Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 16  —  16. mál.
Tillaga til þingsályktunarum tóbaksverð og vísitölu.

Flm.: Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frumvarp til laga sem miði að því að slitin verði tengsl tóbaksverðs og vísitölu sem notuð er um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Stefnt skal að því að leggja slíkt frumvarp fram hið allra fyrsta og verði gildistaka miðuð við 1. janúar 2001.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi hefur þrívegis áður verið flutt en ekki orðið útrædd. Hún er endurflutt hér óbreytt, en greinargerð hefur verið aukin og nýjum upplýsingum bætt þar inn auk þess sem nýjar upplýsingar koma fram í fylgiskjölum.
         Á 122. löggjafarþingi voru samþykktar allveigamiklar breytingar á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, ekki síst í því skyni að hamla gegn tóbaksneyslu barna og unglinga. Breytingar þessar voru vissulega til bóta þótt ekki hafi þar verið gripið til þess úrræðis sem telja má hvað áhrifaríkast til þess að minnka tóbaksneyslu, þ.e. raunhækkunar á tóbaksverði. Þótt tóbaksverð hafi vissulega hækkað á þeim árum sem liðin eru síðan lögunum var breytt hefur ekki verið gripið til þess ráðs að hækka verð á tóbaki verulega umfram aðrar verðbreytingar í forvarnarskyni.
    Almennt er viðurkennt — og styðst við fjölda athugana — að sterk tengsl séu milli tóbaksverðs og tóbaksneyslu. Sé tóbaksverð hækkað er reglan sú að það leiðir til minni tóbaksneyslu og hækkun á tóbaksverði er talin ein einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að draga úr reykingum. Svonefnd verðteygni, þ.e. þau áhrif sem ætla má að hækkun umfram almennar verðbreytingar hafi á neyslu, virðist hvað tóbak snertir vera á bilinu -0,3 til -0,6, en það merkir að hækki tóbaksverð um 10% verður neyslan frá 3% og allt að 6% minni en ella hefði orðið.
    Ítarleg bresk rannsókn sem gerð var fyrir nokkrum árum sýndi að tóbaksverð hafði áhrif á tóbaksneyslu í öllum tekjuhópum þjóðfélagsins en hlutfallslega meiri sem tekjurnar voru lægri. Einnig hefur verið sýnt fram á að eftirspurn eftir tóbaki er í öllum aldursflokkum háð tóbaksverði. Mest eru áhrifin á tóbakskaup unglinga og ungs fólks, svo sem fram hefur komið í rannsóknum í Bandaríkjunum og Kanada. Athyglisvert er að verðið hefur ekki síður áhrif á það hve margir reykja en hitt hve mikið er reykt.
    Ljóst er því að veruleg hækkun tóbaksverðs umfram almennar verðhækkanir getur verið áhrifamikið tæki til að draga úr tóbaksneyslu almennt og ekki síst til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Á alþjóðlegri ráðstefnu um tóbaksvarnir sem haldin var í Chicago í Bandaríkjunum í byrjun ágúst sl. kom fram að kunn og árangursrík ráð til að draga úr tóbaksnotkun væru fyrst og fremst að hækka verð á tóbaki, leggja bann við tóbaksauglýsingum, birta áhrifaríkar auglýsingar gegn reykingum, auðvelda aðgang að aðferðum til að hætta að reykja og berjast ötullega gegn smygli á tóbaki. Á ráðstefnunni kom einnig fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin undirbýr nú fyrsta alþjóðlega tóbaksvarnasáttmálann. Tvær blaðagreinar sem birtust í kjölfar ráðstefnunnar eru birtar sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögu þessari.
    Í íslenskri heilbrigðisáætlun frá 1991 er mælt með hækkunum á verði tóbaks og áfengis í því skyni að draga úr neyslunni. Þar sem heildarneysla minnkar hlutfallslega minna en verð hækkar mundi verðhækkun auk þess ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð heldur tekjuaukningar.
     Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarp til áðurnefndra breytinga á lögum um tóbaksvarnir segir að rætt hafi verið um það í nefndinni „hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnaskyni“ en það sé „tæknilega erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs“ og sé engin tillaga flutt af nefndinni um það.
    Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að rjúfa tengsl tóbaks við vísitölu neysluverðs. Lagt er til að jafnhliða útreikningi hefðbundinnar vísitölu neysluverðs verði reiknuð sérstök vísitala án tóbaks til að nota við ákvarðanir um lánskjör. Þess má geta að þrjú Evrópulönd, Belgía, Frakkland og Lúxemborg, hafa þegar farið þessa leið, í samræmi við tilmæli frá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
    Getið skal að lokum könnunar sem Hagvangur gerði fyrir tóbaksvarnanefnd árið 1991. Meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku lýsti sig fylgjandi því að tóbaksverð hefði ekki áhrif á framfærsluvísitölu. Jafnvel í hópi þeirra sem reyktu var meiri hlutinn þessu fylgjandi.Fylgiskjal I.


Alþjóða heilbrigðisstofnunin undirbýr fyrsta alþjóða tóbaksvarnasáttmálann.
Spjótum beint gegn auglýsingum og smygli.
(Morgunblaðið, þriðjudaginn 22. ágúst 2000.)


    Fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn um tóbaksvarnir er nú í undirbúningi hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO, og eru miklar vonir bundnar við sáttmálann í baráttunni gegn tóbaksnotkun í heiminum. Tóbaksreykingar eru að mati WHO stærstar af þeim dauðavöldum sem hægt er að koma í veg fyrir, en næstu 30 árin er áætlað að fleiri muni deyja af völdum tóbaks heldur en samanlagt af völdum alnæmis, berkla, bílslysa, morða og sjálfsvíga.
    Helsta markmiðið með nýjum sáttmála er að gera ríkjum betur kleift að berjast gegn auglýsingum og markaðssetningu tóbaksfyrirtækja, hjálpa til við miðlun þekkingar um tóbak í heiminum og koma í veg fyrir smygl á tóbaki, að því er fram kom í inngangsræðu Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóra WHO, á 11. alþjóðlegu ráðstefnunni um tóbaksvarnir sem haldin var í Chicago í síðustu viku.
    Aðdragandinn að gerð sáttmálans hófst í maí 1999 þegar allar þjóðirnar, 191, sem eru aðilar að WHO samþykktu að hefja samningaviðræður um frumdrög að alþjóðasáttamála um tóbaksvarnir, en viðræðurnar munu hefjast formlega 16. október nk. í Genf. Vonir eru bundnar við að þessi fyrsti alþjóðlegi sáttmáli um baráttu gegn tóbaki geti haft söguleg áhrif á heilbrigði í heiminum, með fjölþjóðlegri samvinnu sem nær yfir landamæri ríkja til þess sérstaklega að stemma stigu við markaðssetningu tóbaks og smygli.
    Brundtland sagði í ræðu sinni að innleiðing sáttmálans yrði þó erfið í mörgum ríkjum og minntist hún sérstaklega á viðleitni tóbaksfyrirtækjanna til að koma í veg fyrir að ríki muni samþykkta og virða sáttmálann, jafnvel fyrir gerð hans og samþykktar meðal ríkjanna. Hún tók sem dæmi nýlegar niðurstöður rannsóknar sem hópur sérfræðinga vann á vegum WHO, þar sem lagt var mat á hvort að tóbaksfyrirtækin hefðu gert tilraunir til þess að hafa neikvæð áhrif á starf WHO varðandi tóbaksvarnir og var niðurstaða þeirra byggð á skjölum fyrirtækjanna.
    „Niðurstaða þeirra var augljós: Sönnunargögn úr tóbaksiðnaðinum leiddu í ljós að tóbaksfyrirtæki hafa í mörg ár unnið vísvitandi í þeim tilgangi að grafa undan áhrifum af starfi WHO varðandi tóbaksvarnir. Tilraunir þeirra til niðurrifsstarfseminnar hafa verið vandlega útfærðar, vel fjármagnaðar, margbrotnar og yfirleitt ósýnilegar.“

Tóbaksfyrirtækin sjálf stórtækust í smygli á tóbaki
    Á ráðstefnunni í Chicago kom fram á fundi sérfræðinga í tóbakssmygli, að smygl er einn stærsti vandinn sem baráttan gegn tóbaki stendur frammi fyrir. Alþjóðabankinn áætlar að um einn þriðji alls útflutnings á vindlingum í heiminum hverfi inn í arðbæran svarta markað á tóbaksvörum. Aðilar frá Kanada, Hollandi og Brasilíu kynntu á ráðstefnunni umfangið á tóbakssmygli í heiminum og leituðust við að svara spurningunni hver hefði mestan hagnað af smyglinu, en allir aðilar voru sammála um að tóbaksfyrirtækin sjálf væru stórtækust í smyglinu. Þó að svarið hafi ekki komið á óvart meðal ráðstefnugesta kom það fólki engu að síður í opna skjöldu að heyra hversu fyrirtækin í raun stunda mikið smygl.
    Skipulagt smygl á vindlingum hefst venjulega þannig að pöntun í heildsölu er send frá framleiðanda. Mest seldu tegundirnar, s.s. Marlboro, Camel, Mild Seven og 555, eru vinsælastar meðal smyglara, þar sem hægt er að selja þær nánast hvar sem er í heiminum. Þegar varan er send frá verksmiðjunni eða tollgeymslu með skjölum, sem sýna að varan er á leið á löglegan markað, skiptir varan um hendur nokkrum sinnum og er flutt til með ýmsum tilfærslum sem erfitt er að fylgjast með.
    Að lokum leiðir slóð skjalanna rannsóknarmenn að fyrirtækjum, sem ekki eru til eða hafa aðra starfsemi að yfirvarpi, og vindlingarnir eru horfnir á svarta markaðinn. Á fundinum á ráðstefnunni tók Clive Bates, sem starfar fyrir bresk samtök um tóbaksvarnir, sem dæmi að umtalsvert magn af vindlingum sem seldir eru í Bretlandi voru fluttir út til Andorra, þar sem að þeir fóru hvorki á markað né heldur voru þeir fluttir út úr landinu aftur og höfðu því hreinlega gufað upp þegar leitað var af tóbakssendingunum.

Rök tóbaksframleiðenda léttvæg fundin
    Tóbaksframleiðendur hafa haldið því fram að ástæðan fyrir smygli væri fyrst og fremst sú að varan væri of dýr og skattaálögur of miklar á tóbak. Eina ráðið til að minnka smygl sé því að lækka verðið með því að minnka skattaálagningu á tóbaki. Á fyrrgreindum fundi voru þessi rök léttvæg fundin af sérfræðingunum og leiddu þeir í ljós að í raun væri minnst smygl í þeim löndum þar sem skattar á tóbak væru hæstir, svo sem á Vesturlöndum, meðan talsvert meira smygl á sér stað þar sem varan er mun ódýrari, m.a. í Austur-Evrópu og Suður-Ameríku.
    Helsta ástæðan fyrir því að smygl á sér stað í umtalsverðum mæli er hins vegar léleg löggæsla og tollgæsla og viljaleysi og vanmáttur stjórnvalda til að taka á vandamálinu. Þannig þrífst smygl vel í löndum þar sem að lögum og reglum varðandi smygl er lítt fylgt eftir og spilling meðal opinberra starfsmanna er mikil. Þar að auki virðast stjórnvöld margra ríkja ekki vilja líta á smygl á tóbaki sem alvarlegan glæp og refsingar fyrir slík afbrot eru oft aðeins lítið brot af þeim refsingum sem veittar eru fyrir smygl á lyfjum eða vopnum.
    Þetta gerir tóbakssmygl meira aðlaðandi fyrir smyglara sem meta gríðarlegan hagnað af smyglinu meira en þær sáralitlu líkur á að þeir náist og verði dæmdir, fangelsaðir og/eða sektaðir.
    Að mati tóbaksvarnafólks á ráðstefnunni á væntanlegur alþjóðasáttmáli WHO um tóbaksvarnir að geta orðið einstakt tækifæri fyrir ríki heimsins til að stilla saman strengi sína í baráttunni við smygl á tóbaki. Þeir sáttmálar sem núna liggja fyrir varðandi leiðir til að draga úr smygli á lyfjum og vopnum gefa slíku samkomulagi gott fordæmi.

400 Íslendingar deyja árlega vegna tóbaksnotkunar
    Að líkindum nýtur Ísland þeirrar stöðu sinnar, að hér á landi hafa tóbaksauglýsingar verið bannaðar og ekki er vitað til þess að smygl hafi afgerandi áhrif á tóbaksreykingar hér á landi. Engu að síður eru reykingar stórt vandamál á Íslandi sem annars staðar og talið er að um 400 Íslendingar deyi árlega af völdum tóbaks. Engu að síður virðist sem margir landsmanna eigi erfitt með að átta sig á umfangi þessa vandamáls. Þorsteinn Njálsson, læknir og formaður tóbaksvarnanefndar, segir að vissulega virðist sem fólk eigi erfitt með að átta sig á þessa heljarstóra vandamáli.
    „Við erum að tala um að 400 Íslendingar deyi á ári út af tóbaki. Þetta er svo óskaplega mikið og svo margir sem deyja, að fólk á einmitt erfitt með þennan mælikvarða. Og það eru margir, t.d. í ráðandi stöðum í þjóðfélaginu, stjórnmálamenn eða fólk í ráðuneytum, sem hafa ekki tilfinningu fyrir því að tóbakið sé vandamál. Þeir eru af þeirri kynslóð að þeir skilja áfengið, en þeir skilja ekki að tóbakið er verulegt vandamál líka sem við verðum að horfast í augu við. Skaðinn er svo mikill. Ef við getum komið í veg fyrir að eitt þúsund ungmenni byrji að reykja komum við í veg fyrir að 500 fullorðnir einstaklingar deyi af völdum tóbaks.“
    Þorsteinn segir að ráðstefnan í Chicago hafi dregið saman það helsta sem er að gerast í tóbaksvörnum í heiminum í dag og kannski undirstrikað þá eflingu alþjóðlegs samstarfs sem á sér stað varðandi tóbaksvarnir og felst í að deila upplýsingum og kynna þær aðferðir sem hafa virkað í viðkomandi löndum.
    „Snjókornið er orðið að stórum bolta og hann er lagður af stað niður hlíðina og það virðist sem allt mótlæti efli bara samstöðu þessa hóps.“
    Tóbaksvarnafólk um allan heim hefur lagt á það áherslu síðustu árin að gera rannsóknir til að styðja betur málstaðinn gegn tóbaksfyrirtækjunum. Þorsteinn segir að nú sé árangurinn að koma í ljós og að menn séu með góðar vísindalegar rannsóknarniðurstöður á bak við allar fullyrðingarnar.
    „Þetta eru vönduð vinnubrögð og í raun getur enginn í dag verið á móti tóbaksvörnum. Það hefur bæst mikið við af upplýsingum á síðustu 10–15 árum og þær segja allar það sama: Að sígarettur og óbeinar reykingar eru miklu hættulegri en við héldum, miklu hættulegri.“

Stefnt að reyklausum veitingahúsum á næstunni
    Þorgrímur Þráinsson, framkvæmdastjóri tóbaksvarnanefndar, segir að starfið í dag sé orðið mun auðveldara en það var fyrir aðeins þremur árum. „Íslendingar hafa verið að taka sig taki, mér finnst þeir vera jákvæðir gagnvart tóbaksvörnum og ég skynja það, að þeir eru tilbúnir í frekari takmarkanir á reykingum, jafnvel verðhækkanir og annað sem dregið getur úr tóbaksnotkun. Mér finnst Ísland í raun hafa alla burði til að vera í fararbroddi hvar varðar tóbaksvarnir, bæði lagalega og hvað varðar verðhækkanir, takmarkanir, skólafræðslu og annað slíkt.“
    Tóbaksvarnanefnd hefur lagt mikla áherslu á verðhækkanir á tóbaki, en þeir Þorgrímur og Þorsteinn segja að jafnframt því verði á næstunni lögð áhersla á að öll kaffi- og veitingahús hérlendis verði reyklaus, enda má reikna með að slíkt gerist í mörgum löndum í náinni framtíð.
    „Við erum að tala um að 78% fullorðinna á Íslandi séu reyklausir og fyrir hverja eru þá veitingastaðirnir? Þeir verða líka að muna eftir því á veitingastöðunum að þeim ber skylda til að verja starfsfólk sitt og það getur ekki verið góð regla á vinnustöðum að hafa starfsmenn sína í tóbaksreyk allan daginn. Það að reykja er einkamál hvers og eins, sem fremi að hann skaði ekki aðra, enda hafa menn engan rétt til að gera slíkt,“ segir Þorsteinn.
    Að sögn Þorgríms hefur það sýnt sig í Bandaríkjunum að reyklaus veitingahús hafa sýnt betri afkomu eftir að reykingar voru bannaðar, þannig að óttinn við að missa viðskipti með því að banna reykingar hefur verið ástæðulaus fyrir veitinga- og kaffihúsaeigendur. Þorgrímur segir að ekki megi heldur gleyma því, að flestir reykingamenn kjósi einnig sjálfir að borða á reyklausum veitingahúsum.Fylgiskjal II.


Verðhækkanir árangursríkastar til að draga úr reykingum.
Fulltrúar tóbaksvarnanefndar og Krabbameinsfélags
Reykjavíkur telja verðhækkanir nauðsynlegar hérlendis.

(Morgunblaðið, þriðjudaginn 15. ágúst 2000.)


    Hækkun á verði vindlinga er talin ein einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að draga úr reykingum í heiminum í dag, að því er fram kom á 11. alþjóðlegu ráðstefnunni um baráttuna gegn tóbaksnotkun í Chicago í síðustu viku. Í riti sem kynnt var á ráðstefnunni, Tobacco Control in Developing Countries, og unnið var á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, og Alþjóðabankans kemur í ljós að á síðasta ári létu fjórar milljónir manna lífið í heiminum vegna reykinga, eða einn af hverjum tíu fullorðnum sem létust á árinu.
    Miðað við óbreytt ástand er reiknað með að tíu milljónir manna deyi af völdum reykinga árið 2030 og sjúkdómar af völdum tóbaks orsaki dauða 500 milljóna núlifandi jarðarbúa. Til þess að bregðast við þessu alvarlega vandamáli, að mati þessara stofnana, er skattahækkun á tóbakssölu lykillinn að því að draga úr reykingum, og þá sérstaklega meðal fátækara fólks, yngra fólks og þeirra sem hafa frekar litla menntun.
    Íslenskir þátttakendur á ráðstefnunni taka undir þessi rök og vilja að tóbak hækki verulega í verði hér á landi og tóbaksneysla verði ekki vísitölutengd, enda sé það óeðlilegt þar sem reykingafólki hérlendis virðist ætla að fækka verulega á þessu ári. Ennfremur telja þeir að nauðsynlegt sé að hjálpa þeim sem hafa hætt, með því að hækka verð á sígarettupakkanum.
    Í inngangsræðu sinni á ráðstefnunni sagði Gro Harlem Brundtland, aðalframkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, að þótt merkja mætti árangur í baráttunni við reykingar í hinum vestræna heimi væru tóbaksreykingar engu að síður vaxandi vandamál á heimsvísu sem líkja mætti við alnæmisfaraldurinn, enda gera spár ráð fyrir að dauðsföllum af völdum reykinga fjölgi verulega í þróunarlöndunum á næstu áratugum.

Verðhækkanir leiða til færri dauðsfalla og aukinna skatttekna
    „Tóbak er ekki aðeins mannlegur harmleikur, tóbak leggur einnig miklar byrðar á heilbrigðiskerfi okkar. Það kostar skattgreiðendur peninga. Það dregur úr framleiðni í efnahagskerfum okkar. Við höfum séð þetta eiga sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu. En nú eru þessar byrðar að leggjast á þróunarlöndin, lönd sem þurfa á öllum sínum auðlindum að halda til að byggja sig upp félagslega og efnahagslega. Þau hafa ekki fjármagn til að eyða í ónauðsynlegan kostnað vegna faraldurs af manna völdum.“
    Brundtland sagði að WHO væri búið að taka að sér lykilhlutverk í heimsbaráttunni gegn tóbaki, og ástæðan væri augljós. Meginmarkmið stofnunarinnar væri að vinna að bættri heilsu um heim allan og því fylgdi m.a. barátta við malaríu, berkla og alnæmi, en til þess að uppfylla markmiðin yrði Alþjóða heilbrigðisstofnunin einnig að leggja allt í sölurnar til að draga úr hinum hræðilegu afleiðingum tóbaksnotkunar. Þær aðgerðir sem menn einblíndu fyrst og fremst á væru vel þekktar og árangursríkar: Verðhækkanir, algert bann við tóbaksauglýsingum og því að þiggja styrki frá tóbaksframleiðendum, áhrifaríkar auglýsingar gegn reykingum, greiðari aðgangur að aðferðum til að hætta, reykfrí svæði og barátta gegn smygli.
    Þessar aðferðir eru kynntar í riti WHO og Alþjóðabankans og sagði Brundtland að ritið sýndi fram á að aukin skattlagning á tóbakssölu drægi bæði úr reykingum og yki jafnframt skatttekjur. „Það eru virkilega góðar fréttir og uppgötvun sem ríkisstjórnir um heim allan þurfa að nýta sér.“
    Samkvæmt niðurstöðum þeirra ríflega 40 sérfræðinga frá 13 löndum sem unnu að ritinu fyrir WHO og Alþjóðabankann myndi 10% skattahækkun á sígarettuverði leiða til þess að um 42 milljónir manna í heiminum hættu að reykja og slíkar hækkanir kæmu í veg fyrir um tíu milljónir dauðsfalla af völdum tóbaksnotkunar. Auk þess sem dauðsföllum fækkaði ættu skatttekjur ríkja af tóbakssölu að aukast um 7% í kjölfar 10% hækkunar á álagningu.

Reykingar á Íslandi minnka verulega á fyrri hluta ársins
    Þau Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, Þorgrímur Þráinsson, framkvæmdastjóri tóbaksvarnanefndar og Þorsteinn Njálsson, læknir og formaður tóbaksvarnanefndar, voru meðal þeirra tólf Íslendinga sem sóttu ráðstefnuna í Chicago. Svo virðist sem góður árangur hafi náðst í baráttunni gegn reykingum hér á landi á þessu ári, en samkvæmt könnun sem PriceWaterhouse Coopers vinnur fyrir tóbaksvarnanefnd á hverju ári hafa reykingar minnkað um 18% á fyrri hluta þessa árs frá í fyrra.
    Undanfarin 3–4 ár hafa reykingar hins vegar aðeins minnkað um 1% árlega, þannig að þetta er umtalsverður árangur. Þennan árangur þakka þau öflugri auglýsingaherferð á fyrri hluta ársins, auk þess sem hugsanlega hafi margir ákveðið að hætta á aldamótaárinu. Þorsteinn segir jafnframt að starfið undanfarin ár skipti þarna miklu máli, en eitt af markmiðum tóbaksvarnanefndar hefur verið að auka umræðuna um tóbak og reykingar og draga þannig fram skaðsemi og alvöru þess að reykja.
    Guðlaug sagði í samtali við Morgunblaðið á ráðstefnunni að sérstök áhersla hefði verði lögð á verðhækkanir meðal ráðstefnugesta. Þorgrímur tók undir það og sagði að á öllum þeim fundum sem hann hefði sótt hefðu skilaboðin verið þau að hækkun verðs á sígarettum skilaði fyrst og fremst árangri í baráttunni gegn reykingum.

Verðhækkun hjálpar fólki að hætta reykingum
    „Því miður er tóbaksverð tengt framfærsluvísitölu á Íslandi og stjórnmálamenn hafa haldið aftur af sér í verðhækkunum í ljósi þess að það hækkar verðbólguna o.s.frv. En þá spyr maður á móti: Hvernig meta stjórnmálamenn mannslíf? Ef það er gefið mál að 10% hækkun á tóbaki forðar kannski þúsund unglingum frá því að byrja að reykja, hvað bjarga stjórnmálamenn þá mörgum mannslífum til lengri tíma litið með þessu?“
    Þorsteinn telur mjög óeðlilegt að vísitölutengja tóbak og segir nefndina ítrekað hafa ályktað um það mál og beint þeim tilmælum til stjórnmálamanna að þeir taki tóbaksverð út úr vísitölunni. „Og mér finnst núna orðin ennþá meiri ástæða til þess að íhuga það. Nú erum við að tala um að 22% fullorðinna noti tóbak og við eigum ekki að hafa þetta inni í vísitölunni. Það er engin ástæða til þess, það væri hins vegar mikill munur ef yfir 30% notuðu tóbak.
    En við verðum að fá tóbakshækkun og verulega tóbakshækkun. Tíu prósenta hækkun á tóbaki þýðir 5% samdrátt í reykingum. Þannig að með þennan samdrátt núna í reykingum, úr 27% niður í 22% sem er um 18–20% lækkun, verðum við að hækka verð á tóbaki til að hjálpa því fólki sem hættir núna til að byrja ekki aftur. Verðhækkun kemur í veg fyrir að fólk byrji aftur. Það bara verður að gerast, þetta er svo ódýr leið og einföld,“ segir Þorsteinn.