Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1249  —  485. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um brunavarnir.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá umhverfisráðuneyti Magnús Jóhannesson og Sigríði Auði Arnardóttur, frá Brunamálastofnun Bergstein Gizurarson og Guðmund P. Bergsson, frá Slökkviliði Reykjavíkur Hrólf Jónsson, frá Kópavogsbæ Gísla Nordal byggingarfulltrúa, frá mengunardeild Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar Tryggva Þórðarson, frá Eldvarnaeftirliti Bjarna Kjartansson, frá Slökkviliði Hafnarfjarðarbæjar Helga Ívarsson, frá Brunavörnum Árnessýslu Kristján Einarsson og frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna Guðmund Vigni Óskarsson.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Brunavörnum Húnaþings vestra, Brunavörnum Austur- Húnavatnssýslu, Siglingastofnun Íslands, Slökkviliði Mývatns, Slökkviliði Skaftárhrepps, Slökkviliði Dalvíkur, Slökkviliði Fjarðabyggðar, Brunavörnum Austur-Skaftafellssýslu, Brunavörnum á Héraði, Slökkviliði Fáskrúðsfjarðar, Slökkviliði Stykkishólms, Samtökum iðnaðarins, Brunavarnafélagi Öxarfjarðarhéraðs, Brunavörnum Borgarness og nágrennis, Brunamálastofnun ríkisins, Slökkviliði Keflavíkurflugvallar, Slökkviliði Grindavíkur, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Slökkviliði Drangsness, Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi, Brunavörnum Suðurnesja, Skipulagsstofnun, Hollustuvernd ríkisins, Flugmálastjórn, Slökkviliði Akureyrar, Brunamálaskólanum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Slökkviliði Vopnafjarðar, Almannavörnum ríkisins, byggingarfulltrúanum í Reykjavík, brunamálastjóra og Hrólfi Jónssyni slökkviliðsstjóra.
    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem umhverfisráðherra skipaði í lok desember 1998 til að endurskoða gildandi lög um brunavarnir og brunamál. Var henni m.a. sérstaklega falið að fjalla um skipulag brunavarna og brunamála í héraði, ábyrgð sveitarfélaga á málaflokknum, starfsemi Brunamálastofnunar Íslands og hlutverk hennar innan stjórnkerfisins og um málefni Brunamálaskólans.
    Meðal helstu nýmæla sem lögð eru til í frumvarpinu er að hlutverk Brunamálastofnunar og sveitarfélaga á sviði bruna- og mengunarvarna er skýrt, lögð er áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu á sviði eldvarnaeftirlits og í starfsemi slökkviliða og jafnframt er ákvæði um brunavarnaáætlanir og Brunamálaskólann sett í lög.
    Við umfjöllun málsins komu fram athugasemdir frá ýmsum aðilum við að ekki væru ákvæði um farskóla Brunamálastofnunar í frumvarpinu. Farskólinn starfar þannig að hann heimsækir öll slökkvilið landsins reglulega og er hlutverk hans að þjálfa slökkviliðsmenn í reykköfun og slökkviliðsstörfum og gera úttekt á getu slökkviliðsmanna og tækjum slökkviliðanna. Nefndin tekur fram að hún lítur svo á að með ákvæðum frumvarpsins sé ekki verið að breyta þessu mikilvæga hlutverki farskólans. Leggur hún áherslu á að því verði áfram sinnt með óbreyttu sniði.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Nefndin leggur til að í stað orðanna „sérstakur slökkvibúnaður“ í 2. mgr. 11. gr. komi: fyrir sérstakan slökkvibúnað. Er þetta lagt til svo að ljóst sé að það er ekki hlutverk sveitarfélaganna að sjá til þess að sérstakur slökkvibúnaður sé fyrir hendi þar sem hans er krafist, heldur að sjá til þess að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir slökkvibúnað.
     2.      Lagðar eru til breytingar á c-lið 1. mgr. 12. gr. Leggur nefndin til að fræðsluhlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga takmarkist við að leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum eftir atvikum um hvaðeina er varðar brunavarnir og eldsvoða vegna viðkomandi starfsemi. Leggur nefndin til að fræðsluhlutverk eldvarnaeftirlits nái ekki til almennings enda sinni Brunamálastofnun almennu fræðsluhlutverki skv. c-lið 5. gr. frumvarpsins.
     3.      Nefndin leggur til breytingu á 13. gr. Leggur nefndin til að í stað þess að Brunamálastofnun samþykki brunavarnaáætlun sem slökkviliðsstjóri vinnur skv. 5. mgr. 16. gr. veiti hún umsögn um hana og sveitarstjórn samþykki hana.
     4.      Í 2. mgr. 15. gr. er fjallað um hæfisskilyrði sem þarf að uppfylla til að geta gegnt starfi slökkviliðsstjóra. Að mati nefndarinnar eru hæfisskilyrðin of þröng og leggur hún til breytingu sem felur í sér að einstaklingar með háskólamenntun með sérmenntun í brunamálum geti sótt um starf slökkviliðsstjóra.
     5.      Nokkuð var gagnrýnt að skv. 1. mgr. 16. gr. skuli slökkviliðsstjóri hafa eftirlit með virkni brunahana í umdæmi sínu en brunahanar eru í eigu viðkomandi vatnsveitna sem eru í flestum tilvikum sveitarfélögin. Leggur nefndin til að eftirlit með virkni brunahana verði í samráði við rekstraraðila viðkomandi vatnsveitu. Nefndin leggur einnig til að bætt verði inn í 3. mgr. að mengunaróhöpp skuli tilkynna án tafar til heilbrigðiseftirlits. Mikilvægt getur verið að bregðast hratt við slíkum óhöppum og því telur nefndin rétt að skerpa aðeins á orðalagi málsgreinarinnar. Þá leggur nefndin til að tekið verði fram í 4. mgr. að slökkviliðsstjóri skuli sjá um fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna í brunavörnum og viðbrögðum við mengunaróhöppum. Þar að auki eru lagðar til orðalagsbreytingar til að ekki fari milli mála að hlutverki hans á því sviði sé ekki ætlað að vera víðtækara.
     6.      Lögð er til breyting á 1. mgr. 17. gr. Við umfjöllun málsins var bent á að aðeins hluti slökkviliðsmanna á landsbyggðinni hefði það starf að aðalstarfi og í nokkrum tilvikum er slökkviliðsstjóri í hlutastarfi. Var nokkuð gagnrýnt að slökkviliðsmenn í hlutastarfi gætu ekki fengið löggildingu til starfa samkvæmt greininni. Að mati nefndarinnar er rétt að koma til móts við þessi sjónarmið og leggur nefndin til að slökkviliðsmenn sem starfað hafa við slökkvilið í hlutastarfi að lágmarki í fjögur ár og uppfylla skilyrði skv. 1. málsl. 1. mgr. geti sótt um og fengið löggildingu. Lítur nefndin svo á að hlutastarf slökkviliðsmanna taki m.a. til lögbundinnar æfingaskyldu í slökkviliði, sbr. 19. gr. frumvarpsins.
     7.      Þá leggur nefndin til að nýrri málsgrein verði bætt við 33. gr. Fram komu athugasemdir við að ekki væri gert ráð fyrir að valdmörk milli slökkviliðsstjóra og Brunamálastofnunar væru jafnskýr í frumvarpinu og þau eru í 1. mgr. 27. gr. gildandi laga. Þar er gert ráð fyrir að Brunamálastofnun geti, ef hún telur að ákvæði laganna séu brotin og slökkviliðsstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta samkvæmt lögunum, bent slökkviliðsstjóra á misbrestina og, ef ekki er bætt úr, hefur stofnunin rétt til að beita þeim heimildum sem slökkviliðsstjórum eru veittar með lögunum. Nefndin leggur til að þetta úrræði verði áfram í lögunum en leggur áherslu á að því verð beitt með varúð og að Brunamálastofnun grípi ekki inn í nema viðkomandi slökkviliðsstjóri sé augljóslega að vanrækja skyldur sínar.
     8.      Nefndin leggur einnig til breytingar á 34. gr. þar sem fjallað er um refsingar samkvæmt lögunum. Leggur hún til að brot gegn lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varði sektum en séu sakir miklar varði brot fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að ákvæði almennra hegningarlaga gildi að öðru leyti um brotin. Jafnframt leggur nefndin til að sé brot framið í starfsemi lögaðila megi gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Í 2. mgr. 34. gr. er lagt til að lögð sé hlutlæg ábyrgð á lögaðila en að mati nefndarinnar er það of íþyngjandi. Leggur hún því til að lögaðili beri aðeins ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögunum enda séu brot hans framin í starfi hans hjá lögaðilanum.
     9.      Nefndin leggur til að ný málsgrein bætist við 36. gr. þar sem fram komi að ef aðili vill kæra ákvörðun skv. VIII. kafla skal það gert innan mánaðar frá því að ákvörðunin er tilkynnt. Með hliðsjón af því að um er að ræða mál sem geta varðað líf og heilsu manna leggur nefndin til að settur verði tímafrestur á heimild til að kæra ákvörðun skv. VIII. kafla. Nefndin vill þó taka fram að kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
     10.      Nefndin telur mikilvægt að góð sátt verði um framkvæmd laganna. Þar sem sveitarfélögum er að stórum hluta falin ábyrgð á framkvæmd laganna telur hún eðlilegt að samráð verði haft við Samband íslenskra sveitarfélaga við setningu reglugerða sem varða skyldur sveitarfélaga og er breyting þess eðlis lögð til í 39. gr.
    Össur Skarphéðinsson og Ísólfur Gylfi Pálmason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. maí 2000.Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.Kolbrún Halldórsdóttir.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.Gunnar Birgisson.