Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1090  —  625. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

Frá: landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist nýr stafliður, g-liður, svohljóðandi: til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum bænda.

2. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Upphæð lána má vera allt að 65% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Upphæð lána til kaupa á jörðum má vera allt að 70% af matsverði eignar. Lán er heimilt að veita í áföngum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að rýmka heimildir Lánasjóðs landbúnaðarins til lánveitinga.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að lögfesta heimildir fyrir Lánasjóð landbúnaðarins til að veita bændum lán til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum bænda. Í 5. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1986, var ákvæði sem ótvírætt heimilaði slíkt. Það ákvæði var sett til að létta bændum greiðslubyrði skulda sem þeir höfðu stofnað til við uppbyggingu og rekstur jarða. Sambærilegt ákvæði var ekki tekið upp í lög nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, er þau leystu af hólmi lög nr. 45/1971, en Lánasjóðurinn tók við réttindum og skyldum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Er litið svo á að Lánasjóður landbúnaðarins hafi ekki heimild til slíkra lánveitinga.
    Í framkvæmd hefur komið í ljós að veruleg þörf er á slíku ákvæði þar sem fjölmargir bændur hafa farið þá leið að fjármagna framkvæmdir í búrekstri og kaup á vélum, bústofni og fóðri með skammtímalánum og sitja margir uppi með óhagstæð lán og mikla greiðslubyrði.
    Frumvarpið felur einnig í sér rýmkun á heimild Lánasjóðs landbúnaðarins til lánveitinga að öðru leyti. Samkvæmt gildandi lögum mega lán Lánasjóðs landbúnaðarins nema allt að 60% kostnaðarverðs framkvæmda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sú heimild hækki í 65%. Enn fremur er í frumvarpinu að finna heimild til að veita lán til jarðakaupa en þau mega nema allt að 70% af matsverði eigna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    Um 1. gr.

    Greinin felur í sér að bætt er við lögin heimild fyrir Lánasjóð landbúnaðarins til að veita bændum lán til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum þeirra. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Greinin felur í sér að rýmkuð er heimild Lánasjóðs landbúnaðarins til að veita lán til framkvæmda. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að veita lán til framkvæmda fyrir allt að 60% kostnaðarverðs. Gert er ráð fyrir að þessi viðmiðun hækki í 65% kostnaðarverðs. Einnig er í frumvarpinu ný heimild til að veita lán til jarðakaupa sem mega nema allt að 70% af matsverði eignar. Slík heimild er ekki í gildandi lögum.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að rýmka heimildir Lánasjóðs landbúnaðarins til lánveitinga.
    Lántökur Lánasjóðs landbúnaðarins njóta ríkisábyrgðar og er sjóðurinn í C-hluta ríkissjóðs. Svo fremi sem áhætta á útlánatapi eykst ekki við rýmkaðar heimildir hefur frumvarpið ekki áhrif á ríkissjóð.