Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1109  —  527. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um yrkisrétt.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Landgræðslu ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Líffræðistofnun Háskóla Íslands.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að unnt verði að sækja um og öðlast hugverkarétt á plöntukynbótum, svokallaðan yrkisrétt, en kveðið er á um hann í TRIPS-hluta samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem Ísland er aðili að. Með hugtakinu yrki er átt við nýtt afbrigði eða stofn af plöntutegund og með veitingu yrkisréttar mun rétthafi yrkis öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni. Yrkisrétti svipar um margt til einkaleyfaréttar, en er frábrugðinn honum í nokkrum veigamiklum atriðum. Ekki þarf að lýsa þeim forsendum eða aðferðum sem liggja að baki yrki, eins og krafa er gerð um með lýsingu á uppfinningu í einkaleyfarétti, þar sem örðugt getur reynst að endurtaka ferli sem leiðir af sér nákvæmlega sama yrki. Í frumvarpinu er engu að síður gert ráð fyrir því að meðal forsendna yrkisréttar sé að yrkið sé nægilega einsleitt og stöðugt.
    Nefndin telur að með lögfestingu reglna um yrkisrétt muni plöntukynbætur hér á landi eflast og framleiðsla og sala á fræi og plöntum til ræktunar aukast.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Einar Oddur Kristjánsson og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi sat fundi nefndarinnar og er samþykkur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2000.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Guðjón Guðmundsson.



Þuríður Backman.


Drífa Hjartardóttir.


Guðmundur Árni Stefánsson.



Kristinn H. Gunnarsson.





Prentað upp.