Verðbréfaviðskipti

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:12:19 (3484)

2000-12-16 13:12:19# 126. lþ. 51.11 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv. 163/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 126. lþ.

[13:12]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. verður bara að lesa ræður sínar frá því í fyrravor til þess að finna út hvort hún gagnrýndi að reglugerðarheimildin skyldi tekin út eður ei.

Ég tel mikilvægt að Samfylkingin geri sér grein fyrir því hvort fjárstreymi úr landi eða inn í landið sé efnahagslegt vandamál. Hv. þm. gagnrýndi að lífeyrissjóðir væru að fjárfesta erlendis og að heimildir þeirra til þess að fjárfesta erlendis hefðu verið rýmkaðar. Hún talaði um nauðsyn þess að setja í lög eitthvað um fjárfestingarstefnu hlutabréfasjóða. Ég vildi spyrja hv. þm.: Hvort álítur Samfylkingin að vandamál þjóðfélagsins felist í fjárstreymi inn í landið, sem fjármagnar viðskiptahallann og umframeyðsluna, eða fjárstreymi úr landi sem er þá til þess fallið að draga úr viðskiptahallanum og umframeyðslunni? Hvort er vandamálið ef ég mætti spyrja, herra forseti? Getur Samfylkingin gert sér grein fyrir því hvort er vandamálið, viðskiptahallinn og fjárstreymið inn í landið eða fjárstreymið út úr landinu?