Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:45:26 (5337)

2001-03-07 15:45:26# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:45]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er af og til rætt um flutning stofnana út á landsbyggðina. Við megum passa okkur á því að stilla þessu ekki upp með þeim hætti að landsbyggðin og Reykjavík séu einhverjir sérstakir óvinir. Langt í frá. Við erum ein þjóð í einu landi og við eigum að kappkosta að nýsköpunin flytjist sem allra mest út á landsbyggðina. Ég er mjög glaður yfir því að stofnun eins og Byggðastofnun skuli vera færð út á land vegna þess að Byggðastofnun er auðvitað landsbyggðarstofnun. Það kom hér fram áðan að oft verða gríðarlegir hvellir þegar verið er að flytja rótgrónar stofnanir út á landsbyggðina, og voru Landmælingar nefndar í því sambandi, en það er afar gaman að koma í þá stofnun á Akranesi og sjá hve myndarlega í raun og veru hefur verið staðið að verki. Við eigum því auðvitað að kappkosta að öll nýsköpun sem á sér stað færist út á land og ég tel að markmiðssetning iðnrh. í þessum efnum sé mjög góð eins og kemur fram í skýrslunni.