Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:41:19 (4389)

2001-02-08 16:41:19# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það er slæmt þegar ráðgjöfin bregst --- ég hygg að hún hafi brugðist að einhverju leyti --- og leyfðar eru meiri veiðar en stofninn gefur. Auðvitað geta verið einhverjar aðrar ástæður sem ég þekki ekki fyrir því að flotanum tekst ekki að veiða það sem gert er ráð fyrir að hann eigi að veiða en nærtækast er að álykta að ráðgjöfin hafi að einhverju leyti brugðist og stofninn sé bara ekki eins stór og menn ætluðu. Þess vegna veiðist ekki fiskurinn. Þegar slík staða kemur upp þá breytist aflamarkskerfið í sóknarmarkskerfi og þá hafa menn allt árið til að veiða eins og þeir mögulega geta. Vegna framsalsins, það er rétt, flyst kvótinn yfir á stærri og öflugri skip sem geta verið mjög skaðleg en þetta á eingöngu við þegar ráðgjöfin hefur að einhverju leyti brugðist. Ef við gerum ráð fyrir að ráðgjöfin verði betri ætti sú staða ekki að koma upp, sérstaklega ef veiðifæri eru það góð að flotinn geti náð þeim afla sem gert er ráð fyrir. Þessi agnúi hefur komið upp einstaka sinnum en er, held ég, fremur galli á vísindalegari ráðgjöf en kerfinu sem slíku.