Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1231  —  548. mál.Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert J. Hilmarsson frá fjármálaráðuneyti og Sigurjón Högnason frá ríkisskattstjóra. Umsagnir um málið bárust frá Verslunarráði Íslands, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um skattskyldu mötuneyta í eigu ríkis og sveitarfélaga sem selja starfsfólki mat á verði undir framleiðslukostnaði. Þá er lagt til að við uppgjör virðisaukaskatts verði heimilað að taka tillit til rafræns afsláttar sem veittur er í verslunum þegar greitt er með kreditkorti. Lagt er til að frádráttarheimild vegna bifreiða til fólksflutninga sem notaðar eru í virðisaukaskattsskyldum rekstri verði þrengd. Einnig að fjármálaráðherra geti sett reglur um rafræn skil á virðisaukaskatti. Þá er lagt til að dregið verði úr því misræmi sem er komið upp vegna þess að verslanir eru í auknum mæli farnar að selja tilbúinn mat sem fellur í 14% skattþrep í samkeppni við veitingahús sem selja mat og aðrar veitingar í 24,5% skattþrepi. Loks er lagt til að rekstrarleyfishöfum í fólksflutningum verði greiddur hluti virðisaukaskatts sem eftir stendur af verðmæti hópbifreiða sem seldar eru úr landi.
    Nefndin tók sérstaklega til skoðunar refsiákvæði laganna, sem að mati nefndarinnar eru óeðlilega ströng. Leggur nefndin áherslu á að þau verði tekin til heildarendurskoðunar ásamt öðrum refsiákvæðum skattalaga.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er lagt til að mynt sem Seðlabanki Íslands gefur út af sérstöku tilefni skuli vera undanþegin virðisaukaskatti. Er sú breyting lögð til í framhaldi af ákvörðun nefndarinnar um að flytja frumvarp um heimild Seðlabankans til að gefa út slíka mynt og selja hana með álagi á ákvæðisverði. Hins vegar er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins. Er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí nk., að undanskilinni 1. gr. sem öðlist þegar gildi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 8. maí 2000.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.