Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:36:54 (4613)

2001-02-14 15:36:54# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Rétt er að fagna þeirri skýrslu sem hér er til umræðu sem samin var af Byggðastofnun um stöðu sjávarbyggða. Það er um margt fróðleg lesning. Það sem vekur hins vegar einna mesta athygli við lestur skýrslunnar eru hinar tíðu og mörgu tilvitnanir í hina samþykktu þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 1999--2001. Það er athyglisvert vegna þess að skýrslan er gefin út í desember árið 2000. Við höfum verið að lesa hana árið 2001, þegar ætti að vera komið undir lok á framkvæmd þeirrar stefnu í byggðamálum sem var áætluð fyrir árin 1999--2001.

Þess vegna, herra forseti, er nauðsynlegt að spyrja hæstv. byggðamálaráðherra hvenær við megum vænta þess að tekið verði til umræðu hvernig til hefur tekist í framkvæmd stefnunnar í byggðamálum fyrir 1999--2001, en hæstv. ráðherra hefur nokkrum sinnum tjáð þingheimi að sú umræða standi til nú í vetur og því spyr ég, herra forseti, hvort við megum ekki búast við þessari umræðu fyrr en síðar.