Vegamálun hjá Vegagerðinni

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:00:54 (6085)

2001-03-28 14:00:54# 126. lþ. 101.3 fundur 538. mál: #A vegamálun hjá Vegagerðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgrh. um vegamálun hjá Vegagerðinni og kannski í beinu framhaldi af orðum ráðherrans rétt áðan:

1. Hve mikið af vegamálun er boðið út hjá Vegagerðinni og hve mikið framkvæmir Vegagerðin sjálf?

2. Hver er núverandi tækjakostur Vegagerðarinnar í vegamálun?

3. Ætlar Vegagerðin að fjárfesta í nýjum tækjabúnaði fyrir vegamálun? --- sem er nú víst orðin staðreynd. --- Ef svo er, hvað kostar hann, hvenær kemur hann til landsins og hvernig verður fyrirkomulag vegamálunar hjá Vegagerðinni í framtíðinni?

Þetta er ekki stór markaður. Hér hafa verið tveir aðilar sem hafa boðið í verk hjá Vegagerðinni ásamt vegagerðarflokknum. Ef Vegagerðin er að fara að kaupa sér nýjan tækjakost í þetta þá eru orð hæstv. ráðherra ekki alveg nákvæm miðað við fyrri ræðu hans, að stefnt sé að því að bjóða allt út hjá Vegagerðinni, sem ég styð eindregið, og mér þykir mjög sérkennilegt ef þetta verður gert núna á árinu 2001, og þetta fyrirkomulag haft á.