Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1381  —  488. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í áliti meiri hluta nefndarinnar er í aðalatriðum lagt til að gerðar verði tvenns konar breytingar á samrunaákvæði 10. gr. frumvarpsins. Annars vegar að tekin verði upp tilkynningarskylda á samruna og hins vegar að tilteknir samrunar verði teknir undan gildissviði ákvæðisins. Minni hlutinn telur til bóta að taka upp tilkynningarskyldu á samruna og getur stutt þá breytingu. Hins vegar er að mati minni hlutans með öllu ástæðulaust að þrengja gildissvið samrunareglna frumvarpsins. Samkvæmt þeirri tillögu meiri hlutans fellur utan ákvæðisins samruni þar sem viðkomandi fyrirtæki hafa sameiginlega minna en 1 milljarð kr. í veltu og samruni sem uppfyllir ekki það skilyrði að tveir aðilar hans hafi hvor um sig 50 millj. kr. í veltu.
    Minni hlutinn telur þó jákvætt að ákvæðið er orðað þannig að komið er í veg fyrir svonefnda „leppun“. Þannig geta fyrirtæki ekki stofnað nýjar lögpersónur til að komast fram hjá samrunareglum. Eins og ákvæðið ber með sér verður við mat á því hvort 1 milljarðs kr. markinu er náð að telja með veltu móður- og dótturfyrirtækja og annarra tengdra fyrirtækja. Á hinn bóginn er ekkert að finna um það í nefndaráliti meiri hlutans hvort sama eigi við um fyrirtæki sem ekki ná 50 millj. kr. veltu. Ef hugmyndin að baki breytingartillögu meiri hlutans er sú að mögulegt verði fyrir fyrirtæki að skipta sér upp áður en til samruna kemur er ljóst að verið er að brjóta samrunaákvæði frumvarpsins á bak aftur.
    Á sama hátt vakna spurningar um áhrif breytinganna, sem meiri hlutinn leggur til á 10. gr. frumvarpsins, á 4. gr. frumvarpsins um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Viðurkennt hefur verið að fyrirtæki getur misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að kaupa upp fyrirtæki sem eru í samkeppni við það. Því vaknar sú spurning hvort með tillögu meiri hlutans sé verið að koma því til leiðar að slík uppkaup á samkeppni séu undanþegin ákvæðum samkeppnislaga ef velta fyrirtækisins nær ekki 50 millj. kr.
    Í ljósi smæðar hins íslenska markaðar, landfræðilegrar einangrunar hans og þeirrar fákeppni sem víða ríkir er að mati minni hlutans óásættanlegt að veikja samrunareglurnar að þessu leyti. Sérstaða hins íslenska markaðar að þessu leyti kallar á sterkar en ekki veikar samkeppnisreglur. Ljóst er að mati minni hlutans að samruni sem ekki fellur undir gildissvið ákvæðisins getur haft alvarleg áhrif á samkeppni, t.d. á einangruðum mörkuðum á landsbyggðinni. Jafnframt getur það haft óheppileg áhrif á þróun samkeppni á ýmsum nýjum mörkuðum, t.d. á sviði upplýsingatækni, ef samruni stærri fyrirtækis við fyrirtæki sem enn hefur ekki náð 50 millj. kr. veltu fellur utan ákvæðisins. Þegar á heildina er litið getur minni hlutinn því ekki stutt breytingartillögu meiri hlutans við 10. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 10. maí 2000.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.