Ferill 609. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1171  —  609. mál.Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Birgissonar um erfðafjárskatt.

     1.      Hve háar upphæðir innheimtir ríkissjóður sem erfðafjárskatt miðað við eftirfarandi flokkun:
                  a.      börn og aðrir niðjar;
                  b.      foreldrar og niðjar þeirra;
                  c.      aðrir fjarskyldir og óskyldir?

    Samkvæmt upplýsingum ríkisbókhalds hefur ríkissjóður innheimt eftirfarandi upphæðir sem erfðafjárskatt á árunum 1990–99. Vakin er athygli á því að tölur fyrir árið 1999 eru samkvæmt bráðabirgðauppgjöri en aðrar tölur byggjast á ríkisreikningi.

Ár Kr.
1999 598.635.700
1998 523.077.489
1997 478.681.813
1996 460.064.441
1995 389.087.128
1994 407.543.848
1993 291.291.068
1992 272.093.675
1991 325.018.453
1990 234.226.392

    Upplýsingar um það hvernig þessar upphæðir skiptast eftir skyldleika erfingja við arfleifanda liggja ekki fyrir sundurliðaðar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisendurskoðun gæti slík sundurliðun fyrir árið 1999 í fyrsta lagi legið fyrir í þingbyrjun næsta haust.

     2.      Hver er kostnaður ríkissjóðs af skiptum dánarbúa á ársgrundvelli?
    Samkvæmt upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti liggja ekki fyrir tölur um kostnað ríkissjóðs af skiptum dánarbúa á ársgrundvelli.
    Kostnaður við einkaskipti er greiddur af eignum dánarbúsins og er kostnaður ríkissjóðs við einkaskipti því fyrst og fremst fólginn í kostnaði við rekstur sýslumannsembætta sem taka á móti og yfirfara einkaskiptagerðir og erfðafjárskýrslur og sinna öðrum verkefnum varðandi dánarbú sem þeim eru falin í lögum nr. 20/1991, um skipti dánarbúa o.fl. Kostnaður við opinber skipti er einnig greiddur af eignum búsins en hafi sýslumaður krafist opinberra skipta og eignir búsins hrökkva ekki fyrir skiptakostnaði fellur kostnaður á ríkissjóð. Sýslumaður krefst hins vegar alla jafna ekki opinberra skipta nema ljóst sé að eignir búsins dugi fyrir skiptakostnaði. Ef tilkynnandi andláts lýsir því yfir við sýslumanns að andvirði eigna búsins nemi ekki meira en kostnaði af útför hins látna er skiptum þess þá þegar lokið án frekari aðgerða og búið lýst eignalaust.