Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1256  —  630. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 55 10. júní 1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Haraldsdóttur og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti og Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum sem gera ráðherra mögulegt að koma til móts við athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við þá framkvæmd hér á landi að heimila innflutning sjávarafurða frá frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð því hvort þau eru á skrám yfir viðurkennda framleiðendur, vinnsluskip og frystiskip. Auk Íslands hafa Noregur, Danmörk og Bretland heimilað innflutning sjávarafurða frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð viðurkenningu þeirra en rússnesk frystiskip flytja inn frosinn þorsk til framangreindra ríkja auk Íslands.
    Þar sem fyrir liggur að Eftirlitsstofnun EFTA íhugar formlega málsmeðferð á hendur Íslandi og vegna þess að nokkur óvissa ríkir um kröfur sem gerðar eru um viðurkenningu frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er æskilegt að unnt verði að breyta framkvæmdinni hér á landi þegar skylda Íslands í þessum efnum liggur skýrt fyrir og ljóst er að framkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu er samræmd.
    Nefndin leggur áherslu á að ráðherra nýti heimildir sem felast í frumvarpinu þannig að það skaði ekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins við kaup á frosnu hráefni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. maí 2000.Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Árni R. Árnason.Jóhann Ársælsson.


Svanfríður Jónasdóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.