Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1182  —  553. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá Guðjóni A. Kristjánssyni.


    Við 6. gr.
     a.      2. efnismgr. orðist svo:
             Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla með eftirtöldum skilyrðum: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli.
     b.      1. málsl. 4. efnismgr. orðist svo: Ríkissjóði er heimilt að kaupa upp 45.000 ærgildi greiðslumarks í sauðfé.

Greinargerð.


    Flutningsmaður lítur svo á að gildistími samningsins sé í reynd sjö ára aðlögunartími fyrir bændur til þess að mæta að honum loknum mjög harðri samkeppni á matvörumarkaði. Svo virðist að helsta von sauðfjárbænda sé sú að fá hærra verð fyrir lífrænt ræktaðar og vottaðar framleiðsluvörur dilkakjöts í næstu framtíð. Hvetja þyrfti bændur, styðja þá og styrkja til þess að þróa búskap sinn að lífrænni ræktun sauðfjár. Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla með skilgreindan framleiðsluferil sem tekur mið af umhverfisvernd og beitarþoli landsvæða ætti að auðvelda bændum aðlögun að lífrænum búskaparháttum á næstu árum. Þess vegna leggur flutningsmaður til að frjálsa framsalið verði ekki innleitt í sauðfjárbúskapinn og í raun verði látið á það reyna hvort hægt sé að ná þeim markmiðum með lífrænni ræktun sem nauðsynleg er ef bændur eiga að fá viðunandi verð fyrir dilkakjöt í framtíðinni.
    Með því að innleiða frjálst framsal greiðslumarks er í raun verið að fara sömu leið og raskað hefur byggð með kvótabraski í sjávarútvegi, valdið þar miklum deilum og eignaupptöku á eigum fólks. Frjálslyndi flokkurinn hafnar slíku fyrirkomulagi sem stuðla mun að enn meira strjálbýli í sveitum landsins og hraða flutningi fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Afar vanhugsað er að efna til frjáls framsals án þess að gefa sauðfjárbændum kost á að nýtasér það aðlögunarferli sem samningur til sjö ára gefur þeim kost á. Lágmarkskrafa væri að meta áhrif samningsins að 4–5 árum liðnum áður en slík aðferð sem frjáls sala greiðslumarksins er verður sett af stað til byggðaröskunar í sveitum landsins.