Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:29:01 (8053)

2001-05-17 22:29:01# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:29]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hæstv. samgrh. áðan komu fram upplýsingar um leigulínuverð og það allt saman sem við höfum farið í gegnum í morgun og dag. Ég ætla ekki að lengja umræður með því. En ég ætla að taka í fyrri hlutanum, á þessari einu mínútu minni, dæmi sem við höfum verið að fjalla um. Það er um loftlínulengdina, þ.e. hvernig Danir nota 75 km sem hámark. Þeir nota loftlínulengd til að mæla þetta en ekki línulengd.

Herra forseti. Það er 435 km línulengd til Ísafjarðar en ekki nema rúmir 220 km í loftlínu ef við förum inn á danska kerfið. Þetta þýðir, herra forseti, að hver einasti dalur og fjörður er skattlagður. Hver einasti dalur og fjörður er skattlagður hvað varðar leigulínuverð.

Hæstv. samgrh.: Er sanngjarnt að skattleggja hvern einasta dal og hvern einasta fjörð og búa til leigulínuverð út frá því?