Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1263  —  502. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Ljóst er að skuldastaða Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar getur breyst verulega frá því sem áætlað er vegna umfangsmikilla byggingaframkvæmda og endurbóta sem standa yfir og fyrirhugaðar eru á næstu árum. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði hátt á fjórða milljarð króna og er þá aðeins um að ræða fyrsta áfanga framkvæmdanna. Svipaður kostnaður er áætlaður vegna framkvæmda næstu ára. Stofnframkvæmdir við flugstöðina árið 1987 fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum og nam umframkostnaður a.m.k. 1 milljarði kr. Hlutafélag það sem frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnað verði um rekstur flugstöðvarinnar á að taka við öllum skuldbindingum vegna hennar, fyrirliggjandi skuldbindingum, hátt í 5 milljarða kr., og þeim sem gerðar verða við yfirstandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir.
    Annar minni hluti telur eðlilegt að ákvarðanir um rekstrarform Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verði látnar bíða þess að endanlegur kostnaður við fyrsta áfanga framkvæmdanna liggi fyrir. Nauðsynlegt er að ljóst sé strax í upphafi hver fjárhagsleg umgjörð hugsanlegs hlutafélags verði og um leið möguleikar þess til að standa skil á áhvílandi skuldbindingum. Of margt er óljóst í þeim efnum og einnig hvað varðar stöðu starfsfólks eftir áformaða hlutafélagavæðingu flugstöðvarinnar.
    Í ljósi þessa munu fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Alþingi, 8. maí 2000.



Margrét Frímannsdóttir,


frsm.


Jóhann Ársælsson.