Uppgjör vegna innlausnar íbúða í félagslega íbúðakerfinu

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:51:52 (2863)

2000-12-06 15:51:52# 126. lþ. 42.7 fundur 302. mál: #A uppgjör vegna innlausnar íbúða í félagslega íbúðakerfinu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Umrædda heimild sem hv. þm. vísar til og er að finna í fjárlögum þessa árs var einnig að finna í fjárlögum ársins 1999 og kom þar inn að frumkvæði okkar félmrh. Sú heimild var ekki nýtt á árinu 1999, enda var varasjóður viðbótarlána þá rekinn með 15 millj. kr. afgangi. Á þessu ári er ljóst að halli verður á sjóðnum og ákveðið hefur verið að inna af hendi 50 millj. kr. framlag til sjóðsins og var það greitt fyrir u.þ.b. hálfum mánuði. Þar með er spurningum hv. þm. á hinu skriflega þingskjali í raun og veru svarað.

En að því er varðar framhaldið á árinu 2001, þá vil ég láta þess getið að sambærileg heimild er fyrir hendi í fjárlagafrv. næsta árs. Ekki hefur verið gerður samningur eins og heimild þessa árs gerir beinlínis ráð fyrir heldur er sá samningur ógerður. Ég vænti þess að það takist að ganga til slíkra samninga við samtök sveitarfélaga um framhald þessa máls í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur undanfarin missiri og með betri yfirsýn yfir þetta mál en kannski hefur verið að undanförnu. Reynsla af þessu fyrirkomulagi er tiltölulega lítil vegna þess að sjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 1999. Við munum ganga til þeirra samninga með þá reynslu sem fengist hefur að leiðarljósi og vonandi betri yfirsýn yfir þessi mál.