Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:16:07 (6373)

2001-04-05 11:16:07# 126. lþ. 107.8 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra rekur minni til var ég aldrei fyllilega sáttur við þá skiptingu sem niðurstaða varð um á sínum tíma. Ég taldi að Norðmenn hefðu fengið allt of stóran hlut úr stofninum þegar tekið er tillit til þess að það voru þeir með smásíldardrápum sínum inni á fjörðum í Noregi sem áttu langstærstan hlut í að þessi stofn hrundi á sínum tíma en alls ekki veiðar Íslendinga á fullorðinni kynþroska síld. Það sem mér þykir ákaflega slæmt við þetta, eins og ég heyri að hæstv. ráðherra þykir líka, er sú staðreynd að ekki er farið eftir ráðgjöf ICES. Það er verið að veiða snöggtum meira en lagt er til af sérfræðingum. Það er ákaflega slæmt fyrir Íslendinga vegna þess að með þessum hætti er verið að halda stofninum niðri. Það skiptir máli fyrir okkur að hann verði stór því að eftir því sem hann stækkar þá aukast líkurnar á því að hann sæki aftur í sitt gamla far, þ.e. að hann gangi inn á íslenskt hafsvæði. Það mundi hins vegar þýða að við gætum í krafti ákveðinnar endurskoðunarreglu sem á sínum tíma var samþykkt gert tilkall til stærri hluta.

Mig langar, fyrst þetta mál er hér til umræðu, að inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða spár eru núna uppi um framvindu þessa stofns. Er gert ráð fyrir því að hann stækki á næstu árum? Ég spyr vegna þess að á síðustu árum hefur stofninn greinilega verið að minnka, ekki bara núna heldur líka held ég undanfarin ár.