Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1324, 125. löggjafarþing 526. mál: vátryggingastarfsemi (EES-reglur).
Lög nr. 97 22. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir skilgreiningu á félagasamstæðu í 7. gr. laganna kemur ný orðskýring, svohljóðandi:

        —    hlutdeildarfélag, félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhlut í og hafa veruleg áhrif á, en félag er talið hafa veruleg áhrif ef það og dótturfélög þess fara með 20% eða meira af atkvæðum í hlutdeildarfélaginu.


2. gr.

     Við 29. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Aðlagað gjaldþol vátryggingafélags sem á annað vátryggingafélag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi er gjaldþol þess skv. 1. mgr. að frádregnum fjárhæðum sem verða til við að sömu eignir séu taldar beint eða óbeint hjá fleiri en einum aðila, svo og öllum eignum sem verða til við gagnkvæma fjármögnun. Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga. Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum krafist eða heimilað að önnur aðferð sé notuð við útreikning aðlagaðs gjaldþols.
     Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags eða félags þar sem meginstarfsemin er eignarhald á vátryggingafélagi skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélagsins samkvæmt ákvæðum þessarar greinar auk útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélagsins. Við útreikninginn skal taka tillit til allra hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.
     Nánar skal kveða á um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli í reglugerð. Þar má einnig tilgreina undanþágur frá skyldu til að reikna aðlagað gjaldþol. Taki útreikningurinn til fyrirtækja í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.

3. gr.

     Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sé aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða móðurfélags þess minna en lágmarksgjaldþol skv. 30., 31. og 33. gr. að viðbættri hlutdeild í lágmarksgjaldþoli allra hlutdeildar- og dótturfélaga sem eru vátryggingafélög skal vátryggingafélagið þegar í stað gera áætlun um hvenær og hvernig markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort hún telst fullnægjandi. Lágmarksgjaldþol hlutdeildar- og dótturfélaga skal reiknað samkvæmt nefndum ákvæðum, jafnvel þótt aðrar reglur gildi í heimaríki þeirra.

4. gr.

     Við 1. mgr. 43. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stjórnin ber ásamt framkvæmdastjóra ábyrgð á því að skipulag félagsins og innra eftirlit sé fullnægjandi og á því að félagið geti lagt fram upplýsingar sem þörf er á til eftirlits með því. Fjármálaeftirlitið getur sett almennar reglur um fyrirkomulag innra eftirlits í vátryggingafélögum.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Fjármálaeftirlitið skal a.m.k. árlega kanna gjaldþol og greiðsluþol vátryggingafélaga á grundvelli ársreiknings fyrir næstliðið reikningsár og annarra nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemina. Einnig skal kanna aðlagað gjaldþol vátryggingafélaga og móðurfélaga þeirra ef við á. Fjármálaeftirlitið getur snúið sér til dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélags, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu, svo og til dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga, til að afla nauðsynlegra gagna hafi vátryggingafélagið sjálft ekki staðið Fjármálaeftirlitinu skil á þeim. Viðkomandi fyrirtæki skal þegar verða við beiðni um slík gögn. Einu gildir hvort eignaraðild er bein eða óbein. Gögnin má sannreyna með athugun á staðnum, hjá vátryggingafélaginu sjálfu eða öðrum félögum í sömu félagasamstæðu. Fjármálaeftirlitið metur síðan hvort skilyrði 29.–33. gr., eftir því sem við á, séu uppfyllt. Hafi Fjármálaeftirlitið athugasemdir fram að færa skal það tilkynnt félaginu. Sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þessa eiga ákvæði XI. kafla við.
  3. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Fjármálaeftirlitið fylgist með viðskiptum vátryggingafélags við dóttur- og hlutdeildarfélög þess, félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og við önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með viðskiptum vátryggingafélags við einstaklinga sem eiga 20% hlut eða stærri í framangreindum félögum. Sérstaklega skal fylgjast með lánum, ábyrgðum og liðum utan efnahagsreiknings, efnahagsliðum sem myndað geta hluta af gjaldþoli, fjárfestingum, endurtryggingaviðskiptum og samningum um kostnaðarskiptingu.
         Árlega skulu vátryggingafélög skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um slík viðskipti eftir nánari ákvörðun þess. Séu viðskiptin við fyrirtæki eða einstaklinga í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Greinar frumvarpsins sem varða aðlagað gjaldþol koma þó fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsársins 2001.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.