Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:41:41 (2044)

2000-11-21 18:41:41# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í fjármagnstekjuskattsnefndinni sem ég átti sæti í á sínum tíma lagði ég til að allar tekjur yrðu skattlagðar eins. En þá að sjálfsögðu miðað við raunvexti sem eru að meðaltali núll yfir allt þjóðfélagið --- þeir eru sennilega jafnvel í mínus núna þannig að það gæfi ríkissjóði engar tekjur --- og að söluhagnaður og tap yrði frádráttarbært frá tekjum. Þá er ég hræddur um að lítið yrði eftir og margir yrðu glaðir sem eru búnir að tapa kannski einhverjum milljónum á deCode og slíku undanfarið, að geta dregið frá tekjuskatti og vera kannski tekjuskattsfrjálsir í nokkur ár. Þetta þyrfti að sjálfsögðu að vera ef menn ætluðu að hafa kerfið rökrétt í sjálfu sér þannig að það er ekki alveg svo einfalt að segja að það eigi að skatta allt eins. Á þetta var ekki fallist á sínum tíma vegna þess að menn sáu fram á að fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs yrði sennilega bara núll, þ.e. ef þetta yrði reyndin.