Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 13  —  13. mál.


Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Gísli S. Einarsson.



    Alþingi ályktar að fram fari endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála í landinu. Nefnd sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka meti reynslu af núverandi fyrirkomulagi og geri tillögur til Alþingis um nýskipan á þessu sviði.

Greinargerð.


    Staðhæft hefur verið að rafmagnseftirliti sé mjög ábótavant í landinu í kjölfar þess að horfið var frá opinberu eftirliti með háspennu- og lágspennuvirkjum, þ.e. dreifikerfum rafveitna og neysluveitum til hins almenna notanda. Þess í stað var tekin upp takmörkuð úrtaksskoðun á vegum einkaaðila undir umsjón Löggildingarstofu.
    Þessar breytingar hafa verið gagnrýndar á ýmsum forsendum og vegur þar þyngst að dregið hafi úr eftirliti og þar með öryggi. Þá hefur verið bent á byggðasjónarmið og því haldið fram að starfsemi sem áður fór fram utan höfuðborgarsvæðisins hafi verið flutt á suðvesturhornið þar sem skoðunarstofurnar eru.
    Þriggja manna nefnd sem þáverandi iðnaðarráðherra skipaði var falið það verkefni sumarið 1999 að kanna þessa gagnrýni. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni m.a. vegna þess að ekki var samstaða um að leita upplýsinga sem allir nefndarmenn teldu fullnægjandi.
    Í ljósi þessa ákváðu flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu að gangast fyrir könnun á viðhorfum til rafmagnsöryggismála í landinu. Send voru bréf til löggiltra rafverktaka, rafveitna, tryggingarfyrirtækja og aðila sem sinna brunavörnum. Um 600 aðilar voru spurðir álits og fengust svör frá 200 eða um það bil þriðjungi þeirra sem spurðir voru.
    Helstu niðurstöður könnunarinnar voru:
     Aðeins einn af hverjum fimm sem svöruðu telur núverandi ástand rafmagnsöryggismála viðunandi. Rúmlega þrír fjórðu, 76,5%, telja hins vegar núverandi ástand rafmagnsöryggismála óviðunandi.
     78% telja að af hálfu opinberra aðila hafi ekki nægilega verið kannað ástand rafmagnsöryggismála eftir að breytingar voru gerðar á eftirlitskerfinu.
     82,5% þeirra sem svara telja að eftirlitskerfinu beri að breyta þar af vilja 38% hverfa til fyrra fyrirkomulags en 44,5% vilja nýtt eftirlitskerfi þar sem til greina kæmi nýtt fyrirtæki á vegum hins opinbera með dreifingu starfsmanna um land allt.
     Í könnuninni var spurt um markaðseftirlit raffanga og töldu 59% svarenda því vera ábótavant. Aðeins 7,5% töldu að einkareknar skoðunarstofur ættu að annast þetta eftirlit. Hins vegar vildi um helmingur að sömu aðilar og sjá um eftirlit raforkuvirkja sinni eftirliti raffanga.
    Flutningsmenn telja afar mikilvægt að sátt náist um rafmagnseftirlit í landinu og að ítrustu kröfur verði gerðar um öryggi. Þess vegna er lagt til að Alþingi skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka til þess að safna fullnægjandi uppýsingum um stöðu þessara mála, kanna þá gagnrýni sem fram hefur komið á núverandi skipan mála og gera tillögur til Alþingis um nýskipan sem sátt getur orðið um.