Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1207  —  570. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um bílaleigur.

Frá samgöngunefnd.     1.      Við 1. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin taka þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.
     2.      Við 2. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Bílaleiga er starfsemi sem rekin er í atvinnuskyni þar sem almenningi eða fyrirtækjum er boðið til leigu skráningarskylt ökutæki um skemmri tíma, að jafnaði ekki lengri en þriggja vikna.
     3.      Við 3. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                  a.      Á eftir orðunum „fimm ára í senn“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: að fenginni umsögn lögreglustjóra í því umdæmi sem bílaleiga mun hafa fasta starfsstöð.
                  b.      Á eftir orðinu „lögum þessum“ í 2. mgr. komi: og birta hana með aðgengilegum hætti.
                  c.      3. mgr. orðist svo:
                     Þeim einum er heimilt að hafa orðið bílaleiga í nafni starfsemi sinnar sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.
                  d.      Á eftir orðunum „rekin á fastri starfsstöð“ í 1. málsl. 4. mgr. komi: sem opin skal almenningi.
                  e.      Á eftir orðunum „starfsábyrgðartryggingu sinni“ í síðari málsl. 5. mgr. komi: skv. 4. gr.
     4.      Við 4. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                  a.      Í stað orðanna „Að hafa“ í 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. komi: Hafa.
                  b.      Í stað orðanna „Að vera“ í 3. tölul. 1. mgr. komi: Vera.
                  c.      Í stað orðanna „né lögum um sölu notaðra ökutækja“ í 3. tölul. 1. mgr. komi: lögum um sölu notaðra ökutækja, né lögum þessum.
                  d.      Í stað orðsins „viðskiptamönnum“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: leigutökum.
                  e.      Í stað orðanna „með rekstri bílaleigu“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: vegna vanefndar á leigusamningi.
                  f.      2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Þó er stjórnarmaður sem er ríkisborgari í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og búsettur í einhverju ríkja þess undanþeginn búsetuskilyrðum 1. tölul. 1. mgr.
     5.      Við 5. gr. Eftirfarandi breytingar verði á greininni:
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Skylt er að leyfisbréf til starfseminnar liggi frammi á starfsstöð og afrit þess í útibúum.
                  b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Bílaleiga skal bjóða upp á bifreiðar til útleigu jafnt til almennings sem fyrirtækja. Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að bifreiðar bílaleigna skuli merktar sérstaklega.
     6.      Við 6. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                  a.      Í stað orðanna „endanlega sé gengið“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: gengið sé.
                  b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samgönguráðherra getur með reglugerð birt form leigusamnings og kveðið á um skyldu bílaleigna til að nota það.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                        Varðveita skal leigusamning í a.m.k. eitt ár frá undirritun hans.
     7.      Við 8. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                  a.      Greinin orðist svo:
                     Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um leigustarfsemina og framkvæmd laganna að öðru leyti.
                  b.      Á greinina komi svohljóðandi fyrirsögn: Reglugerð.
     8.      Við 9. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                  a.      Við bætist ný málsgrein er verði 2. mgr., svohljóðandi:
                     Samgönguráðherra afturkallar starfsleyfi bílaleigu ef umsækjandi hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar til að fá leyfið eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laga þessara.
                  b.      Í stað orðsins „leyfis“ í 2. mgr., er verði 3. mgr., komi: slíks leyfis.
                  c.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Refsiákvæði o.fl.
     9.      Við 10. gr. Greinin verði svohljóðandi:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 70. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987.