Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1180  —  553. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Ara Teitsson, Ernu Bjarnadóttur og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands og Þórólf Sveinsson og Snorra Sigurðsson frá Landssambandi kúabænda. Umsagnir bárust um málið frá landbúnaðarnefnd Vopnafjarðar, Þjóðhagsstofnun, Samtökum verslunar og þjónustu og meiri hluta og minni hluta stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þá bárust nefndinni minnisblöð og erindi frá Bændasamtökum Íslands, landbúnaðarráðuneyti og Landssambandi kúabænda.
    Frumvarpið byggist á samningi ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000. Til þess að markmið samningsins nái fram að ganga þarf að breyta tilteknum ákvæðum laga nr. 99/1993 og er frumvarpið lagt fram í því skyni.
    Töluverðar umræður hafa verið í nefndinni um fyrirkomulag gæðastýringar sem gert er ráð fyrir í samningnum. Skv. 9. gr. frumvarpins skulu þeir sauðfjárframleiðendur sem á árunum 2003–2007 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu samkvæmt reglum sem landbúnaðarráðherra setur í reglugerð eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Álagsgreiðslurnar skulu greiddar af uppkaupaálagi og þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um fyrir tiltekna gæðaflokka dilkakjöts samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, en geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kíló dilkakjöts.
    Ekki er skilgreint nánar í frumvarpinu hvernig skilyrðum gæðastýrðrar framleiðslu verði háttað. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að þar sem gert er ráð fyrir að ákveðnum hluta beingreiðslna verði varið til að greiða sérstakar álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu þurfi að setja lög um þær reglur sem gilda skuli um úthlutun þeirra. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra taki ákvörðun um álagsgreiðslurnar að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, en hún er að hluta til skipuð fulltrúum framkvæmdarvaldsins. Hér er um að ræða verulega fjármuni sem nefndin telur óeðlilegt að hægt sé að úthluta til framleiðenda með stjórnvaldsfyrirmælum. Eitt af markmiðum samningsins er að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið. Hins vegar er enginn einhlítur mælikvarði fyrir hendi sem styðjast má við þegar landnýting er metin og ljóst að mikil vinna er fram undan við kortlagningu á gróðurjörðum. Með hliðsjón af þessu gerir meiri hluti nefndarinnar breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að ráðherra verði gert að leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2002 frumvarp til laga um álagsgreiðslur vegna gæðastýringarinnar, en gert er ráð fyrir að ákvæðin um gæðastýringuna verði virk árið 2003. Þannig er tryggt að sjálfri framkvæmd gæðastýringarinnar verði skipað með lögum.
    Nefndin ræddi einnig nokkuð um heimild til framsals á greiðslumarki. Gert er ráð fyrir því í samningnum að framsal greiðslumarks milli lögbýla verði heimilt án takmarkana eigi síðar en 1. janúar 2004. Fram til þess tíma eða þar til ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi er flutningur greiðslumarks milli lögbýla aðeins heimill með sérstökum skilyrðum.
    Markaður fyrir lífrænt ræktaðar og vottaðar vörur eykst stöðugt. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að eitt af markmiðum samningsins er að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Með því að taka upp gæðastýrða framleiðslu er stigið skref í þá átt að hvetja til vistvænnar framleiðslu sem getur verið áfangi í framleiðslu lífrænna afurða.
    Við meðferð málsins barst nefndinni beiðni um að breytt yrði ákvæði 20. gr. laganna um verðskerðingargjald af nautgripakjöti og það hækkað úr 400 kr. í 800 kr. Beiðni þessi á rætur að rekja til Landssambands kúabænda, en verðskerðingargjaldið er notað til ýmissa markaðsaðgerða á vegum samtakanna. Þar sem hér er um að ræða beiðni frá hagsmunasamtökum um innheimtu sérstaks gjalds sem gengur jafnt yfir alla félagsmenn telur meiri hluti nefndarinnar eðlilegt að gera breytingartillögu þessa efnis við frumvarpið.
    Breytingartillaga er einnig gerð við 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins, en vegna mistaka við gerð þess voru ákvæði um útflutningsuppgjör að hluta annars efnis en til var ætlast. Gerir meiri hluti nefndarinnar breytingartillögu til leiðréttingar á þessu.
    Þá er gerð breytingartillaga við 2. mgr. 40. gr. frumvarpsins. Hún er tvíþætt, annars vegar til leiðréttingar þar sem ekki kom skýrt fram að átt væri við jöfnunargreiðslur að hámarki 100 kr. á kíló á greiðslugrunn, eins og þó er gert ráð fyrir í samningnum. Hins vegar er gerð breytingartillaga þess efnis að ásetningur líflamba hjá þeim bændum sem eru að koma upp bústofni eftir fjárleysi vegna niðurskurðar teljist til framleiðslu, þ.e. sá hluti ásetnings sem er umfram eðlilegt viðhald bústofnsins. Með því verða þeir bændur jafnsettir öðrum bændum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. maí 2000.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Drífa Hjartardóttir.



Jónína Bjartmarz.


Guðjón Guðmundsson.


Einar Oddur Kristjánsson.