælt er fyrir um í 3. mgr.
Um 33. gr.
Í 1. mgr. er lagt til að fram komi til skýringar að foreldrar í fæðingar- eða foreldraorlofi eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/ 1997, með síðari breytingum. Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til umönnunargreiðslna vegna sama barns eða sömu fæðingar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum. Sama gildir um greiðslu sjúkradagpeninga og lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Greiðslur sem koma frá öðrum ríkjum koma til frádráttar þeim greiðslum sem foreldri á rétt úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. eða greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. og 19. gr.
Um 34. gr.
Með ákvæðinu er einkum verið að vísa til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins). Þegar EES-samningurinn tók gildi á Íslandi voru þar greindar ESB- gerðir á sviði almannatrygginga og félagsmála sem taka bar upp í landsrétt EES-ríkjanna skv. 7. gr. EES-samningsins. Þar á meðal var reglugerð ráðsins frá 14. júní 1971 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, nr. 1408/71/EBE, með síðari breytingum, og reglugerð ráðsins frá 21. mars 1972 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar nr. 1408/71/ EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, nr. 574/72/EBE. Þessar reglugerðir eiga stoð í núgildandi almannatryggingalögum, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Er því með ákvæði þessu verið að tryggja að framkvæmd laga þessara verði í samræmi við ákvæði reglugerðanna, sem og annarra gerða á sviði almannatrygginga og félagsmála sem hafa orðið eða verða hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Um 35. gr.
Ákvæðið veitir félagsmálaráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Markmiðið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrar á um réttinn til fæðingar- og foreldraorlofs auk réttarins til greiðslna í fæðingarorlofi og til fæðingarstyrks ef nauðsyn ber til við framkvæmd laganna.
Um 36. gr.
Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Þó er gert að tillögu að ákvæði um fæðingarorlof komi til framkvæmda 1. janúar 2001 en það er talið lágmarksundirbúningstími fyrir framkvæmd hins nýja kerfis. Falla þá núgildandi lög um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum, úr gildi 1. janúar 2001. Ákvæði um fæðingarorlof taka til barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2001 eða síðar. Foreldrar þessara barna öðlast því rétt til fæðingarorlofs samkvæmt hinu nýja kerfi. Foreldrar sem eru í fæðingarorlofi er hið nýja kerfi kemur til framkvæmda munu halda áfram í núverandi kerfi. Mæður, sem hafa nýtt sér rétt sinn samkvæmt núgildandi kerfi að hefja fæðingarorlof mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag en barn þeirra fæðist 1. janúar 2001 eða síðar, öðlast rétt til áframhaldandi fæðingarorlofs samkvæmt hinu nýja kerfi.
Lagt er til að lenging á sjálfstæðum rétti föður til töku fæðingarorlofs verði í áföngum þannig að hið nýja kerfi verði að fullu komið til framkvæmda á tveimur árum. Gert er ráð fyrir að sjálfstæður réttur karla til fæðingarorlofs lengist í fyrsta áfanga um tvær vikur eða úr tveimur vikum í núgildandi kerfi í einn mánuð. Þó er vakin athygli á að frá og með 1. janúar 2001 eiga feður rétt til að taka fæðingarorlof af þeim hluta orlofsins sem ætlaður er foreldrum sameiginlega. Ári síðar lengist sjálfstæður réttur karla í tvo mánuði og 1. janúar 2003 verður rétturinn þrír mánuðir.
Enn fremur er gert ráð fyrir að foreldraorlof megi taka vegna barna sem fædd eru 1. janúar 1998 eða síðar. Ef horft er til nágrannalanda er ekki að sjá að einhver algild regla sé ráðandi varðandi gildistíma. Ástæða þess að lagt er til að framangreind dagsetning verði höfð sem viðmiðun er að um er að ræða síðustu áramótin áður en tilskipunin átti að taka gildi samkvæmt lokaákvæðum tilskipunarinnar innan aðildarríkja Evrópusambandsins. Jafnframt er litið til þess sanngirnissjónarmiðs að réttur til foreldraorlofs taki til foreldra barna sem fædd eru á sama almanaksári.
Um 37. gr.
Lagt er til að Fæðingarorlofssjóður verði fjármagnaður með ákveðnum hluta tryggingagjalds. Er það gert að tillögu að almenna tryggingagjaldið verði hækkað úr 3,99% í 4,34% af gjaldstofni skv. III. kafla laganna. Sú hækkun jafngildir þeirri lækkun sem lagt er til að gerð verði á atvinnutryggingagjaldinu. Yrði atvinnutryggingagjald því lækkað úr 1,15% í 0,8% af gjaldstofni skv. III. kafla laganna. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að ráðstöfun almenna tryggingagjaldsins verði breytt þannig að 0,85% af því renni til Fæðingarorlofssjóðs, sem standa á undur fjármögnun hans. Gert er ráð fyrir að lækkun atvinnutryggingagjalds hafi í för með sér tekjuskerðingu hjá Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur um 1,2 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Þrátt fyrir það skerðir það ekki bolmagn sjóðsins til að greiða atvinnuleysisbætur miðað við núverandi atvinnuástand, enda hafa tekjur sjóðsins verið töluvert umfram gjöld hans.
Hér er eingöngu um að ræða tilfærslu á fjármagni vegna upptöku Fæðingarorlofssjóðs og hefur því engin áhrif gagnvart launagreiðendum. Staðgreiðslu- og álagningarhlutfallið verður það sama eftir sem áður.
Um 38. gr.
Lagt er til að orðalag 1. mgr. 10. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, verði svohljóðandi: „Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrkja og barnalífeyris.“ Ekki er um grundvallarbreytingu að ræða á orðalagi ákvæðisins heldur felur breytingin í sér að orðin „og bóta í fæðingarorlofi“ falla brott. Það er í samræmi við þær breytingar sem leiðir af frumvarpinu en þar er lagt til að bætur í fæðingarorlofi falli utan við almannatryggingakerfið.
Lagt er til að ákvæði 15.–16. gr. a sömu laga verði fellt brott en það leiðir af breytingum vegna hins nýja kerfis um fæðingar- og foreldraorlof sem lagt er til í frumvarpinu og lagabreytingum sem leiðir af því.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Í frumvarpinu er lagt til að foreldrar hafi rétt til að taka foreldraorlof frá launuðum störfum vegna fæðingar barns, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Orlofið er launalaust og skal það tekið áður en barnið nær átta ára aldri. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna foreldraorlofsins er 100–200 m.kr. á hverju ári, miðað við að 50–70% þeirra starfsmanna sem hafa rétt til foreldraorlofs nýti sér hann. Miðað er við að orlofið sé tekið á sjö ára tímabili og ekki er gert ráð fyrir að það sé tekið á fyrsta ári barnsins. Nokkurn fyrirvara verður að hafa á þessari áætlun þar sem óvíst er í hve miklum mæli foreldrar nýta sér þennan rétt og hve mikil þörf verður fyrir afleysingar eða önnur úrræði til að leysa verkefni sem starfsfólk í foreldraorlofi hefur með höndum.
Tilgangurinn með breytingum á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, er að breyta samsetningu tryggingagjalds til að standa straum af kostnaði við Fæðingarorlofssjóð. Sam
Tilgangurinn með breytingum á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, er að jafna rétt karla og kvenna utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks. Frumvarpið nær til foreldra sem eru heimavinnandi, í minna en 25% starfshlutfalli og námsmanna.