Miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 15:21:48 (1800)

2000-11-15 15:21:48# 126. lþ. 25.9 fundur 221. mál: #A miðlægur gagnagrunnur lyfjanotkunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svarið. Mér finnst rétt að þegar breytingar eru boðaðar séu gefnar góðar upplýsingar um hvað er verið að undirbúa. Hér er vísað til danska gagnagrunnsins og að þetta verði miðlægur gagnagrunnur þar sem heildarverð lyfja komi inn, en ekki um lyfjanotkun og þar verða engar persónuupplýsingar. Mér finnst mjög mikilvægt að það hafi komið fram.

Ég tek undir spurningu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um þau lyf sem ekki eru niðurgreidd af Tryggingastofnun ríkisins. Verða þau einnig skráð í þennan grunn þannig að hægt sé að fá betra yfirlit? Síðan mætti bæta við spurningunni um hvort þessi grunnur verði þá að einhverju leyti tengdur við aðra gagnagrunna. Hér er eingöngu verið að tala um lyfjaverð en er hugsanlegt að þessi gagnagrunnur verði tengdur við aðra gagnagrunna á heilbrigðissviði sem þegar eru til staðar?