Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1408  —  652. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Þingmenn Samfylkingarinnar eru því hlynntir að unnið verði að því að afnema skattfrelsi forseta Íslands og maka hans, enda hafa þingmenn hennar bæði flutt og stutt frumvörp þar að lútandi.
    Hins vegar lýsir minni hlutinn vanþóknun sinni á því hvernig að þessu frumvarpi er staðið. Öll vinnubrögð og meðferð málsins einkennist af virðingarleysi við forsetaembættið. Harma ber að samskipti þjóðkjörins þjóðhöfðingja og Alþingis skuli dregin niður á þetta plan.
    Málið er keyrt fram af offorsi og þinginu ætlað að afgreiða frumvarpið gegnum þrjár umræður og meðferð í nefnd þingsins á einum og sama sólarhringnum. Það vekur vissulega upp spurningar af hverju frumvarpið er ekki fyrr fram komið — en það birtist þá fyrst í þinginu er ljóst mátti vera að núverandi forseti mundi gegna embættinu áfram næsta kjörtímabil.
    Frumvarpið er líka vanbúið til efnislegrar ákvörðunar því að ekkert liggur fyrir í greinargerð þess um hvað fyrir flutningsmönnum vakir varðandi kjör forseta eftir að skattfrelsi hefur verið afnumið. Misvísandi viðhorf gagnvart því komu fram hjá flutningsmönnum við 1. umræðu þar sem þeim bar ekki saman um hvernig þeir litu á framhald málsins. Fyrsti flutningsmaður, Pétur H. Blöndal, segir einnig í viðtali í dagblaðinu Degi í dag að hann reikni með því að hugsanlega verði forsætisráðherra hækkaður eitthvað í launum við þessa breytingu.
    Mikil óvissa er um hvaða áhrif þessi breyting kann að hafa á kjör forsetaembættisins, þ.m.t. lífeyrisrétt. Forsætisráðuneytið hefur einnig í skriflegri umsögn greint frá því að ekki sé ljóst hvaða breytingar þurfi að gera á fjárveitingu til embættis forseta Íslands verði frumvarpið samþykkt.
    Það sem þó skiptir mestu, og enginn treystir sér til að meta til fulls, eru áhrifin sem þessar breytingar geta haft á laun þeirra sem Kjaradómur eða kjaranefnd tekur ákvörðun fyrir. Má í því sambandi nefna að árið 1996 þegar sambærilegt mál var til umfjöllunar á Alþingi setti meiri hluti allsherjarnefndar, sem hafði málið til umfjöllunar, fram þá skoðun undir forustu núverandi dómsmálaráðherra og formanns fjárlaganefndar að breyting í þessa veru gæti leitt til hækkunar á launum annarra embættismanna og sett af stað keðjuverkun í kjaramálum opinberra starfsmanna.
    Þótt nefndin hefði þá haft marga mánuði til að fjalla um málið var talið nauðsynlegt að ríkisstjórnin kannaði áhrif slíkra lagabreytinga og undirbyggi lagafrumvarp ef raunhæft þætti. Engin slík vinna hefur farið fram. Samt gengur ríkisstjórnin fram undir forustu forsætisráðherra og gerir vanbúið þingmannamál að sínu og fær það nú meðferð í þinginu eins og um stjórnarfrumvarp væri að ræða.
    Þau rök að breyta verði kjörum forseta núna, annars líði önnur fjögur áður en hægt verði að breyta þeim, standast ekki. Sigurður Líndal lagaprófessor, sem kom á fund nefndarinnar, sagði að hægt væri að breyta kjörum forseta hvenær sem væri nema tilgangurinn væri að rýra þau.
    Formaður Kjaradóms, Garðar Garðarsson, sagði á fundi nefndarinnar að þessi breyting mundi skapa mikinn þrýsting á Kjaradóm og kjaranefnd varðandi hækkun launa embættismanna. Hann taldi brýnt að vanda mjög til breytingar sem þessarar. Þá kom fram sú skoðun að réttast væri að lögin um laun forseta Íslands yrðu endurskoðuð. Í lögunum yrðu laun og önnur kjör ákvörðuð og ákvörðun þeirra því færð frá Kjaradómi til Alþingis.
    Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur að með því móti væri sérstaða forsetaembættisins undirstrikuð og samanburður á launum forseta og launum ráðherra og æðstu embættismanna úr sögunni en Kjaradómi ber að gæta innbyrðis samræmis í ákvörðunum sínum sem getur leitt til þess að aðrir sem taka laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms hækki verulega.
    Fulltrúar launafólks hafa augljóslega verulegar áhyggjur af þessu máli og þeirri skyndiafgreiðslu sem hér stefnir í. Framkvæmdastjóri ASÍ spáir að þessi breyting muni koma sem högg á launakerfið. Þing Landssambands iðnverkafólks sem nú er haldið hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega hugmyndum um að afnema skattfríðindi forseta Íslands. Telur þingið að þær aðgerðir muni hafa í för með sér stórfellda hækkun launa æðstu embættismanna og auka þannig stórlega launabilið í landinu, enda virðist það eini tilgangurinn með breytingunni.
    Leiðarahöfundur talar í dag um pukurslegt næturbrölt í þessu máli og virðist það ætla að halda áfram með því að málið verði afgreitt í skjóli nætur.
    Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á þessum vinnubrögðum, sem eru fordæmalaus í samskiptum þjóðkjörins þjóðhöfðingja og þjóðþingsins, á hendur ríkisstjórninni, sem undir forustu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra hefur gert þetta mál að forgangsmáli undir lok þinghaldsins.

Alþingi, 13. maí 2000.Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.