Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1152  —  623. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um fæðingar- og foreldraorlof.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur, Elínu Blöndal og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ragnheiði Árnadóttur frá fjármálaráðuneyti, Halldór Grönvold og Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra kennara, Ara Edwald og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Sigríði Ásthildi Andersen frá Verslunarráði. Einnig bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Verslunarráði.
    Í frumvarpinu er að finna grundvallarbreytingu á reglum um fæðingarorlof, en fram til þessa hefur réttur til töku þess nánast eingöngu verið ætlaður konum, að frátöldum tveimur vikum sem körlum var gefinn kostur á með lögum nr. 147/1997 sem breyttu lögum nr. 57/1987, um fæðingarorlof. Þetta hefur leitt til þess að konur á barneignaraldri hafa að ýmsu leyti haft veikari stöðu á vinnumarkaðnum en karlar þar sem sú hætta var ávallt fyrir hendi að konan hyrfi frá störfum um nokkurra mánaða skeið vegna barneigna, jafnvel nokkrum sinnum yfir starfsævina. Af þessum orsökum hefur einnig farið mun minna fyrir hlutverki karla í uppeldi og umönnun barna. Konur hafa verið heima við og þegið greiðslur í fæðingarorlofi sem í flestum tilvikum eru mun lægri en þær tekjur sem viðkomandi kona hefur haft úti á vinnumarkaðnum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að foreldrar sem fara með forsjá barns eigi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði en sameiginlegan rétt í þrjá mánuði til viðbótar. Nefndin lítur svo á að með frumvarpinu sé stigið stórt skref í þá átt að jafna möguleika kvenna og karla á að annast og njóta samvista við börn sín á fyrstu mánuðum ævi þeirra. Með því að veita körlum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs er jafnframt stigið mikilvægt skref í átt til jafnréttis. Þannig verða konum og körlum sköpuð sömu tækifæri að þessu leyti til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis, stuðlað verður að aukinni atvinnuþátttöku og -möguleikum kvenna, fjölskyldustefna sett í fyrirrúm og stuðlað að því að foreldrar taki til jafns ábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna. Með ákvæðum frumvarpsins er því stigið verulegt skref í þá átt að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og konum og körlum auðveldað að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að sú aðgerð að lögbinda skiptingu foreldra í fæðingarorlof sé tímabundin, en hún er álitin vera nauðsynleg um ákveðinn tíma til að festa rétt karla í sessi. Gert er ráð fyrir að þegar reynsla verði komin á fyrirkomulagið verði lögin endurskoðuð með þetta atriði í huga. Nefndin tekur undir þetta og telur nauðsynlegt að endurskoðun laganna fari fram þegar lögin hafa öðlast gildi að fullu árið 2003.
    Gagnrýni kom fram varðandi það að með ákvæðum frumvarpsins væri réttur barna einstæðra foreldra skertur gagnvart rétti barna sem nytu beggja foreldra. Foreldrar hinna síðarnefndu hefðu möguleika á að taka fæðingarorlof í allt að níu mánuði, á meðan réttur einstæðra foreldra væri áfram takmarkaður við sex mánuði. Þetta gerist þó eingöngu í undantekningartilvikum, svo sem þegar forsjárforeldri neitar forsjárlausu foreldri um rétt sinn. Þannig stuðla lögin að því að barni einstæðs foreldris sé í flestum tilvikum tryggður jafnlangur réttur til samvista við foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar og barni sambúðarforeldra. Nefndin lítur hins vegar svo á að brýnt sé að kanna betur stöðu einstæðra foreldra og beinir því til félagsmálaráðherra að kanna hvort ástæða sé til að setja í lög sérstök ákvæði um þetta atriði. Einnig væri rétt að kanna hvort í einstökum undantekningartilvikum væri unnt að veita þessum hópi rétt til lengra fæðingarorlofs. Jafnframt áréttar nefndin að þegar reynsla verður komin á hvort karlar nýti rétt sinn til fæðingarorlofs megi búast við að lögbundinni skiptingu þess tíma sem veittur er til fæðingarorlofs verði aflétt. Þá verður réttur forsjárforeldris sem ekki veitir forsjárlausu foreldri rétt til töku fæðingarorlofs jafngildur rétti sambúðarforeldra.
    Töluvert var rætt í nefndinni hvort rétt væri að skilyrða töku fæðingarorlofs því að það væri nýtt áður en barn næði 18 mánaða aldri. Ýmis rök mæla með því að sveigjanleiki verði aukinn og þessi tími lengdur, en jafnframt var bent á það sjónarmið að það væri hagur barns að njóta sem mestra samvista við foreldra sína fyrstu mánuði ævinnar. Að svo búnu gerir nefndin því ekki tillögu til breytinga en bendir á að þetta atriði sé eitt þeirra sem athugað verði við endurskoðun laganna.
    Með því að binda það í lög að foreldri í fæðingarorlofi fái 80% meðaltals heildarlauna í greiðslur í fæðingarorlofi má búast við að foreldrar hafi möguleika á að vera lengur heima hjá börnum sínum fyrst eftir fæðingu þeirra, sem og að tekjuháir einstaklingar sjái sér frekar fært að taka orlof frá vinnu til þess að sinna barni sínu. Staða kynjanna hvað varðar greiðslu fæðingarstyrks þegar foreldrar eru í námi eða utan vinnumarkaðar er einnig jöfnuð. Hvað varðar fjármögnun greiðslna í fæðingarorlofi bendir nefndin á að samkvæmt frumvarpinu verður Fæðingarorlofssjóður fjármagnaður með hluta af tryggingagjaldi og vöxtum af innstæðufé sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til fæðingarorlofs lækki samsvarandi þann hluta tryggingagjalds sem rennur til atvinnuleysistrygginga. Athugasemdir komu fram um það hvort rétt væri að setja ákvæði þess efnis að tekjur foreldra mættu ekki fara yfir ákveðið hámark til þess að þeir nytu fullra greiðslna í fæðingarorlofi. Í þessu sambandi var minnst á misnotkun ákvæða frumvarpsins þannig að þeir sem ættu von á barni ykju vinnuframlag sitt í því skyni að auka tekjur svo að miðað yrði við hærri heildarlaun við útreikning orlofs. Nefndin bendir á áhrif tekjuskatta og missis ýmissa tekjutengdra bóta og tryggingagjalds á slíkar tilfærslur og lítur svo á að þessi hætta sé minni en ávinningurinn af því að hvetja karla, sem oft hafa hærri laun en konur, til töku fæðingarorlofs. Athugasemdir voru einnig gerðar við hvernig forsendur útreiknings fæðingarorlofs væru hugsaðar, en miðað er við meðaltal heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í frumvarpinu er skilgreint hvað teljist til launa, þ.e. hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Lítil ástæða er því til að ætla að ágreiningur verði um þetta atriði. Jafnframt bendir nefndin á að makar bænda sem ekki eru formlega skráðir sem aðilar að búrekstri og starfa ekki heldur utan búsins hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru hvorki skilgreindir sem starfsmenn hjá búinu né sjálfstætt starfandi atvinnurekendur.
    Bent var á það í nefndinni að sparnaður yrði hjá sveitarfélögum og fjármálafyrirtækjum vegna greiðslu fæðingarorlofs. Einnig var bent á að sparnaður gæti orðið hjá sveitarfélögum vegna reksturs leikskóla og greiðslna til dagmæðra og hjá foreldrum vegna leikskólagjalda og greiðslna til dagmæðra.
    Ákvæði frumvarpsins um sjálfstæðan rétt hvors foreldris til foreldraorlofs eru til mikilla bóta að mati nefndarinnar sem lítur svo á að þau muni gera foreldrum hægara um vik að gera hlé á vinnu um lengri eða skemmri tíma til þess að sinna börnum sínum, njóta samvista við þau og taka virkari þátt í uppeldi þeirra. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að taka foreldraorlofs hefjist í beinu framhaldi af fæðingarorlofi foreldris, m.a. af þeirri ástæðu að erfitt getur verið að fá daggæslu fyrir ungt barn eða aðstæður eru þannig að foreldrar treysta sér ekki til að senda það strax í gæslu. Ákvæði um foreldraorlof taka einnig til barna sem fædd eru, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 1998 eða síðar. Sjálfstæður réttur stofnast fyrir hvert fætt barn, þó með þeim takmörkunum að ekki er hægt að taka út meira en einfalt foreldraorlof, 13 vikur, á hverju tólf mánaða tímabili. Nefndin vekur athygli á því að réttur til foreldraorlofs tryggir foreldrum ekki greiðslur frá vinnuveitanda í orlofi, heldur einungis rétt til starfs síns að því loknu. Nefndin bendir jafnframt á að til þess að auðvelda vinnuveitendum að halda utan um þann tíma sem starfsmenn eru fjarverandi vegna foreldraorlofs væri unnt að útbúa sérstakt eyðublað sem vinnuveitendur útfylltu jafnóðum og fylgdi starfsmanni á sama hátt og skattkort. Þá væri komið í veg fyrir ágreining og óvissu um réttindi við starfsskipti.
    Þar sem frumvarpið tekur til allra á vinnumarkaði jafnar það muninn sem nú er á rétti opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa hjá einkafyrirtækjum. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kom fram að þetta væri brýnt, sem og það að eðlilegt væri að einn nefndarmaður í úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála væri skipaður í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Jafnframt var bent á að samkomulag við vinnuveitanda væri forsenda þess að fæðingarorlofi væri skipt niður á fleiri tímabil eða það tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Slíkt fyrirkomulag sem gæti verið beggja hagur væri undir því komið að því yrði við komið starfsins vegna.
    Að mati Alþýðusambands Íslands tekur frumvarpið á mörgum atriðum sem snúa að réttindum foreldra á almennum vinnumarkaði, m.a. rétti þungaðra kvenna og mæðra með börn á brjósti. Alþýðusambandið hefur eins og Samtök atvinnulífsins nokkrar áhyggjur af stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs komi til samdráttar í efnahagslífinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. maí 2000.Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Pétur H. Blöndal.Ólafur Örn Haraldsson.


Kristján L. Möller.


Kristján Pálsson.Steingrímur J. Sigfússon.


Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.