Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1200  —  502. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Stefán Skjaldarson og Benedikt Ásgeirsson frá utanríkisráðuneyti.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Fríhöfninni, Íslenskum markaði, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Keflavíkurflugvelli, sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, flugvallarstjóranum á Keflavíkurflugvelli, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Flugleiðum, flugráði og Flugmálastjórn. Þá lagði utanríkisráðuneytið fram ýmis gögn.
    Í frumvarpinu er lagt til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stofnun hlutafélags um rekstur flugstöðvarinnar er ætlað að stuðla að því að tekjur flugstöðvarinnar standi undir fjárfestingum hennar og rekstri. Talið er að hlutafélag hafi meiri möguleika en ríkisstofnun á að laga sig að breyttum aðstæðum, enda býður rekstrarformið upp á meiri sveigjanleika en við verður komið í hefðbundnum ríkisrekstri. Til að styrkja fjárhagslegan grundvöll þeirrar uppbyggingar á aðstöðu til farþegaflugs sem nú fer fram á Keflavíkurflugvelli hefur verið ákveðið að fella rekstur Fríhafnarinnar undir starfsemi flugstöðvarinnar. Hlutafélaginu er síðan ætlað að yfirtaka starfsemi flugstöðvarinnar eins og hún verður eftir þá breytingu.
    Við skoðun á umsögnum sem nefndinni bárust ræddu nefndarmenn sérstaklega ákvæði 14. gr. Þar er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra sé heimilt að útfæra nánar ákvæði greinarinnar í reglugerð en í ákvæðinu segir að hlutafélaginu beri í allri starfsemi sinni að virða og standa við þær skuldbindingar á starfssviði og starfssvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem íslenska ríkið undirgengst og varða flugstöðina og starfsemina sem félagið yfirtekur. Jafnframt er tekið fram að félaginu sé skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda, sem og öðrum fyrirmælum er varða flugstöðina. Meiri hlutinn telur rétt að kveða á um eftirlitsskyldu stjórnvalda og að utanríkisráðherra verði skylt að setja reglugerð um ákvæði greinarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 11. gr.
     2.      Lagðar eru til þær breytingar á 14. gr. að annars vegar verði kveðið á um eftirlitsskyldu stjórnvalda og hins vegar að utanríkisráðherra verði gert skylt að setja reglugerð um ákvæði greinarinnar, sbr. framangreint.



Alþingi, 4. maí 2000.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Árni R. Árnason.



Kristján Pálsson.


Jónína Bjartmarz.