Tilkynning forseta um útbýtingu þingskjala

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 19:02:22 (7637)

2001-05-12 19:02:22# 126. lþ. 121.1 fundur 536#B tilkynning forseta um útbýtingu þingskjala#, KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú stendur yfir útbýtingarfundur sem hófst í raun klukkan hálfsex en svo var honum skyndilega frestað. Herra forseti, nú eru þjónar þingsins á fleygiferð að útbýta skjölum. Það hefði kannski verið betra eða skynsamlegra, af því að hv. þm. Pétur Blöndal talaði hér um verðmæti o.s.frv., og tímanum betur varið ef þeir hefðu tekið til starfa strax klukkan hálfsex. En skyndilega var gert hlé á þessum útbýtingarfundi og engu dreift. Ég dreg þá ályktun, herra forseti, að það hafi alls ekki verið ætlunin, með fullri virðingu, að dreifa þeim skjölum sem nú er verið að dreifa. Enda las hæstv. forseti upp, þegar hann var að lýsa hvaða skjölum hefði verið dreift, að fyrsta skjalið sem væri dreift væri frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira.

Það er því alveg ljóst að það átti aðeins að dreifa einu skjali á þessum fundi. Það var frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira. Frumvörpin sem verið er að dreifa núna eru spenvolg eins og nýmjólk, nýkomin úr ljósritunarvélinni. Það er hitapera í ljósritunarvélinni sem orsakar að blöðin hitna og ef þau hitna of mikið þá kviknar í þeim. En nú er ég að tala um störf forseta og má ekki vera með fræðslu um þetta. En þetta er alvarlegt, að þetta mál skuli bera svona að. Mér finnst það mjög ólýðræðislegt að svona skuli staðið að verki. Ég vona heils hugar, herra forseti, að ályktanir mínar um að þú hafir ekki vitað hvað átti að gera á þessum fundi hafi réttar.

(Forseti (HBl): Þingmönnum ber að segja herra forseti.)

Afsakið, herra forseti.