Brjóstastækkanir

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 14:41:09 (6103)

2001-03-28 14:41:09# 126. lþ. 101.5 fundur 539. mál: #A brjóstastækkanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert við það að bæta sem hv. þm. Katrín Fjeldsted sagði í lokin. Ég er hjartanlega sammála því sem fram kom hjá henni. Það er þessi sjálfsímynd sem er svo mikilvægt að sé sterk. Hún byggist ekki á brjóstastærðinni einni saman. Það er alveg rétt að þetta er mikill fjöldi, um 250 aðgerðir á ári. Þá erum við að tala um að hvern virkan dag sé gerð ein slík aðgerð, ein slík fegrunaraðgerð. Það er alveg sama hvaða aðgerð við förum í, við getum aldrei alveg ábyrgst að ekki séu aukaverkanir af þeim aðgerðum. En auðvitað vitum við líka hér í þingsalnum að mikilvægt er að gera sumar þessar aðgerðir. Þær eru alveg nauðsynlegar. En fjölmargar er gerðar eingöngu vegna þess að búið er að koma þeirri ímynd inn hjá konunni að hún eigi að vera með akkúrat vissan sentimetrafjölda, bæði um sig miðja og á fleiri stöðum.