Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1353  —  564. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996, o.fl.

(Eftir 2. umr., 10. maí.)


Breytingar á upplýsingalögum, nr. 50/1996.
1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna hljóðar svo:
    Lögin gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Lögin gilda heldur ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. laga þessara tekur til. Þá gilda lögin heldur ekki ef á annan veg er mælt í þjóðréttarsamningum sem Ísland á aðild að.

2. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og hljóðar svo:
    Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem fram kemur í gögnum er nefndinni eru látin í té. Sama gildir um þá sem hún kann að kveðja sér til aðstoðar.

3. gr.

    Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður síðari málsliður þeirrar málsgreinar og hljóðar svo: Stjórnvaldi er skylt að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum er kæra lýtur að.

4. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Við greinina bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og hljóðar svo:
                  Úrskurður samkvæmt lögum þessum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Birting og aðfararhæfi úrskurðar.

5. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
                  Skal frestun á réttaráhrifum bundin því skilyrði að stjórnvald beri málið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað.

Breyting á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
6. gr.

    Orðin „þar á meðal ef lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga standa í vegi fyrir aðgangi að gögnunum“ í 17. gr. laganna falla brott.

Gildistaka.
7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 1. gr. laganna ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2001.