Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1067  —  460. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni og Árna Steinari Jóhannssyni.



    Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal allt að 1,5% aflaheimilda af heildaraflamarki þorsks og ýsu úthlutað sérstaklega til aflamarksskipa sem voru minni en 200 brúttórúmlestir 1. september 1999. Skilyrði þess að aflamarksskip fái úthlutun er að skipið hafi 1. september 1999 haft minna aflamark en 80 þorskígildistonn. Úthlutunarréttur hækkar með fækkandi þorskígildistonnum aflamarks viðkomandi fiskiskips niður í 20 þorskígildistonn eða minna miðað við 1. september 1999. Jafnframt er skilyrði að fiskiskipið hafi leigt til sín á Kvótaþingi 40 þorskígildistonn eða meira fiskveiðiárið 1999/2000. Þá þarf aflamarksskip að hafa veitt 75% af aflamarki sínu í botnfiski fiskveiðiárið 1999/2000.
    Aflaheimildir þessar verða ekki framseldar til annarra fiskiskipa og teljast ekki með þegar veiðiskip uppfyllir 50% veiðiskyldu hvers árs, sbr. ákvæði 12. gr. laga þessara. Heimildum þessum verður aðeins úthlutað til dagróðrabáta.
    Hámarksúthlutun eftir stærðarflokkum fiskiskipa í brúttórúmlestum annars vegar og þorskígildishámarki hins vegar er sem hér segir:


Stærð skipa
Hámark þorskígildistonna
20 tonn eða minna 20,1–40 tonn 40,1–60 tonn 60,1–80 tonn
0–20 brl. 30 tonn 20 tonn 15 tonn 10 tonn
20,1–40 brl. 40 tonn 30 tonn 20 tonn 15 tonn
40,1–60 brl. 50 tonn 40 tonn 30 tonn 20 tonn
60,1–100 brl. 60 tonn 50 tonn 40 tonn 30 tonn
100,1–150 brl. 70 tonn 55 tonn 40 tonn 35 tonn
150,1–200 brl. 80 tonn 65 tonn 45 tonn 35 tonn

    Fiskiskip sem er með meira en 80 þorskígildistonn fær ekki úthlutun.
    Einnig skal þeim útgerðaraðilum, sem gera út fiskiskip minni en 20 brl. að stærð, uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. um að hafa leigt til sín 40 þorskígildistonn eða meira á fiskveiðiárinu 1999/2000 og höfðu minna aflamark 1. september 1999 en 15 þorskígildistonn, úthlutað allt að 15 tonnum í þorskígildum þorsks og ýsu. Þó skal þeim aldrei úthlutað meiru en aflamark þeirra var 1. september 1999 og aldrei meiru en nemur þeim afla sem þau veiddu og lönduðu á fiskveiðiárinu 1999/2000.
    Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt til sín viðbótaraflaheimildir.