Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1172  —  504. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um mengunarmörk.

     1.      Hefur ráðherra kynnt sér dóma sem fallið hafa í Bandaríkjunum á síðustu árum í málum sem varða brot á mengunarmörkum?
    Ráðuneytið hefur aflað sér upplýsinga um þessi mál í Bandaríkjunum, en samkvæmt þeim voru brotamenn á síðasta ári dæmdir í samtals 208 daga fangelsi vegna brota á umhverfislöggjöfinni. Sektir námu alls 166,7 milljónum dollara. Umhverfisstofnun Bandaríkjanna, EPA, vísaði alls 403 málum til dómskerfisins á síðasta ári. Ekki er unnt á þessu stigi að veita upplýsingar um hvaða mál um var að ræða, né um dóma í einstökum málum.

     2.      Hefur verið athugað hvort um ámóta brot sé að ræða hér á landi? Hafi það ekki verið gert, þrátt fyrir ábendingar, hver er ástæðan?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um ábendingar um að bera saman umhverfislagabrot hér á landi og í Bandaríkjunum og það hefur ekki verið kannað sérstaklega. Tiltölulega óalgengt er að um brot á umhverfislöggjöf sé fjallað í dómskerfinu hér. Málum hefur þó fjölgað að undanförnu, enda hafa viðurlög við brotum á umhverfislöggjöf verið hert verulega, auk þess sem almennum hegningarlögum hefur nýlega verið breytt þannig að þau ná til slíkra brota. Ábendingar, kröfur og þvingunaraðgerðir eftirlitsaðila skila í flestum tilfellum fullnægjandi árangri.

     3.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið af hálfu ráðuneytisins til að minnka mengun frá skipum, bátum og bifreiðum?
    Aðgerðir til að draga úr mengun frá skipum og bátum felast m.a. í setningu reglugerða, gerð leiðbeininga fyrir áhafnir og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um varnir gegn mengun hafsins. Alþjóðlegur samningur um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, MARPOL 73/78, nær til allra skipa, báta og annarra fljótandi fara. Ísland hefur staðfest I., II., III. og V. viðauka samningsins um varnir gegn olíumengun frá skipum, varnir gegn mengun frá varningi sem fluttur er í lausu og varningi sem fluttur er í pökkuðu formi og varnir gegn sorpmengun frá skipum. VI. viðauki, um varnir gegn loftmengun frá skipum, er nýr og er enn unnið að staðfestingu hans.
    Gerðar eru sambærilegar kröfur og í nágrannalöndunum til að takmarka mengun frá bifreiðum. Í mengunarvarnareglugerðum er að finna ákvæði um leyfilegt magn tiltekinna mengunarefna í útblæstri bifreiða, auk ýmissa ákvæða sem miða að því að lágmarka umhverfisáhrif vegna hávaða og úrgangsefna, þ.m.t. spilliefna, vegna bifreiðaumferðarinnar og tengdrar starfsemi. Einnig hafa verið settar reglugerðir sem takmarka innihald tiltekinna efna í eldsneyti sem hefur áhrif á samsetningu útblásturslofts bifreiða. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og með hliðsjón af viðeigandi tilskipunum Evrópusambandsins. Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins sjá um að ákvæðum reglugerðanna sé framfylgt. Fylgst er með að ákvæðum um útblástursmörk sé fylgt með mælingum við reglulega skoðun ökutækja. Árið 1998 var sett reglugerð um flutning á hættulegum farmi sem gildir um flutning á vegum og utan vega. Árið 1995 var sett reglugerð um starfsþjálfum stjórnenda ökutækja sem flytja tiltekinn hættulegan farm. Útgáfa beggja þessara reglugerða og reglugerða um gerð og búnað ökutækja er á vegum dómsmálaráðuneytisins.

     4.      Eru fyrirhugaðar aðgerðir í kjölfar þess að sýnt hefur verið fram á að svonefndir hvarfakútar auka mengun (sbr. Mbl. 6. febrúar 2000) við ákveðin skilyrði?
    Árangur af notkun hvarfakúta er góður. Hvarfakúturinn þarf hins vegar að hafa náð ákveðnu hitastigi áður en hreinsivirkni verður viðunandi. Þannig virkar hvarfakútur ekki sem skildi fyrr en útblástursloft hefur náð að hita hann nægilega. Lausnir á þessu vandamáli eru fyrir hendi, þ.e. upphitun hvarfakútsins og hreyfils vélarinnar fyrir gangsetningu. Umhverfisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við notkun hreyfilhitara og geta þeir sem sett hafa upp slíkan búnað fengið afslátt hjá Orkuveitu Reykjavíkur af rafmagnsverði til notkunar hreyfilhitarans. Hvarfakútar eru tiltölulega viðkvæmir. Til þess að þeir virki vel og endist eins og til er ætlast þarf að stjórna brennslu eldsneytisins nákvæmlega. Það stuðlar einnig að betri nýtingu eldsneytisins og dregur þar með úr mengun.