Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:05:41 (2058)

2000-11-21 20:05:41# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði í umræðunum í gær að ég sæi ekki lengra fram í tímann núna en ég gerði 1996 og ætli ég verði bara ekki að viðurkenna það í þessu. Við sjáum kannski ekki út yfir alla króka og kima í þessu máli eða inn í öll skúmaskot sem kunna að leynast í skattalögunum en við verðum jafnan að vera undir það búin að takast á við ný vandamál sem upp koma. Ég held að aðaláskorunin í þessu sé að vera á öllum sviðum með kerfi sem er bæði samkeppnishæft gagnvart útlöndum en líka þannig að það hvetji fólk ekki til þess að leita sér að sérstökum útgönguleiðum. Vera með kerfi, eins og við erum að leggja til í dag, sem er það sanngjarnt gagnvart fólki að það hafi enga sérstaka ástæðu til þess, vegna þess að ég hygg að flestir vilji, eins og hv. þm. Kristinn Gunnarsson sagði, leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins.