Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:45:02 (5407)

2001-03-08 12:45:02# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þessi tillaga beinist fyrst og fremst að hæstv. fjmrh. og ég ætla ekki að ræða hana efnislega sem slíka en vil þó segja að samkvæmt íslenskum lögum er óheimilt að mismuna kynjunum í launum. Það var réttilega tekið fram hjá hv. þm., flutningsmanni tillögunnar, að Ísland er í fararbroddi meðal þjóða heimsins í jafnréttismálum. Lagalega höfum við tryggt svo vel sem við höfum vit á jafnrétti kynjanna, en það er erfitt að taka á hlunnindasporslum og það getur verið hluti af þessum kynbundna launamun.

Ísland kom til sérstakrar skoðunar árið 1997 hjá þeirri nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um mismunun gagnvart konum og þar var farið nákvæmlega yfir jafnréttismál á Íslandi og stöðu kynjanna. Við fengum yfirleitt ágæta einkunn, einungis alvarlegar aðfinnslur út af tveimur atriðum, það var kynbundinn launamunur og réttleysi sveitakvenna. Því miður er ekki fyllilega búið að vinna bug á eða bæta úr þeim annmörkum sem nefndin fann hjá okkur Íslendingum. Við höfum hins vegar verið með nokkrar aðgerðir í þá átt. Við höfum búið til módel um kynhlutlaust starfsmat sem er aðgengilegt þeim sem það vilja nota og við settum lög um fæðingarorlof sem ég tel að sé verulegt spor í þá átt að eyða kynbundnum launamun, því nú getur atvinnurekandi sem ræður til sín starfsmann gert ráð fyrir því að karlinn fari, ekki síður en konan, í barneignarfrí.

Ég ætla ekki í fyrstu lotu að beita mér fyrir breytingu á nýsettum jafnréttislögum í þessu efni, en ég er með í undirbúningi að efna til málþings um kynbundinn launamun og við viljum í félmrn. reyna að fá sem víðtækasta samstöðu til þess að kveða niður þennan ósóma, því auðvitað er kynbundinn launamunur ekkert annað en ósómi. Og við eigum að reyna að kveða hann niður með öllum tiltækum ráðum.

Hugur minn stendur til þess að efna nú í vor til málþings um þetta atriði, safna upplýsingum og hugmyndum um það hvernig við getum hugsanlega höndlað þetta vandamál.