Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:35:50 (4704)

2001-02-15 14:35:50# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. 1. flm. vera óþarflega snakillur yfir því að hann mæti andstæðum sjónarmiðum og ekki sérstaklega málefnalegt að ætla að afgreiða þau á þann hátt sem hv. þm. gerði og færi betur á því að hann talaði fyrir máli sínu og hefði þar eitthvað annað fram að færa en að ónotast út í fólk eða flokka sem kunna að vera annarrar skoðunar.

Varðandi knattspyrnu og að slys og óhöpp geta alveg eins hent þegar menn eru úti að hlaupa o.s.frv., menn geta snúið sig og tognað og slitið hásin og guð má vita hvað, og það hendir, þá er nú einmitt hér gangandi sönnun þess að mikill munur er á því og hinu að hljóta heilaskaða í hnefaleikum. Ég er að verða nokkurn veginn alheill og get farið ferða minna frísklega og hlaupið og það er meira en sagt yrði ef ég hefði verið sleginn í rot í hnefaleikum og hlotið varanlegan heilaskaða.