Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:09:25 (856)

2000-10-19 17:09:25# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki oft sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur í ræðustól og talar þannig að mál hans er fullkomlega laust við sannfæringar- og ástríðuþróttinn sem einkennir hann þó endranær. Það var alveg ljóst að þessi hv. þm. veit a.m.k. ekki hver er stefna Sjálfstfl. í þessum málum. Ég mundi í hans sporum ekki tala mikið um fartölvuvæðingu hæstv. menntmrh. Hvernig var hún, herra forseti? Menntmrh. gefur út tilskipun um að allir skuli fá fartölvur. Hvernig fá þeir fartölvurnar? Þeir þurfa að kaupa þær sjálfir eða leigja þær sjálfir. Sumir geta það, sumir geta það ekki. Hvað með kennarana?

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að framtíðin í menntakerfi Íslendinga mun mótast af byltingu en það verður ekki fyrr en hæstv. núv. menntmrh. er kominn í annað starf og annar flokkur kominn í þetta ráðuneyti. Það er nefnilega þannig að sá sem hefur ráðið flest af því starfsfólki sem vinnur í menntakerfinu í dag er flokkurinn sem hefur stjórnað síðustu 16 árin, það er Sjálfstfl. Nú kemur í ljós að hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að það sé efst á stefnuskrá Sjálfstfl. að ryðja vinstri mönnum burt úr skólakerfinu. Hvað heitir þetta? Þetta hét á síðasta áratug ,,Berufsverbot``. Þetta hét það, herra forseti, að mönnum skyldi meinað að sinna ákveðnum störfum af því að þeir höfðu tilteknar pólitískar skoðanir. Síðan hvenær varð þetta stefna Sjálfstfl.? Hvenær gerðist það að þingmaður kemur hingað í ræðustól og leyfir sér að segja að það þurfi að ryðja burt fólki úr hinum opinbera geira vegna þess að það hefur tilteknar pólitískar skoðanir?

Herra forseti. Á hvaða öld lifir þessi þingmaður?