Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:06:49 (2006)

2000-11-21 14:06:49# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að deila við hv. þm. Guðmund Hallvarðsson hvor okkar þekki betur dreifbýlið því í árum talið er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson eldri en ég. Ef við teljum þetta í árum þá get ég sjálfsagt verið sammála honum. Hins vegar bý ég úti á landsbyggðinni og þekki því þessi mál þó nokkuð vel. Þetta er eitt af því sem er býsna oft rætt á fundum sem við höldum úti í hinum dreifðu byggðum. Það er akkúrat verið að tala um dreifingarkostnaðinn.

Eins og hv. þm. kom inn á er þetta löngu þekkt fyrirbrigði og þetta er ákveðið óréttlæti. Þegar um óréttlæti er að ræða þá finnst mér mjög nauðsynlegt að taka á því. Mér finnst engin sanngirni í því að við látum þetta standa óbreytt jafnvel áratug eftir áratug. Við þingmenn erum m.a. til að breyta lögum og til að ná ákveðnu hagræði og við eigum að beita okkur fyrir því að ná réttlæti í þessum málum. Það er óþolandi fyrir einyrkja í vöruflutningum að þurfa að búa við svo sérkennilegt ástand eins og ég var að benda á í ræðu minni.