Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:40:52 (5178)

2001-03-05 15:40:52# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef greinilega lesið hugsanir þingmannsins þegar hann bað um andsvar. Hins vegar er engu við það að bæta sem ég sagði áðan um þetta mál. Það er í skoðun og menn gera sér grein fyrir því að hér er ákveðinn vandi á ferð fyrir þá sem hafa kosið að hafa rekstur sinn á eigin nafni. Við þekkjum dæmi um mjög marga sem hafa kannski byrjað smátt en reksturinn síðan vaxið í höndum þeirra og orðið að myndarlegu fyrirtæki. Þeir eiga hins vegar óhægt um vik, eins og skattarnir eru núna, með að breyta rekstrarforminu.

Þetta getur einnig þýtt að mjög erfitt geti verið að koma slíkum rekstri á milli kynslóða, frá eldra fólki til yngra innan sömu fjölskyldu. Þarna eru sem sagt alþekkt vandamál og þingmaðurinn benti á nokkur atriði í því sambandi. Eins og ég segi þá erum við að vinna að því innan veggja ráðuneytisins að finna leið út úr þessum vanda, sem birtist í því að við núverandi skattalög myndast iðulega mikill söluhagnaður sem skattlagður er til fulls samkvæmt núgildandi reglum.