Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1261  —  406. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Minni hlutinn er hlynntur því að í frumvarpinu séu veitingastaðir skilgreindir nánar og flokkaðir eftir þeirri starfsemi sem þar fer fram, svo sem í matsölustaði, kaffihús og dansstaði, þótt vandséð sé hvernig hægt verður að fylgja eftir slíkri flokkun. Minni hlutinn styður þess vegna þær breytingar sem settar eru fram í 1. og 2. gr. frumvarpsins að undanskildu því sem fram kemur í d-lið 2. gr. þar sem skilgreind er starfsemi næturklúbba. Með þeim lið er ekki annað séð en verið sé að festa í íslensk lög heimild til nektardanssýninga í atvinnuskyni.
    Undanfarin ár hefur verið mikil umræða hérlendis um starfsemi svonefndra nektardansstaða sem skotið hafa upp kollinum bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mikilvægt er að takmarka eða koma í veg fyrir starfrækslu slíkra staða enda þykir líklegt að á þeim eða í tengslum við þá sé stundað vændi í einhverjum mæli, vísbendingar eru um að mannréttindi kvenna sem komið hafa til að starfa á slíkum stöðum séu brotin og að einhverjar þeirra komi hingað til lands á fölsuðum vegabréfum. Einnig skal vakin athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem ákvæði er um að refsivert sé að gera sér nekt annarra að féþúfu.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er það samið í kjölfar starfs viðræðunefndar sem komið var á fót vorið 1999 og var ætlað að sporna við starfsemi svonefndra „erótískra“ veitingastaða. Með því ákvæði sem hér er hafnað er ekki verið að sporna við neinu heldur er þvert á móti á vissan hátt verið að lögleiða þá afar umdeildu atvinnustarfsemi sem fram fer á slíkum stöðum.
    Minni hlutinn hafnar því að sett séu í íslensk lög ákvæði um að nota megi nekt í atvinnuskyni.

Alþingi, 9. maí 2000.



Jón Bjarnason.