Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1306  —  535. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um sjúklingatryggingu.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilborgu Þ. Hauksdóttur, Guðríði Þorsteinsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Unu Björk Ómarsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Umsagnir bárust um málið frá Félagi íslenskra landsbyggðarlækna, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Lögmannafélagi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Kírópraktorafélagi Íslands,Umhyggju, Landssambandi sjúkrahúsa á Íslandi, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Krabbameinsfélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Krafti – stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að færa íslenskar reglur um sjúklingatryggingu nær reglum annarra norrænna ríkja um slíkt efni og auka þannig bótarétt sjúklinga sem bíða heilsutjón af áföllum við læknismeðferð o.fl. Tilgangur fyrirhugaðra breytinga er að tryggja tjónþola víðtækari rétt en hann á samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að auðvelda honum að ná fram rétti sínum. Skaðabótareglur veita ekki nærri alltaf bótarétt vegna heilsutjóns sem hlýst af læknisaðgerð eða annarri meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Í frumvarpinu er lagt til að fetað verði í fótspor Svía og Finna og látnar gilda um alla heilbrigðisþjónustu. Þetta þýðir að ef frumvarpið verður að lögum öðlast þeir bótarétt sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni sem hlotið hefur löggildingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Einnig öðlast þeir sjúklingar bótarétt sem vistast á erlendu sjúkrahúsi á vegum Tryggingastofnunar ríkisins vegna svokallaðra siglinganefndarmála að frádregnum bótum sem þeir kunna að eiga rétt á í hinu erlenda ríki. Talið er að sjúklingatrygging verði að ná til fleiri tjónsatvika en þeirra sem leiða til bótaskyldu eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Þá er jafnframt ljóst að yfirleitt er ástæðulaust að trygging af þessu tagi greiði bætur fyrir tjón sem er óhjákvæmileg afleiðing sjúkdómsins sem átti að lækna og meðferðar við honum.
    Fram kom í umræðum í nefndinni að þeir sem stunda lyfsölu, þ.e. þeir sem eiga eða reka apótek, beri ábyrgð samkvæmt lögum um skaðsemisábyrgð á sölu og dreifingu lyfja samkvæmt lyfseðli. Litið er svo á að afhending lyfs samkvæmt lyfseðli sé ekki liður í rannsókn og meðferð sjúklings skv. 1. gr. frumvarpsins. Afhending lyfs samkvæmt lyfseðli fellur því utan gildissviðs frumvarpsins. Þetta gildir einnig um lyfsölu á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að 2. mgr. 2. gr. sem fjallar um nánar tilgreindar reglugerðarheimildir ráðherra falli brott þar sem ákvæðið þykir óþarft. Þessar heimildir eiga sér fyrirmynd í dönskum lögum um sjúklingatryggingu sem tóku gildi 1. júlí 1992. Ekki hafa verið settar reglugerðir á grundvelli þessara heimilda í Danmörku. Danska heilbrigðisráðuneytið gaf út leiðbeiningar vegna laganna 25. júní 1992. Í þeim eru skýringar á því hvernig m.a. beri að túlka ákvæði 2. gr. laganna sem er sambærileg við 2. gr. frumvarpsins. Í ljósi þessarar reynslu í Danmörku er því lögð til framangreind breyting.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 5. gr. Annars vegar er lagt til að orðið „lánskjaravísitala“ komi í stað orðsins „neysluverðsvísitala“ í 3. málsl. 2. mgr. Fjárhæðir samkvæmt skaðabótalögum fylgja lánskjaravísitölu og því er framangreind tillaga gerð. Hins vegar er lagt til að 4. málsl. 2. mgr. falli brott. Með því að heimildir til takmarkana sem í þessu felast falla brott er ætlunin að tryggt sé að þeir sem ekki eiga rétt til launa samkvæmt kjarasamningi njóti bóta fyrir tímabundna örorku frá upphafi tekjutaps sökum óvinnufærni. Þegar tjónþoli nýtur launa samkvæmt kjarasamningi eru þau dregin frá bótum samkvæmt skaðabótalögum.
     3.      Lögð er til breyting á 2. málsl. 11. gr. til skýringar. Rétt þótti að taka sérstaklega fram að undanþága frá vátryggingaskyldu skv. 10. gr. á aðeins við um þá sjúkraflutninga sem ríkið annast.
     4.      Lögð er til breyting á 12. og 15. gr. til samræmis við orðnotkun í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
     5.      Lögð er til sú breyting á 14. gr. að ráðherra skuli setja reglugerð um málsmeðferð sem og starfsemi sjúklingatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins.
     6.      Lögð er til orðalagsbreyting á 17. gr.
     7.      Þá er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein sem kveður á um upplýsingaskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í tilefni laganna. Nefndin leggur áherslu á að staðið verði vel að slíkum kynningarmálum.
     8.      Að lokum er lagt til að við 21. gr. bætist nýr málsliður sem kveður á um endurskoðun á lögum þessum innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Ákvæðið þykir nauðsynlegt þar sem um nýja sérhæfða löggjöf er að ræða.

Alþingi, 9. maí 2000.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Tómas Ingi Olrich.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Ásta Möller.


Jón Kristjánsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Þuríður Backman.


Bryndís Hlöðversdóttir.