Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 3  —  3. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að haldið verði aukaþing sumarið 2001 þar sem fjallað verði um framtíðarþróun byggðar í landinu og í framhaldi af því mótuð markviss byggðastefna til næstu tveggja áratuga. Í tengslum við þingið verði haldin almenn byggðaráðstefna með aðild sveitarstjórna, helstu stofnana sveitarfélaga og hins opinbera sem annast byggðamál, félagasamtaka og einstaklinga.

Greinargerð.


    Mörg undanfarin ár hafa byggðamál og þróun byggðar í landinu verið talin með mikilvægustu úrlausnarefnum í íslensku samfélagi, ekki síst vegna þess að síðustu ár hefur fólk þyrpst á höfuðborgarsvæðið með þeim afleiðingum að dregið hefur úr þrótti landsbyggðarinnar til þess að viðhalda atvinnu, reka viðunandi þjónustu fyrir íbúana og hlúa að blómlegu mannlífi. Þetta hefur orðið þrátt fyrir að á sama tíma hafi veruleg uppbygging átt sér stað víða úti á landi. Þorp og bæir hafa tekið stakkaskiptum, breytingar hafa orðið í landbúnaði og ýmis sveitarfélög eru á margan hátt fullkomlega fær um að taka við mun meiri og fjölbreyttari atvinnu en þar er nú stunduð, en skortir mannafla til.
    Landsmenn vakna sífellt betur til meðvitundar um hinar neikvæðu afleiðingar byggðaröskunar undanfarinna ára. Æ fleiri gera sér ljóst hvaða möguleikar eru í því fólgnir fyrir þjóðlífið að nýta kosti dreifðra byggða landsins, svo sem fengsæl fiskimið, búsældarlegar sveitir og fjölbreytta, einstæða náttúru. Jafnframt vex skilningur á því að til þess að svo megi verða í nútíð og framtíð þarf að efla byggðirnar og auka hlutverk þeirra í sameiginlegum rekstri þjóðarbúsins. Þetta er liður í ævarandi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
    Á undanförnum árum hefur mörgum aðgerðum stjórnvalda verið ætlað að efla og treysta byggð í landinu. Sumar þeirra hafa borið árangur, aðrar ekki. Helsta ástæða árangursleysis eru ómarkviss viðbrögð við tímabundnum vanda einstakra byggða. Oft er gripið til ráðstafana án þess að hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi af því að á það hefur skort að vandinn á landsvísu hafi verið skilgreindur. Þingmenn sem þingflokkar hafa lagt fram margar, metnaðarfullar tillögur sem ekki hafa verið til lykta leiddar. Sveitarstjórnir, félagasamtök og einstaklingar hafa leitað nýrra leiða en ekki heldur haft erindi sem erfiði nema að takmörkuðu leyti.
    Mikilvægt er að þjóðarsátt náist um leiðir til þess að leysa þann knýjandi vanda sem byggðaþróunin hefur skapað og skapar enn, enda er um að ræða hagsmuni þjóðarinnar allrar. Af þeim sökum er fyllsta ástæða fyrir stjórnvöld að fara skipulega yfir allar tillögur sem komið hafa fram á undanförnum þingum ásamt hugmyndum einstaklinga og sveitarfélaga um farsæla þróun byggðar í landinu, taka formlega afstöðu til þessa efnis, leita sameiginlegra lausna og setja fram markvissa áætlun um framtíðarþróun byggðar á Íslandi.
    Þess vegna er lagt til að boðað verði til aukaþings sumarið 2001 þar sem eingöngu verði fjallað um byggðamál, aðgerðir hins opinbera í þeim efnum og tillögur og hugmyndir sem fram hafa komið á síðustu áratugum til lausnar vanda í byggðaþróun. Í tengslum við þingið verði haldin almenn byggðaráðstefna þar sem fulltrúar sveitarstjórna, stofnana sveitarfélaga og hins opinbera sem annast byggðamál, fulltrúar félagasamtaka og einstaklingar sem láta sig málið varða geta borið saman bækur sínar og veitt þinginu stuðning og aðhald í störfum.