Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1240, 125. löggjafarþing 558. mál: staðfest samvist (búsetuskilyrði o.fl.).
Lög nr. 52 17. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87 12. júní 1996.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Staðfesting samvistar getur aðeins farið fram ef:
    1. báðir einstaklingarnir eða annar þeirra er íslenskur ríkisborgari sem hefur fasta búsetu hér á landi, eða
    2. báðir einstaklingarnir hafa haft fasta búsetu hér á landi síðustu tvö árin fyrir staðfestingu samvistar þeirra.

  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Ríkisborgararéttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt skv. a-lið 2. mgr. Dómsmálaráðherra getur ákveðið í reglugerð að ríkisborgararéttur í öðru landi þar sem í gildi eru lög um staðfesta samvist, sem eru hliðstæð lögum þessum, verði einnig lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt.


2. gr.

     Í stað 1. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón gilda ekki um staðfesta samvist. Þó getur einstaklingur í staðfestri samvist ættleitt barn hins sem hann hefur forsjá fyrir, nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Lög um tæknifrjóvgun gilda heldur ekki um staðfesta samvist.
     Lagaákvæði sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gilda ekki um staðfesta samvist.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2000.